12. maí 2012

Hinn heimski landsbyggðarlýður

Fyrir hálfu ári bloggaði ég og spáði ríkisstjórninni dauða. Ástæðan var tangarsókn Jóhönnu gegn Jóni Bjarnasyni og því sem hún kallaði óboðlegt sjávarútvegsfrumvarp. Þá varð ljóst að Jóhanna ætlaði að taka slaginn og fylgja ákveðnum málum alla leið. Og ég mat það svo – og geri raunar enn – að hún hefði ekki styrk til að fara í það stríð. Og raunar hefur staða hennar veikst það sem af er þessu ári. Ég efaðist sérstaklega um að Jóhanna kæmi vel frá slag við útgerðarmenn og sagði:

Útgerðarmenn eru engin flón og veikluð stjórn sem ítrekað hefur verið staðin að því að hagræða sannleikanum mun eiga erfitt með að trompa taktík LÍÚ. Sem er næstum örugglega sú að sýna ískalda skynsemi og láta íbúum sjávarbyggða eftir að sýna tilfinningasemi. 

Sem auðvitað er komið á daginn. Fólk af landsbyggðinni kemur nú fram og fullyrðir að hið nýja frumvarp Jóhönnu sé atlaga að þeim persónulega.


Heldur þykir mörgum þetta smekklausar og ógeðfelldar auglýsingar. Gunnar Smári gefur til kynna að fólkinu sé ekki sjálfrátt og sá mæti maður Illugi Jökulsson getur ekki annað en tekið undir það að nokkru leyti. Inn í þetta blandast svo að mörgum finnst auglýsingarnar vera púkó.

Rökin eru þau að LÍÚ og útgerðarmafían sé svo yfirþyrmandi í valdi sínu, klækjum og auðlegð að venjulegt fólk sé eiginlega ekki bólusett fyrir slíkum áhrifum og geti ekki annað en dansað með þeim pípuleik sem valdaapparatið spilar.

Um þetta allt langar mig bara að segja tvennt. Mig langar að minna menn á að vera vakandi fyrir eigin hroka þegar kemur að því að afskrifa sjálfsákvörðunarrétt fólks – og mig langar að biðja menn sem eru hneigðir til þess að vera sammála þeim Illuga og Gunnari að velta fyrir sér hliðstæðu.

Hvað með þá sem byrjaðir eru að auglýsa kosti þess að gerast aðilar að Evrópusambandinu? Sem gera það jafnvel á kostnað valdabáknsins í Brussel og út frá spesstöðluðum áherslum sem samdar voru af jakkafata- og dragtklæddum fótgöngublókum. Sem svara þannig þegar þeim er brigslað um að vera bara handbendi pólitískra fjármálaafla að slík gagnrýni sé bara væll.

Ég hefði haldið að hliðstæðan sé hér ansi hreint nærtæk. 

Eru stuðningsmenn Evrópusambandsins, sem birtast jafnvel persónulega í auglýsingum sem kostaðar eru með styrkjum frá því sama sambandi viljalaus verkfæri?
Auðvitað ekki. 

Og það er fólkið á landsbyggðinni ekki. Fólk úti á landi er ekkert heimskt. Það er hvorki heilaþvegið né pínt til að dansa í takti við LÍÚ. Fólkið á landsbyggðinni getur haft fullkomlega málefnalegar ástæður til að vera mjög harðlega á móti frumvarpi ríkisstjórnarinnar. Það virðast raunar flestir vera á því að frumvarpið sé næsta vonlaust. Einu stuðningsmenn þess sem ég hitti er fólk sem viðurkennir að það viti ekki neitt um sjávarútvegsmál en að tími sé kominn til að lækka rostann í hinum illu útgerðarmönnum.

Þeir sem vilja fara í stríð (sem líklega ekki mun vinnast) við andstæðing sem þeir eru búnir að djöflgera til að vinna lönd sem þeir þekkja ekki – hafa ekki efni á því að kalla aðra einfeldninga eða leiksoppa.


4 ummæli:

Ásgeir H Ingólfsson sagði...

Umræðan hefur minnst snúist um frumvarpið sem slíkt, Illugi, Gunnar Smári og margir fleiri hafa fyrst og fremst verið að gagnrýna auglýsingaherferðina - sem er einfaldlega ógeðsleg. Munurinn á henni og já-auglýsingunni er einfaldlega þessi: fólkið á já-auglýsingunni kemur úr ýmsum áttum og er ekki háð sama vinnustað, stéttarfélögum eða slíku. Þannig þætti mér ekkert að því ef hvort heldur sem væru Já! Ísland eða Heimssýn myndu biðja mig persónulega að sitja fyrir á auglýsingu frá þeim, svo myndi ég bara játa því eða neita eftir því hvernig skoðanir mínar liggja, já og því hvort ég sé í stuði fyrir að sitja fyrir á auglýsingu. Það er ekkert óeðlilegt við slíkt ferli, hvað sem okkur kann að þykja um málstaðinn.

Ef hins vegar Bóksalan eða stéttarfélagið mitt bæði mig um að taka þátt í auglýsingu, þar sem ég, sem bóksali, myndi tala fyrir eða gegn einhverju pólitísku máli þætti mér það afskaplega óeðlilegt. Með slíku fylgir líka undirliggjandi ógn um atvinnumissi - eða minni framavonir - ef maður neitar. Það er einmitt þetta, þetta undirliggjandi, sem er svo ógeðslegt við þessar auglýsingar. Ég þekki ekki þetta fólk á auglýsingunum, sumir eru sjálfsagt sammála skilaboðunum, jafnvel allir - en ef það eru allir, hvað þá með hina sem neituðu? Hver er staða þeirra núna? Ég veit það ekki, ég veit það eitt að mér finnst andstyggilegt að koma þeim í þá stöðu að þurfa að hafa slíkar áhyggjur.

Þá er myndmálið einfaldlega allt annað í auglýsingunum, Já! Ísland auglýsingin boðar hvergi eld og brennistein ef við göngum ekki í Evrópusambandið.

Og fólkið á landsbyggðinni er ekki heimskt. Enda er langur vegur frá því að þar séu allir sáttir við þessa auglýsingaherferð, þrátt fyrir að forsvarsmenn herferðarinnar vilji láta líta út fyrir að svo sé. Sjálfur varð ég, sem er uppalinn á landsbyggðinni, einmitt reiðastur þegar að talsmaður vefsins landidogmidin.is, okkar gamli skólabróðir Jens Garðar, fylgdi síðunni úr hlaði með því að tala fyrir mína, hönd, foreldra minna, ættingja og fjölda vina - að okkur forspurðum vitaskuld - með orðunum: ""Vefur sem settur er upp til að koma málstað okkar landsbyggðarfólks á framfæri í umræðunni um sjávarútvegsmál"

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Fólk sem vinnur í bókabúðum hefur nú verið gegndarlítið notað til að auglýsa búðirnar, bara svo því sé haldið til haga. Við gætum allt eins fabúlerað um örlög þeirra bóksala sem hafa neitað að vera í slíkum auglýsingum. Væntanlega eru þau örlög ákaflega léttvæg, enda ætlar maður ekki eigendum búðanna það að vera ómenni – þótt slík ætlan sé algeng þegar kemur að útgerðarmönnum. En þar er einmitt djöflavæðingin á ferð.

Stuðningsmenn Já, Ísland áttu hvorki meira né minna en óttaáróður aldarinnar með hákarlsauglýsingunni fyrir Icesavel Og ekki vantar klisjurnar og kjaftæðið í auglýsingarnar. T.d. litli, glaði svertinginn með stjörnusólgleraugun. En málið snýst á endanum ekki um það hvort auglýsingar eru hipp og kúl eða lummó. Það snýst um að ganga ekki út frá því að fólk sem aðhyllist málstað sé sjálfkrafa leiksoppar.

Og það að Jens tali fyrir hönd okkar dreifaranna allra. Ásgeir, Jóhanna og Steingrímur þykjast aðhafast fyrir hönd allrar þjóðarinnar. Hvort er verra?

Ásgeir H Ingólfsson sagði...

Já, starfsfólk Eymundsson hefur verið notað til að auglýsa búðirnar, það er alveg rétt. Og það má alveg gagnrýna það - en það var að auglýsa bækur og starfsemi búðarinnar, ekki að taka pólitískan slag fyrir eigendurna. Eymundsson auglýsingarnar eru sambærilegar við það ef starfsfólk í sjávarútvegi væri að mæra fiskinn eða vinnsluaðferðirnar.

Jens hefur ekkert umboð til að tala fyrir hönd landsbyggðarinnar, Jóhanna og Steingrímur hafa umboð - rétt eins og Geir & co. áður - fyrir að aðhafast fyrir hönd hennar - og ber að gera það. Þannig virkar einfaldlega fulltrúalýðræðið, sem ég er sannarlega tilbúinn til þess að ræða umbætur eða jafnvel grundvallarbreytingar á.

En hvort sem pólitíkusar eru í stjórn eða stjórnarandstöðu mega þeir alveg spara það að nota orð á borð við "Vér Íslendingar" - einfaldlega af því þeir vita vel að þeir tala í besta falli fyrir hluta þjóðarinnar, og stundum bara fyrir sjálfa sig.

Ásgeir sagði...

Nú hefur komið í ljós að fólkið á þessari mynd gaf ekki leyfi fyrir því að myndin yrði notuð. Setur það þennan pistil ekki í aðeins annað ljós?