30. mars 2012

Kommúnistar og nasgúlar


Ég hef þróað með mér óbeit á þingmönnum. Síðustu daga hefur manni fundist eins og þingmenn Sjálfstæðisflokksins séu einhverskonar nasgúlar, handbendi illra afla – sem gangist upp í þjónkun sinni við myrkrið. Sem er sama tilfinning og maður fær reglulega ef maður fylgist með Jose Mourinho og skósveinum hans. Svona fólk kemst næst því að vera kvikmyndaillmenni. Sjálfstæðismenn á þingi hafa notað klæki og kjaftæði til að spilla málum meirihlutans. Og ef þeir eru gagnrýndir voga þeir sér að kenna meirihlutanum um. Segja bara: „Ykkur var nær,“ eða „Það er ekki okkur að kenna að meirihlutinn sé ekki betri í taktík en þetta, þeir skildu eftir rifu, við nýttum okkur hana.“

Í svona rökum felst að það sé hlutverk meirihluta á þingi að sjá til þess að minnihlutinn komist ekki í þá stöðu að geta með nokkru móti haft áhrif á umdeild mál. Það er sumsé fagleg þingmennska að valta yfir alla andstæðinga og halda húsaga á meðreiðarsveinum.

Þvílíkt rusllið.

En mér dettur ekki í hug eitt augnablik að halda að stjórnarmeirihlutinn sé einhverjir krúttlegir hobbitar – hvað þá Barcelona. Það er pínu hjákátlegt að horfa á fólk fyllast heilagri bræði gagnvart Sjálfstæðisflokknum og rísa og hníga í takt við tilfinningahitann sem varð á þingi í gærkvöldi.

Það er nefnilega margsannað að núverandi meirihluti hefur við áþekkar aðstæður gert nákvæmlega það sama. Það er ekki svo langt síðan grátklökkir minnihlutapúkar og kommahatarar stóðu í pontu og ræddu mikilvægi þess að þjóðin yrði höfð með í ráðum og fengi þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave. Og þá fann meirhlutinn því allt til foráttu. Og beitti húsaga til að koma í veg fyrir það. Stærði sig meira að segja af því að hafa troðið því máli í gegn með auknum meirihluta og hneykslaðist þess vegna sérstaklega þegar ÓRG vísaði því til þjóðarinnar.

Þetta lið er allt svo ofsalega falskt í einlægni sinni. Svo stútfullt af sjálfshygli í þjóðarást sinni. Svo innilega laust við jarðtengingu að öðru leyti en því að annar jaðarinn er kirfilega geirnegldur við flokksstöngina. Og svo blakta menn svona rækilega vel í öllum vindum.

Ég er meðvitað hættur að vera meðvirkur með þeim hneykslisbylgjum sem ganga yfir Alþingi. Ég neita að kenna Sjálfstæðismönnum um afdrif nýrrar stjórnarskrár. Ég neita að gæla við slíka reiði. Þetta mál lyktar allt af yfirdrepsskap, fúski og gífuryrðum. Það löðrar í kjánaskap, hræsni og óeinlægum tilfinningavaðli.

Mér finnst sannast sagna eins og meirhluti sem búinn er að halda ömurlega á máli í alllangan tíma sé að reyna að draga dulu yfir eigin ömurlega frammistöðu með því að dingla málinu yfir geltandi skoltum froðufellandi lúsarakka. Og allir stara á hundana.

Málið snýst svo innilega ekki um þjóðina, vald hennar eða virðingu valdhafanna fyrir henni. Það er enginn á þingi sem virkilega hefur einhverja djúpa hugsjón fyrir slíku.

Þetta er dæmigert valda- og hagsmunapot. Dæmigert óinnblásið þvaður.

Sem virðist vera það eina sem þingheimur kann.

Engin ummæli: