9. febrúar 2012

Eitt sinn í heimspekitíma



Loksins er heimspeki kominn inn í stundaskrá hjá krökkunum okkar í Úllónolló. Fyrsti fasti tíminn (sem ekki er val) var hjá drengjum í áttunda bekk í dag. Þvílíkir endemis snillingar sem þeir reyndust vera. Og það sem heimspekileg umræða er góð kennslugrein. Ég hef látið sömu börn skrifa niður stuttar pælingar alla daga þessa viku og eini afraksturinn er í flestum tilfellum frekar lítið innblásið hálfvolgt moð. En um leið og börnin fara að tala, eðlilega og óþvingað kemur snilldin. Hér er ágrip af umræðunni undir það síðasta í dag:

(Eftir almenna umræðu um drauma) Ég er feitletraður:

„Það er ekkert í draumum sem maður hefur ekki upplifað. Draumar geta bara tekið það sem maður þekkir og raðað saman upp á nýtt. Ekki búið neitt til.“

En hvað þá þegar maður er vakandi? Getur maður hugsað eitthvað nýtt? Er hægt að skapa með hugsuninni eða byggir hún líka bara á reynslu?


„Það er eins. Þú getur ekki hugsað neitt nema þekkja það fyrst.“

Í gegnum skynjun?

„Já.“

Hvað segir það okkur um skóla? Hvernig er hægt að kenna eitthvað nýtt?

„Það þarf að leyfa nemendum að skynja hlutina fyrst. Og síðan getur kennarinn raðað þessum kubbum saman með nemandanum eða útskýrt hvernig maður smíðar stærri hluti úr þeim.“

En er kennsla þannig?

„Nei, oftast er það þannig að kennarinn kemur með heilan kubbaklump og sýnir nemendunum hann. Síðan reyna nemendurnir að afrita hann en hann verður ekki eins og liggur bara í huga nemandans án þess að vera tengdur við kubbana sem voru þar fyrir. Kennarinn ætti að rétta nemandanum einn kubb í einu eða athuga hvort nemandinn á ekki þann kubb fyrir. Og leyfa honum að smíða hlutinn frá grunni.“

Það hljómar miklu betur. Hvað myndi gerast ef við myndum ákveða, hér og nú, að kenna þannig?

„Það tæki að vísu allt miklu lengri tíma“

„Eða ekki, ekki ef við værum bara aldir upp til að hugsa svoleiðis.“

Engin ummæli: