15. maí 2012

Sýn þess gráa í svarthvítum heimi



Teitur gerir mig að umtalsefni í nýrri færslu. Segir að ég taki undir stjórnmálaskýringu Egils Helgasonar í þessari færslu hér (sem reyndar er skrifuð degi áður en Egill skrifar sína færslu, en gott og vel).

Inntakið hjá Teiti er að sumir (hvorki ég né Egill a.m.k.) sjái ekki að ÓRG sé að reyna að búa til nýtt stjórnskipunarfyrirkomulag – sé að kasta ímynd sameinandi skynsemi forsetaembættisins á haugana fyrir pólitískan forseta sem stilli sér upp andspænis þinginu. Þetta fer gríðarlega fyrir brjóstið á Teiti sem þykist sjá að ÓRG sé litlu skárri en verstu einræðisherrar – og alls ekkert sameiningartákn.

Hvers vegna Teitur kaus að byrja þennan málflutning á því að vísa í mig eða Egil er trauðla skiljanlegt. Enda lítil sem engin tengsl milli efnisatriðanna. Ég og Egill virðumst sammála um að ÓRG sé slægur sem refur og að honum hafi tekist að koma fram með nokkuð herskáa baráttu á tímapunkti þar sem innmúraðir og þrælstimplaðir Samfylkingaráhengendur eða -meðlimir gátu ekki stillt sig um að taka slaginn á móti honum  – og með því væru þeir að festa í sessi þá hugmynd að Þóra Arnórs væri ekki hlutlaus og sameinandi frambjóðandi heldur óskabarn núverandi valdhafa sem (skv. Teiti allavega) upplifa forsetann sem þránd í götu sinni til pólitískra áhrifa.

Þessi mótmælir Teitur ekki en kallar „furðugreiningu.“ Sem er álíka beinskeytt og vel hugsað eins og að stökkva á einhvern sem stendur á Þingvöllum og bendir samferðamönnum á Lögberg og hrópa: „Hvað er að þér maður, sérðu ekki Öxará?“

En hvað um punktinn að ÓRG sé að gjörbreyta stjórnskipan íslenska lýðveldisins með því að neita að vera sameiningartákn?

Hér er svo ótalmargt augljóst að telja.

Það þarf læsari mann en mig til að finna túlkun Teits á forsetaembættinu stað í stjórnarskrá landsins. Þvert á móti er stjórnarskráin nokkuð afdráttarlaus með það að forsetinn er einn af þeim sem fer með valdið í þessu landi og eina raunverulega aðhaldið gagnvart meirihluta Alþingis. En hann getur vísað málum til þjóðarinnar meti hann það svo að Alþingi sé að vinna gegn þjóð sinni. Á sama hátt getur Alþingi sótt styrk til þjóðarinnar til að losa sig við forseta sem misst hefur traust þjóðarinnar og Alþingis.

Það að forseti skuli vera sameiningatákn er fyrst og fremst hefð. Sem lýsir því ágætlega hvernig stjórnmál hafa verið stunduð á Íslandi frá upphafi lýðveldis. Ísland hefur gengið í hernaðarbandalög, lýst yfir ánægju sinni með stríð, reynt að losa sig við óþæga fjölmiðla, byggt risavirkjanir og gengist við fjárkúgun erlendra þjóða. Allt vegna þess að hér hefur ríkt sú hefð að forystumenn í stjórnmálaflokkum (sem nóta bene eiga ekki að fara með valdið samkvæmt stjórnskipun landsins) hafa farið með valdið eins og það sé þeirra einkaeign. Yfir þessu öllu hefur ríkt forseti sem hefur einmitt ekki sinnt stjórnarskrárbundnu hlutverki sínu, heldur verið eins og meðvirk mamma sem stjórnar kaffiboði þar sem ofbeldisfullur fjölskyldufaðirinn gengur uppivöðslusamur um.

Það er ekkert að koma eins og þruma úr heiðskýru lofti að ÓRG hefur lengi stefnt að því að virkja stjórnarskrárbundið hlutverk forsetans við að veita framkvæmda- og löggjafarvaldinu aðhald. Hann átti snaran þátt í að enda pólitískt einræði Davíðs Oddssonar (sem auðvitað hljóp svo bara í skjól inni í þeim draugfúlu, pólitísku innviðum samfélagsins sem stjórnmálaflokkarnir voru búnir að móta gjörsamlega eftir eigin hentugleikum). Hann stöðvaði Icesave, tvisvar.

Áður en hann var kosinn síðast sagðist hann vera tilbúinn að nota málskotsréttinn.

Það að eitt viðtal þar sem hann segir kvótamálið henta vel í þjóðaratkvæði sé einhver stórkostleg stefnubreyting er þvæla. Hreinræktað bull.

Það er löngu orðið ljóst að hverju stefnir.

Á sama tíma virðast þeir sem stjórna landinu ekki hafa minnsta möguleika á að aðlaga sig þessum veruleika. Landsforeldrarnir hafa setið á þingi áratugum saman og þekkja ekkert annað en málþóf í andstöðu og hrossakaup og valdbeiting í stjórn.

Nokkuð kinnroðalaust halda stjórnmálamenn áfram að rækja hlutverk sitt með vísan í gerspillta og handónýta stjórnmálalega hefð síðustu áratuga – og krefjast þess að forsetinn haldi sig við sitt hlutverk. Hlutverk valdalausrar, meðvirkrar húsmóður.

2 ummæli:

Unknown sagði...

En hvaða kænskubragð var það þá - hjá margumtöluðum refnum - að sitja, auðmýktin uppmáluð, og í keng af samfélagslegri ábyrgð,, fyrir framan sjónvarpsvélarnar á nýjársdag, og lýsa því mjög skýrt yfir: a. Að hannogdorrit þyrftu , þegar hér væri komið sögu, friðsæld og hvíld ellilífeyrisþegans? - b. EF vaá steðjaði að þjóðinni ( ardrir sæmdarmenn og konur byðu sig fram til embættisins, t.d. ), þá, og aðeins þá, væri hann tilleiðanlegur að sitja hálft kjörtímabil til viðbótar. En aðeins hálft. ÓRG vill greinilega fá um sig eftirmælin; hér voru á ferli úlfur og refur - plús engill, í einum og sama manninum.

Torfi Hjartarson sagði...

Nýfengin andúð á forsetanum er orðin sameiningartákn jafnaðarmanna líkt og hatrið á fyrrum forsætisráðherra og seðlabankastjóra sem límdi þá saman áður. Það er þeim að þakka eða kenna að embættið er orðið virkt valdatæki í þjóðfélaginu þar eð forsetinn var kosinn til höfuðs þáverandi valdamönnum en ekki upp á punt. Nú ætla þeir að endurtaka leikinn og losna við sköpunarverk sitt með því að bjóða upp á úlfgráan frambjóðanda í hvítri sauðargæru.