26. apríl 2012
Útgerðin á að borga til samfélagsins
Nú standa fyrir dyrum róttækar breytingar á stjórn fiskveiða. Grundvallarkrafan er sú að þjóðin eigi fiskinn í sjónum og að þeir sem fái að veiða hann borgi réttmætan skerf til samfélagsins.
Nú er það svo að fiskistofnarnir eru í sameign þjóðarinnar. Það er skýrt í lögum. Þar með er ekki sagt að allir Íslendingar hafi sama rétt til veiða. Rétturinn til að veiða þennan fisk gengur nefnilega kaupum og sölum samkvæmt stagbættu, nærri þrjátíu ára gömlu kerfi sem kallast kvótakerfi.
Kvótakerfið er skömmtunarkerfi, sett til ögunar og stuðnings þjóð sem hefur villimannseðli þegar kemur að verðmætum. Þá sjaldan nýir stofnar þvælast inn í landhelgina rennur yfirleitt á menn gullæði og þeir hefja æðisgengið útrýmingarkapphlaup. Hafi aðrar þjóðir eitthvað við þá háttsemi að athuga brestur yfirleitt á með dúndrandi þjóðrembu og tilheyrandi milliríkjadeilum.
Ef það syndir í íslenskum sjó munu einhverjir Íslendingar eiga mjög erfitt með að stilla sig um að skjóta það, krækja í það eða kæfa það til bana. Það er ástæða fyrir því að þjóðin sér frekar sjávarfang á mynt en matardiskum. Við erum gráðug og höfum sannað það að okkur er fyllilega treystandi til að útrýma gæðum.
Þótt tilkall útgerðarmanna til kvótans sé ekki hafið yfir siðferðilegan vafa þá er hreinlega ósatt að tilkallið sé ekki til staðar. Í sumum tilfellum virðist það algjörlega augljóst. Skoðum kröfuna um að útgerðarmenn taki nú á sig meiri álögur og leggi loksins sinn skerf til þjóðarbúsins.
Það gleymist oft í þessari umræðu að hið opinbera átti takmarkalítinn aðgang að auðlindinni. Sveitarfélög landsins sátu við kvótakjötkatlana eins og aðrir greifar og nutu af henni ríflegs ávinnings. Það vill bara svo til að flest sveitarfélög ákváðu á einhverjum tímapunkti að af því væri meiri gróði að nýta sér framsals- og söluheimildir til að hámarka arð sinn af auðlindinni og gæta best hagsmuna almennings. Útgerðarfyrirtæki voru seld í stórum stíl og fyrir þau fengust miklir peningar.
Og þetta voru ekki bara frjálshyggjupostular að reyna að koma mjólkurkúnum í fjós vildarvina sinna. Ekki fjarri uppeldistúnum fjármálaráðherrans komust sósíalískir skoðanabræður hans til valda. Sveitarstjórn Raufarhafnar varð á einni nóttu ríkasta sveitarfélag landsins (miðað við mannfjölda). Hinir lítillátu þjónar hins opinbera sátu uppi með fullar hirslur fjár til að tryggja framtíð og farsæld þessa litla samfélags á hjara veraldar.
Samfélagið á Raufarhöfn hrundi samt næstu ár á eftir. Fyrst og fremst vegna þess að stjórnmálamennirnir tóku arfaheimskar og áhættusæknar ákvarðanir og sólunduðu miklu af þessu fé. Töpuðu fúlgum í fyrsta efnahagshruni þessarar aldar þegar dottkomm-bólan sprakk.
Akureyringar seldu ÚA fyrir stórfé og svona mætti lengi telja.
Það er dálítið eins og það eigi að púlla vændis-gambít á kvótakerfið. Leggja alla ábyrgðina á kaupandann. Það er horft fram hjá því að hið opinbera rak hóruhúsið og var í sumum tilfellum seljandinn líka. Og nú, þegar búið er að sólunda miklu af því fé, verð ég að viðurkenna að í mörgum tilfellum er dálítið holur hljómur í réttlætiskröfum um ábót til þess opinbera úr gnægtarsjóðum útgerðarinnar.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli