11. mars 2012

Hin sjúklega afneitun



Þór Saari neyddist til að biðjast afsökunar eftir að hafa verið gripinn við að segja eitthvað sem ekki mátti: að árásin á lögmanninn hefði ekki átt að koma á óvart.

Helgi Seljan stjaksetti þann stutta vegna þess að hnífamaðurinn virðist hafa verið að díla við smáskuld – en ekki risamyntkörfulán og uppboð á heimili. Sveinn Andri og fleiri tóku undir. Margir lýstu vanþóknun á orðum Þórs.

Það er samt einhver grundvallarskekkja í því hvernig Helgi og aðrir hugsa málið. Hefði málið virkilega verið skiljanlegra – í einhverju eðlilegu samhengi – ef maðurinn hefði verið beittur hörðu og glatað aleigunni? Hefði það gert ofstopafulla árás þar sem hann stingur flýjandi samborgara sinn ítrekað djúpum stungum eðlilegri eða skiljanlegri?

Auðvitað ekki. Undir engum kringumstæðum getur svona árás verið eðlileg, skiljanleg eða réttlætanleg. Hún er í senn stórkostlegur glæpur sem krefst annað hvort einskærrar illsku eða helsjúks huga.

Því verður samt ekki mótmælt að ástandið í þjóðfélaginu ýmist magnar upp slíka hættu eða bælir hana. Það hafa alltaf komið tímabil þar sem öll þjóðin verðru undirlögð spennu og öfgum – gjarnan í kjölfar efnahagsþrenginga – og það dugar stundum til að æra óstöðuga.

Ástandið á Íslandi um þessar mundir er einmitt eldfimt og stórhættulegt. Núna, á meðan þjóðin ætti að sameinast í von um að lögmaðurinn nái aftur heilsu, birtast reglulega á fréttasíðum einhver undarleg drottningarviðtöl við eldri borgara sem ætlaði að sprengja sprengju við heimili forsætisráðherra.

Fjölmiðlar ala á spennu, gremju og reiði. Flokkadrættir eru ofsalegir. Það er sífellt verið að espa fólk upp gegn óvinum. Einn daginn er óvinurinn Forsetinn, annan femínistar, þann þriðja kvenhatarar. Fjórða daginn ætlar brenglaður eldri borgari að sprengja tertu í garðinum hennar Jóhönnu. Þann fimmta ræðst vitfirringur á lögmann með hnífi.

Þór Saari hafði rétt fyrir sér um að þetta þyrfti ekki að koma á óvart. En Þór er partur af vandamálinu. Hann er spennuvaldur. Aggresívir bankar eru það líka. Aggresívir fréttamenn sömuleiðis.

Við berum sameiginlega ábyrgð. Bankarnir, fjölmiðlar, almenningur. Hin harkalega afneitun sem fólst í fordæmingunni á Þór Saari er sjúkleg.

Þessi látlausa stríðsmenning er gríðarlega spillandi. Og þótt það verði aldrei með góðu móti komist í veg fyrir glæpi brjálaðra manna – þá á það ekki að koma á óvart að í samfélagi heiftar og haturst þá dugar reiðiútblásturinn stundum til að feykja þeim óstöðugustu undir fullum seglum í strand.

Viðbrögð manna við frumhlaupi Þórs Saari bera þess merki að menn fari algjörlega á mis við aðalatriðið. Aðalatriðið ætti að vera það að fjölmiðlar, stjórnmálamenn og fjármálamenn eiga að hætta að spila „harðan bolta“ við allt og alla – og slaka aðeins á. Samfélagið mun ekki komast burt úr þessum fjárhagslegu, félagslegu og siðferðilegu kröggum með hnefunum.

Hatur, tortryggni og heift munu aldrei byggja upp betra samfélag en það sem við lögðum í rúst.

3 ummæli:

Teitur Atlason sagði...

Þetta er hárrétt greining.

Nafnlaus sagði...

http://www.dv.is/frettir/2012/3/14/rumar-sjo-milljonir-ahvilandi-ibud-gudgeirs/

Þessi frétt rennir enn frekar stoðum undir að þessi líkamsárás hafði ekkert að gera með "ástandið" í þjóðfélaginu. Þetta snýst um sjúkleika eins manns. Ég legg til að þú hættir að þrjóskast við að leiða málið í sömu átt og Saari teymdi það, bara til að sýnast klárari en allir aðrir. - ÁBS

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Ég verð að viðurkenna það, ÁBS, að ef efni þessa pistils fær mig til að virðast klárari en aðrir þá er það alveg óvart. Þótt ég viðurkenni að ég kunni að virðast óvenju klár við hlið þess sem virðist ófær eða óviljugur um að ná kjarnanum í því sem ég var að segja.