14. mars 2012

Klámvæðing og kynfrelsi unglinga



Um daginn mætti í fréttatímann kynjafræðikennarinn í Borgó og fullyrti að klámvæðing væri farin að hafa verulega vond áhrif á unglinga. Ofbeldi og ógeð væri orðið að varanlegum veruleika íslenskra unglinga og kynlífið annarlegt og ógeðslegt. 

Á henni mátti skilja að um væri að kenna klámneyslu unglingspilta. 

Ég verð stundum hugsi þegar ég heyri svona málflutning. Meðalaldur unglinga á Íslandi sem byrja að stunda kynlíf fer hækkandi og er nú á milli 16 og 17 ár. Að mörgu leyti bendir margt til þess að unglingar taki sífellt ábyrgari afstöðu til lífsins, séu heilbrigðara og hamingjusamara fólk en nokkru sinni fyrr.

Sérstaka athygli mína vakti að kennarinn, sem hreinlega minnir mig stundum  á pólitruk – innrætingarfulltrúana sem sáu til þess að menn héldust volgir í Sovétinu, flokkaði munnmök sem einhverskonar óeðlilega tegund kynlífs þegar unglingar væru annars vegar. 

Það er undarleg afstaða.

Annars virðist samfélagið víða eiga mjög erfitt með að átta sig á unglingum og eðlilegum mörkum kynhegðunar og kynlífs. Þannig kemur fram fráleit hugmynd í dómstexta þar sem fullorðinn perri var dæmdur fyrir að taka myndir af nöktum unglingum að fara í ljósabekk:

Fyrir liggur með játningu ákærða, sem samrýmist framlögðum rannsóknar­gögnum lögreglu, að ákærði hafði í vörslum sínum um nokkurt skeið fram til föstudagsins 5. mars 2010 ljósmyndir þær sem um ræðir í ákæruliðum I/1 og I/2, auk 86 afrita, samtals 182 myndir. Myndir þessar sýna stúlkurnar á kynferðislegan hátt, en á flestum þeirra sjást kynfæri stúlknanna greinilega. 

Hér er um að ræða ungar stúlkur sem voru að fara í ljósabekk. Þær afklæddu sig og fóru í bekkinn og þessi ógeðslegi maður tók myndir af þeim án þeirrar vitneskju. Það er mér algjör ráðgáta hvernig nakið stúlkubarn verður kynferðislegt við það eitt að kynfærin séu ber.

Hér er ekki verið að ræða að tilgangur mannsins með myndatökunni hafi verið kynferðislegur. Því er beinlínis haldið fram að myndirnar sýni stúlkurnar á kynferðislegan hátt.

Þvílík þvæla. Nakinn unglingur er ekki á nokkurn hátt kynferðislegur. Nakin manneskja er það yfirleitt ekki.

Það er unglingurinn sjálfur sem á að hafa sjálfdæmi um það hvort/hvenær/hvernig hann er kynferðislegur. Allar tilraunir fullorðinna til að skilgreina það fyrir unglingsins hönd eru varasamar og líklega óskynsamlegar.

Bæði dæmin finnst mér freklegar tilraunir fullorðins fólks til að afmarka kynferðislegt frelsi unglinga. Í fyrra dæminu er unglingum freklega kippt út úr hinu kynferðislega mengi, í hinu er honum á annarlegan hátt troðið inn í það.

Engin ummæli: