28. maí 2012

Í alvöru, Þóra?




Ísland sat uppi með forsætisráðherra í 13 ár sem smám saman var orðinn alvaldur – sem leiðrétti „hugmyndafræðiskekkju“ dómstólanna með því að láta setja vini og vandamenn í dómarasæti. Tók svo við Seðlabankanum og drottnar nú yfir öflugasta fréttamiðli landsins.

Sömu flokkarnir sitja á þingi og seldu bankana, sinntu engu eftirliti með þeim og sýndu vítavert gáleysi sem leiddi til allsherjar efnahagshruns.

Þegar allt hrundi tóku stjórnmálamenn þá ákvörðun í einu snarhasti að brjóta jafnræðisreglu EES-samningsins og sköpuðu þjóðinni hugsanlega skaðabótaábyrgð. Flokkurinn sem tók við sendi gamlan flokksgæðing út til að „semja“ og sá sneri heim með voðalegasta og hræðilegasta samning sem gerður hefur verið á byggðu bóli. Samning sem ýtt var í gegnum Alþingi með flokksvaldi.

Allt var þetta hægt vegna þess að valdamenn á Íslandi virða ekki skiptingu valds á milli stofnana og flokksvaldið stýrir bæði framkvæmda- og löggjafarvaldinu (og reynir að stýra dómsvaldinu líka eins og dæmin sanna).

Alþingi er auk þess hætt að virka og lagst í málþóf. Stjórnin kemur engum málum frá sér og stöðvar jafnvel sín eigin mál í fæðingu. Mál koma of seint fram og stjórnarandstaðan nýtir færið til að drepa allt í dróma. Það eru margar vikur síðan Alþingi virkaði síðast eins og löggjafarstofnun. Nú er hún bara pólitískur skrumpallur.

Stjórn og stjórnarandstaða skipta um skoðanir eftir hentisemi. Þeir eru nú á móti ESB sem voru með því þar til þeim datt í hug að fleiri atkvæði fylgdu hinu. Oft er talað um að seinni Icesave-þjóðaratkvæðagreiðslan hafi verið ólýðræðisleg því málið hafði aukinn stuðning á Alþingi. Raunin var sú að Bjarni Ben misreiknaði forsetann og þjóðina og hélt að Sjálfstæðisflokkurinn myndi græða á því að skipta um skip á miðjum veiðum.

Það hefur ekkert uppgjör orðið. Ekkert nýtt er komið fram. Allar tilraunir til að færa hluti til betri vegar enda í höndunum á pólitískum þrasmöngurum sem stoppa málin af. Það á enn eftir að koma nýrri stjórnarskrá á koppinn og í raun er erfitt að sjá hvað af henni verður á endanum.

Og á þessum tíma segir þú, Þóra, að tími sé kominn til að allir verði aftur vinir og horfi fram á tímann og að helsta óvissan  og óstöðugleikinn í stjórnskipan landsins sé teygjanleg túlkun ÓRG á valdsviði
forseta.

Í alvöru?

Taktu ÓRG úr myndinni eitt augnablik. Samþykkjum fjölmiðlalögin og Svavarssamninginn. Allir sáttir?Allir vinir? Allt betra? Engin óvissa? Enginn óstöðugleiki?

Í alvöru, Þóra?

Engin ummæli: