Ég man eftir að hafa átt mér þrjá bernskudrauma. Mig langaði aldrei að verða eitthvað sérstakt eða líta út á einn hátt frekar en annan. Mig langaði ekki að labba um á tunglinu eða hlaupa á undan nautum. Bernskudraumar mínir voru þess eðlis að þá mátti alla uppfylla með frekar auðveldum hætti og má enn, þótt ég hafi svosem ekki stigið nein skref í þá átt enn. Kannski er ég að treina mér þá.
Í röð eftir umfangi voru þeir þessir:
Í fyrsta lagi langaði mig að eiga lokrekkju. Rúm sem hægt væri að loka fyrir. En ekki aðeins það. Ég vildi að ef maður lægi í rúminu og horfði upp sæi maður tindrandi stjörnur sem búið væri að koma fyrir inni í rekkjunni. Tengt þessu vildi ég hafa baðherbergið í húsinu mínu þannig að það væri strönd. Aflíðandi halli ofan í ylvolgt vatn og hylur í vatninu. Þar mátti líka setja stjörnur í loftið.
Í öðru lagi langaði mig til að vinna við það þegar ég yrði stór að liggja einhversstaðar á lækjarbakka og rannsaka dýralífið í vatninu.
Í þriðja lagi langaði mig að eiga niðurgrafna hvelfingu sem væri mitt prívat heimili, hún stæði upp úr jörðinni sem lítill súrheysturn en niður um stiga mætti fara ofan í dýrðina. Smám saman breyttist þessi hugmynd í drauminn um hobbitaholuna. Mig langar geðveikt að búa í byggingu með engin rétt horn innan í grasi grónum bakka með kringlótta glugga og viði klætt innvols.
En svo langaði mig í stjörnukíki.
Það var svosem enginn draumur. Það var bara ósk. Og ég fékk stjörnukíki. Hvítan og svartan linsukíki á svörtum fæti úr pottastáli. Og eitt kvöldið kom ég mér fyrir úti í glugga með kíkinn minn og horfði upp í myrkvaðan himininn. Þarna sá ég hverja stjörnuna tindra í kapp við aðrar og ég valdi mér eina hlussulega og leit í gegn um sjónstykkið. Og sá ekki neitt.
Stærstu vonbrigði lífs míns á þessum aldri var téður stjörnukíkir. Það var bókstaflega ekkert að sjá. Allar stjörnur voru enn ekkert annað en litlir sindrandi ljósdeplar. Kíkirinn bætti engu við. Jú, tunglið var aðeins stærra en eftir því sem maður varð gráðugri og valdi meiri stækkun varð myndin daufari og litlausari.
Ég fékk nóg og lét nægja í framhaldinu að horfa með kíkinum á fólk sem labbaði með hundana sína eða skakkar gamlar kerlingar í heilsugöngu. Það var þó sjónarspil, ólíkt helvítis stjörnunum.
Kannski var það þessi slaka uppfylling óskanna sem varð þess valdandi að ég fór mér hægt í að reyna að uppfylla draumana.
Löngu, löngu seinna fattaði ég hvers ég fór á mis.
Þá var ég farinn að kenna náttúrufræði og hafði látið kaupa nokkuð voldugan kíki fyrir kennsluna. Ég hafði ennfremur lesið mér til um það sem var að finna þarna úti. Og þar sem ég beindi kíkinum að Sverðþokunni í Óríon fékk ég kikk. Þvílíkt og annað eins! Þarna var eitthvað annað en einn enn helvítis glampinn. Þarna lúrði þoka. Sundurtætt stjarna sem hafði ælt innvolsi sínu út í geiminn eins og regnboga. Og svo fann ég Satúrnus. Hann lá þarna pínulítill og varnarlaus svo órafjarri en samt svo einkennilega skýr. Þarna voru hringirnir, og skugginn af þeim. En sú fegurð. Og þá fann ég Júpíter. Og hvað var þetta? Jú, litlu tunglin hans sátu sitthvoru megin við hann. Alveg eins og Galíleó hafði lýst þeim. Og þarna sá ég þetta með berum augum. Og geimurinn er fullur af svona gersemum.
Síðan þá finnst mér stjörnufræðin vera langsamlega fegursta og dygðugasta vísindagreinin. Hún fjallar um allt sem er. Allar þær óravíddir sem blasa við þegar horft er upp í loft. Ég svaf einu sinni undir þakglugga og horfði á stjörnurnar á hverju kvöldi fyrir svefninn (að vísu ekki í lokrekkju) og ég verð að viðurkenna að það tekur á taugarnar. Smám saman áttar maður sig á að maður liggur límdur við lítinn stein í útjaðri ginnungagaps og við manni blasir eilíft fall. Og ég varð lofthræddur.
Þeir sem gefa börnunum sem þeim þykir vænt um stjónauka ættu að tryggja að börnin viti hvert á að horfa. Langbest er að bjóða barninu á námskeið hjá Stjörnuskoðunarfélaginu. Það er eitt seinna í mánuðinum. Nú eða grípa tækifærið eins og á morgun og fá að fræðast af þeim sem hafa ástríðuna.
Af nógu er að taka.
Sumt þarf að læra að elska. En þegar ástir nást endast þær alla ævi.
Endurreisn stjörnufræðiáhuga míns (sem enn er á brauðfótum) hefur gert það snöggtum líklegra að ég grafi einn daginn fyrir hobbitaholu með strandherbergi við hliðina á litlum læk í sveit.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli