25. mars 2012

Þóra Arnórs verður aldrei ópólitískur kostur

Of lítið - of seint.

Ég lýsti því yfir hér fyrir allnokkru síðan að ég vildi sjá Pál Skúlason sem næsta forseta. Það virðist úr sögunni núna. Mér þykir það miður. Ég vildi svo gjarnan fá forseta sem ljær embættinu meiri dýpt - sem hefur hugsjón fyrir hlutverki þess, lýðræðinu og er meðvitaður um þær ógnir og hættur sem samfélagið stendur frammi fyrir á hverjum tíma. Og hefur trú á þeim möguleikum sem hið sama samfélag hefur í greip sinni ef það kærir sig um.



Það mun aldrei takast héðan af að láta sem Þóra Arnórs sé ópólitískur forsetaframbjóðandi. Ef hún fer fram er hún rammpólitísk. Bakland hennar er eins pólitískt og frekast getur verið. Það er sama hvaða fjöðrum menn stinga í hatta sína - drifkrafturinn við að draga Þóru fram á völlinn er allur hjá einsleitum hópi sem vill losna við Ólaf Ragnar af pólitískum ástæðum.

Af einhverjum undarlegum ástæðum fara þar fremst í flokki þeir sem vilja Ísland inn í ESB. Eins og ÓRG sé einhver meiriháttar þröskuldur þar inn. Sem hann er ekki. Þjóðin fer aldrei inn í ESB nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Stjórnvöld hafa engan þann kost að troða málinu í gegn án þess að þjóðin sé því fylgjandi. Enda er það aðeins við slíkar aðstæður sem ÓRG er stjórnvöldum skeinuhættur. Það sem hann hefur nú í þrígang gert er að stöðva alla fjórflokkana á einhverjum tímapunkti í því að svína á vilja þjóðarinnar. Í hvert einasta skipti hefur hann tekið áhættu því málskotsrétturinn er tvíbent sverð. Ef ÓRG hefði misreiknað vilja þjóðarinnar hefði hann fengið sverðið í hausinn sjálfur. En á því var enginn hætta því stjórnmál á Íslandi og krafan um hlutlausan forseta hefur fyrst og fremst verið knúin áfram af þeirri stjórnmálalegu hefð að minna sé að marka vilja almennings en meirihluta á þingi.

Andstaðan við ÓRG er að stórum hluta persónulegt skítkast. Voðalega íslenskt og hefðbundið.

Sumir hafa meira að segja haldið því fram að ÓRG sé huglaust egósentrískt flón sem muni lyppast niður fái hann mótframboð. Aðrir halda því fram að forseti með 1/3 fylgi geti aldrei talist sameiningartákn.

Maður þarf að vera illa haldinn af óskhyggju til að halda að ÓRG muni bakka út ef Þóra Arnórs býður sig fram. Það er svo fráleit hugmynd að maður hlýtur að halda að sá sem trúir því í einlægni sé þar með búinn að sýna fram á að hann skilur enganveginn það sem hann er að rembast við að hafa sterkar skoðanir á. Og það að þriðjungur atkvæða sýni fram á sundurlyndi og vantraust er álíka óupplýst della. Vigdís Finnbogadóttir var kjörinn með slíkum fjölda atkvæða á sínum tíma. ÓRG var kjörinn með lítið meiri mun á sínum tíma. Það mun enginn frambjóðandi koma fram gegn ÓRG sem getur vænst þess að njóta meira fylgis en það í könnunum. Sá sem þykist sjá trúnaðarbrest milli þjóðar og frambjóðanda við þriðjung atkvæða mun ekki hræsnislaust geta bakkað upp frambjóðanda eins og Þóru með innan við helming þess fylgis án þess að glefsa í rassinn á sjálfum sér um leið.

Verðugur frambjóðandi gegn ÓRG hefði þurft að koma fram fyrir löngu. Áður en þetta varð að örvæntingarfullu kappi þeirra sem vildu einhvern, bara einhvern, á Bessastaði. Staðan er nefnilega sú að það eru ekki mannkostir Þóru sem ráða för. Það er ekkert við hana, hugsjónir hennar eð ahugmyndir, hæfileika eða dygðir, sem kalla fram þessa blysför. Þeir sem hrópa nafn hennar gera það fyrst og fremst vegna þess að þeir telja hana meinlausa. Henni er ætlað að vera leppur í fínum kjól sem heldur vöffluboð og drekkur kókó úr mávastelli.

Allt vegna þess að menn bera á herðum sér einhverja ímynd um hlutlausan, óumdeildan forseta. Einhvern túrkmenbasa sem börnin elska og hangir í gylltum ramma á bílaverkstæðum úti á landi.

Gallinn er auðvitað sá að við höfum aldrei haft slíkan forseta. Forsetinn hefur ævinlega verið kjörinn út frá rammpólitískum forsendum. Óumdeildi landsfaðirinn, sem er nokkurveginn sú hugmynd sem við höfum um Svein og Ásgeir, er einhverskonar páfi pólitískra grunnafla í bland við feðraveldisöldung. Frjálslyndi og niðurbrot valdaafla komu Kristjáni og Vigdísi á Bessastaði. Ólafur Ragnar háði svo á sínum tíma harða baráttu við deyjandi Sjálfstæðisflokk um embættið.

Og nú er aftur barist.

Og ÓRG mun vinna þennan slag nokkuð sannfærandi.

Fyrst og fremst vegna þess að enginn ákvað að bjóða sig fram. Enginn sem skiptir máli að minnsta kosti. Nú er apríl handan við hornið og kosningar í maí. Ef einhver hefði haft einhverja raunverulega hugsjón, aðra en að ryðja úr vegi óþægum handhafa valdsins, væri hann löngu kominn fram.

Ég hefði svo gjarnan viljað sjá annan forseta. Ég hefði jafnvel kosið einhvern sem færi gegn ÓRG.

En þetta er bara alltof lítið og alltof seint. Og mér finnst fráleitt að kjósa forseta sem gegnir því hlutverki að byggja loftbrú fyrir núverandi valdhafa yfir kollinn á þóttafullum kjósendum.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Að vísu eru forsetakosningarnar í lok júni en hvað um það. Tíminn er samt naumur og enginn almennur áhugi er á einhverjum einum öðrum.

Nafnlaus sagði...

Hún Þóra yrði án efa góður forseti, og vonandi býður hún sig fram.

Afhverju er allaf verið að gera fólki upp pólitískar skoðanir og hvað skiptir það máli hvort hennar bakland séu ESB sinnar eða ekki ? Það er fólk úr öllum flokkum sem er með og á móti ESB aðild.

kv,
Aðalheiður

Einar sagði...

Þóra er sem sé "pólitískur" frambjóðandi vegna þess að þeir sem helst vilja annan forseta en ÓRG eru pólitiskir (en ekki vegna sinna eigin skoðana, sem við reyndar vitum lítið um).

En hvað þá með ÓRG? Eru þeir sem helst styðja hann um þessar mundir ekki rammpólitískir?

Með þínum rökum ertu að segja að Ólafur Ragnar Grímsson verði héðan í frá aldrei ópólitískur forseti. Sem er reyndar hárrétt.

Þeir sem vilja annan forseta en ÓRG, eins og t.d. ég, vilja einmitt EKKI pólitískan forseta eins og ÓRG er og mun verða enn frekar næstu fjögur ár.

Nafnlaus sagði...

Forsetar í barnsburðarleyfi gegna væntanlega ekki störfum heldur handhafar forsetavalds.

Nafnlaus sagði...

Ég er að velta fyrir mér hversu sannspár eða ósannspár þú munt reynast í þessum pistli. Mér finnst þú raunar þegar vera farinn að skrifa gegn honum. - En þetta getur reyndar sveiflast allt í ýmsar áttir áður en yfir lýkur. - Ég á við spádóm þinn um að ÓRG vinni auðveldan sigur og að fráleitt að hann dragi framboð sitt til baka. Hann gæti reyndar gert það og haldið andlitinu fullkomlega. - ÁBS