23. apríl 2012

Þessvegna er Geir reiður.

Geir var fyrirsjáanlega sýknaður af alvarlegustu ákæruliðunum í Landsdómi en dæmdur fyrir pólitíska subbuskapinn sem viðgengst á landinu. Það er fróðlegt að sjá viðbrögð manna eins og Össurar og Sigmundar Ernis sem reyna að gera sem minnst úr dómnum og láta eins og þeir hafi vitað þetta allan tímann – þegar augljóst er að ef þeir hefðu ekki skotið Imbu og hinum ráðherrunum undan þá hefðu fleiri verið í kröppum dansi þegar þeir hefðu reynt að verja hegðun sína, aðgerða- og samskiptaleysi sem virðist meira og minna hafa stafað af persónulegum væringum og úlfúð. Það sem Landsdómur áfellist er það sem meirihluti Alþingis skaut að mestu undan skoðun með því að senda Geir einan á sviðið.

Í stað þess að sýna einhverja auðmýkt og koma fram glaður yfir góðum lyktum en örlítið meyr vegna sakfellingarinnar birtist Geir froðufellandi og eldrauður í framan og spúði frá sér reiðilestri. Reiði sem er óskiljanleg nema málið sé sett í það samhengi að Geir og skjaldsveinar hans telji að það sem til umfjöllunar var í landsdómi komi þjóðinni barasta ekki við – þetta sé innanhússmál á Alþingi. Pólitískur hnífabardagi þar sem einn keppandinn uppgötvar rýting í bakinu.

Það er vel skiljanlegt að Geir sé reiður þegar hann er kærður af fólkinu sem vann svona með honum. Fólki sem er sekt um nákvæmlega það sama. Fólk sem jafnvel drýgði að verulegu leyti glæpinn sem hann er dæmdur fyrir. Hver yrði ekki reiður?

Það sem Geir ekki fattar er að þetta er ekki innanhússmál hinnar pólitísku stéttar. Það er þjóðin sjálf sem á kröfu til þess að stjórnmálamenn taki sér ekki meira vald en þeir hafa og að valdníðsla og vanhæfni valdi henni ekki búsifjum. Það þurfti vissulega þingið til að ákæra en krafan og hinn pólitíski þrýstingur var kominn frá fólkinu.

En Geir er blindur á þennan þrýsting á sama hátt og hann og aðrir núverandi og fyrrverandi þingmenn eru blindir á uppsprettu valds þeirra. Það er eins og stjórnmálastéttin sjái ekki gegnum skothelda glerið í Alþingishúsinu.

Og þar er kjarni vandans.

Í dag var rekinn teinn í það öldungaræði sem hefur verið á Íslandi árum og áratugum saman. Geir var minntur á að hann sór stjórnarskránni eið og að tryggð hans á að vera gagvart landinu eins og því er lýst í henni – en ekki því hvernig það lítur út innan í hinum pólitíska heimi hrossakaupa. Viðbrögð hans sýna að ekkert er honum fjær en að meðtaka það að hann skuldi þjóð sinni eitthvað. Hann er of upptekinn af því að hafa setið uppi með svartapétur þegar þakið rifnaði af Stjórnarráðinu og skíman náði inn.

Þetta hugarfar er endanlega staðfest í viðbrögðum skjaldsveinanna. Björn Bjarnason kallar málið pólitískar þrætur. Hannes Hólmsteinn gengur lengra og eignar stjórnmálastéttinni sjálfa dómarana. Lítur á þá sem fulltrúa fjórflokksins sem eigi að gæta hagsmuna þeirra.

Nú verður gaman að sjá hvað núverandi stjórnvöld gera. Sem eru sek um nákvæmlega það sama og Geir.

Líklega svarið: ekkert.

Nú þéttir pólitíska stéttin raðirnar og fyllir upp í götin. Svo að hægt sé að fara að vinna aftur án afskipta almennings.


1 ummæli:

Bjössi sagði...

Bingó. Hlægilegast var þegar hann leyfði sér í Kastjósi að kalla eftir því að Steingrímur Joð axlaði ábyrgð og segði af sér.

Pælum aðeins í því.

Að Steingrímur Joð axlaði ábyrgð og segði af sér.

Þessi maður er með krabbamein víðar en í vélinda. Það hefur dreift sér og heltekið siðferðiskenndina, dómgreindina og mennskuna.