3. apríl 2012

Hroki og hleypidómar



Síðasta færslan mín hér var smá tilraun. Mig langaði til að kanna doldið fyrirbæri sem hefur nokkur áhrif á alla umræðu. Fyrirbærið kallast hroki.

Þann fyrsta apríl dundaði hópur femínista sem halda til við knúz-vatnsbólið sér við það að hlæja að vandlætingu þeirra sem trúðu því að femínistar ætluðu að blása í herlúðra. Þegar stuðið komst verulega á strik tók ein vinkona mín í hópi þeirra sig til og skipaði öllum sem reyndu að tjá sig að halda kjafti. Í mesta fjörinu sagði hún lítið lesnum rithöfundi að hann væri hæfileikalaus með öllu og ætti að hafa sig hægan.

Allt var þetta gert undir því yfirskini að þann fyrsta apríl megi maður svona. En raunin er nú samt sú að þarna var ekkert verið að skreyta sig með stolnum fjöðrum. Þetta var ósköp venjulegt ölvunarástand. Aprílgabbarinn var í þessu tilfelli algjörlega innri maður.

Hrokafull framsetning þarf ekkert að merkja að maður hafi rangt fyrir sér. En það merkilega við hrokann er að sá sem fyrir honum verður á það til að verða blindur á allt annað. Og í stað þess að geta nokkuð numið af því sem sá kjaftfori er að segja þá verður maður súr og svekktur og tautar einfaldlega í bræði sinni eitthvað um það hvað andstæðingurinn sé ofsalega vont fólk.

Ég prófaði því að framlengja apríl-djókinn. Ég skrifaði pistil um arfaslaka grein á knúzinu. Ofsalega vonda grein sem byggði á verulega skertum skilningi á því sem um var rætt. Pistillinn minn löðraði í hroka. Samt sem áður voru röksemdirnar mjög málefnalegar og gildar.

Beið ég svo þess sem verða vildi. Fyrst kom pistlahöfundurinn sjálfur og sagðist eiginlega ekki vilja svara mér. Bætti síðan við að ég væri að taka léttúðugan skemmtipistil hans of alvarlega. Endaði síðan á langri og heldur ómarkvissri ritgerð sem spratt fram við lestur míns pistils. Mér fóru að berast þau skilaboð að ég hefði ekki skilið pistil drengsins (sem ég gerði mætavel), ég væri dóni og eineltisseggur. Mér var jafnvel bent á að ég væri bara glataður auli sem kynni ekki íslensku. Þeir sem byrjuðu setningar á samtengingum ættu ekki að tjá sig. Og fleira var í þessum dúr.

Nema hvað.

Hroki er ekkert sérstaklega hættulegur. Það er helst að hann sé hvimleiður. Það er nokkuð auðvelt sæmilega hugsandi fólki að greina innihald frá umbúðum. Kúkur verður áfram kúkur þótt hann sé borinn fram á silfurfati þess hrokafulla. Gull verður áfram gull þótt hrokabelgurinn skarti því um enni sér. Hroki er aukaatriði í sjálfu sér.

En það væri óskandi að menn reyndu að vera oggulítið meðvitaðir um eigin hroka. Ég gerði mér fulla grein fyrir mínum í þessu tilfelli. Skyldi vera eins farið um þá sem urðu fyrir honum?


4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Auðvitað er hroki hættulegur, maður. Það er hann sem fellir okkur. Það er hins vegar ekkert hættulegt þó að þú sért með hroka við einhvern knúzara og að Þórunn Hrefna sé að plata mig. En hybris er stórhættulegur fyrir einstaklinginn sem er haldinn honum. Hann veldur blindu á eigin takmarkanir og svo framvegis. - ÁBS

Þorsteinn sagði...

Ef þetta á að kallast afsökunarbeiðni...

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Þetta er ekki afsökunarbeiðni, Þorsteinn. Pistillinn þinn var rusl.

ÁBS, það að hybris skuli fella þá sem ofmetnast gerir hrokann frekar að mjög gagnlegu fyrirbæri. Hann fellir þá sem falla þurfa.

Nafnlaus sagði...

Og þeir taka engan og ekkert með sér í fallinu? - ÁBS