Stundum á ég pínu erfitt með að fylgja þeim rökþráðum sem mynda vaðmál Íslandssögunnar.
Ég skil t.d. ekki hvers vegna helstu persónur og leikendur sem berjast nú gegn endurkjöri ÓRG eru harðir Evrópusinnar. Ég sé ekki hvað ÓRG hefur með aðildarumsókn að ESB að gera. Það er ekki eins og hann hafi einhver völd til að spilla því máli meira en t.d. annar stjórnarflokkurinn eða stjórnarandstaðan eins og hún leggur sig.
Ég skil heldur ekki hvernig fólkið sem taldi undirsskriftarlista til stuðnings endurkjöri ÓRG ómark og bull – vegna þess að Mikki mús stakk þar upp kollinum og undirskriftir voru ekki nema um 30 þúsund – getur hræsnislaust ætlað að byggja mótframboð á skoðanakönnun í innan við 2000 manna grúppu á feisbúkk þar sem verulegum fjölda fólks var bætt við án vitundar og vilja. Vinsælasti frambjóðandinn varð (eins og ég bjóst við) Þóra Arnórsdóttir. Sem nú hefur 274 atkvæði á bak við sig í skoðanakönnun á síðunni.
Gegn 31 þúsund undirskriftum á sumsé að stefna því að 300 manns hökuðu við nafn Þóru á netinu. Þess má geta til gamans að 274 atkvæðin sem Þóra hefur nú eru nákvæmlega jafn mörg atvæði og Frjálslyndi flokkurinn fékk í síðustu Borgarstjórnarkosningum. Þegar hann þurrkaðist út.
Mótframboð gegn ÓRG mun ekki við svo búið eiga sér lýðræðislega rót. Það verður útilokað að túlka það sem andóf almennings gegn mikilmennskubrjáluðum Forseta sem þekkir ekki sinn vitjunartíma. Ef Þóra Arnórs eða Stefán Jón fara fram mun það alltaf vera túlkað sem spuni. Spuni frekar lítils hóps Evrópusinna.
Og það er alls ekki víst að hann komist einu sinni nálægt því að virka. Þóra Arnórs hikar. Örugglega vegna þess að hún er í starfi sem samrýmist ekki framboði og þarf því að stíga til hliðar fyrir verulega óvissan ávinning. Auk þess er hún ólétt.
Stefán Jón vilja sumir meina að væri betri kostur, þrátt fyrir þann augljósa ókost að vera beintengdur stjórnmálalegum óvinum ÓRG og núverandi valdhöfum. Virðist það byggja á einhverri hugmynd um að hann muni eiga roð í ÓRG í kappræðum (af því hann er karl?) og að hann sér djúpur hugsuður og mannvinur (af því hann vinnur í Afríku).
Ég mun kjósa ÓRG. Með töluverðri velþóknun. En ég vil samt ráða þeim sem berjast fyrir mótframboði heilt: Þið verðið að færa baráttuna af Feisbúkk. Strax í dag. Þið verðið að fá fram framboð fyrir helgi. Fyrsta alvöru framboðið mun ráða úrslitum. Ef það verður Elín Hirst eða Steinunn Ólína getið þið gleymt þessu.
Líkurnar á að takist að munstra upp alvöru framboð sem byggir á einhverju öðru en Evrópuspuna fara hraðminnkandi. Því lengur sem menn sitja og tala fyrir opnum tjöldum um kosti og ókosti frambjóðenda því fleiri vopn rata í hendurnar á stuðningsmönnum ÓRG. Því fleiri sem taka til máls, því greinilegri verður óttinn við ÓRG.
1 ummæli:
Held nú raunar að áhugi á öðrum valkosti en ÓRG byggi á einhverju öðru en ótta við þann mann.
Í mínu tilfelli a.m.k. byggir hann á algerri fyrirlitningu á forsetanum.
Og efalítið hafa aðrir sína eigin áhugahvöt fyrir öðrum valkosti.
Skrifa ummæli