17. apríl 2012

Að sameinast um froðu





Þóra Arnórsdóttir reið ekki feitum hesti frá beinni línu á DV í kvöld. Hún sagðist líta á það sem hlutverk sitt að skapa samheldni og samhljóm við þjóðina og sátt milli forseta og stjórnmálaaflanna. Það væri orðið tímabært að horfa fram á veginn og hætta að horfa um öxl.


En þegar hún var innt eftir einhverju haldbæru, einhverjum skoðunum eða áherslum – þá var mjög fátt um svör – og langt á milli svara. Ég held að aldrei fyrr hafi sá „yfirheyrði“ tekið sér jafn langan umhugsunarfrest við hverja spurningu. Þegar Hildur svaraði fyrir „Karlar sem hata konur“ náði hún að svara tæplega 120 spurningum. Meðaltalið er um eða yfir 60 spurningar. Þóra svaraði ekki helmingnum af því. 


Og þeim spurningum sem hún svaraði, svaraði hún yfirleitt ekki. Ekki í raun:


Hún var spurð hverrar trúar hún væri. Svarið: „Ég er skírð og fermd innan þjóðkirkjunnar en er ekki í trúfélagi.“


Hún var ítrekað spurð um skoðanir sínar á hinum og þessum málum. Svörin alltaf: Ef málið er ekki á valdsviði forsetans er ekki við hæfi að forsetaframbjóðandi hafi skoðun á þeim.


Í ljósi þess að forsetinn er svotil alveg valdalaus þýðir þetta auðvitað að forseti með þetta viðhorf verður um leið skoðanalaus.


Hún var spurð um hvort hún væri til í að taka afstöðu með þjóðinni ef gjá yrði milli hennar og þingsins og svaraði „já“ við því – en spurð um hvort Icesave hafi verið svoleiðis gjá vildi hún ekki svara. Því þá væri hún farin að tjá sig um embættisfærslur ÓRG – og það væri ekki við hæfi.


Þóra segist ekki vita hvaða siðareglur gildi eða eigi að gilda um embættið en að hún ætli samt að láta þær (hverjar sem þær eru) stýra þjónkun sinni við atvinnulífið.


Hún var spurð hvaða mótttökur kínverskir ráðamenn, sem hún sjálf kallaði „fjöldamorðingja“, myndu fá á Bessastöðum yrði hún forseti. Svarið: Kurteislegar.


Með öðrum orðum. Þóra hyggst verða skoðanalaus forseti sem túlkar virðuleik sinn og kurteisi sem sameiningarafl hjá sundraðri þjóð – sem þarf á því að halda að hætta að pirra sig yfir því sem gert er og fara að beina sjónum að einhverju uppbyggilegu og afslappandi. Að sjatla reiðina í þjóðinni með því að hætta að vera reið. Ekki með því að díla við uppsprettur reiðinnar. 


Ég verð að segja að ég átti von á miklu meiru. Ég hef haldið því fram að Þóra hafi verið klöppuð fram vegna þess að hún á að vera „öruggur kostur“ fyrir núverandi stjórnvöld. En ég átti ekki von á því að hún yrði alveg sauðmeinlaus og hlýðin. 

Engin ummæli: