23. febrúar 2012

Skólar eiga að vera hlutlausir.

Nú er búið að kæra Snorra til lögreglu fyrir að halda því fram að samkynhneigð sé synd. Málinu verður væntanlega hent út vegna þess að kærandinn er ekki aðili málsins. Aðeins áhyggjusamur borgari sem telur að Snorri hljóti að hafa brotið lög, auk þess sem bloggfrelsi hans hafi hann framselt þegar hann gerðist kennari:


Að sama skapi má ætla að sá sem tekið hefur að sér kennslu í grunnskóla hafi framselt rétt sinn til að tjá skoðanir sem ganga jafn augljóslega gegn hagsmunum hluta nemendahópsins og bloggskrif Snorra gera,


Hann notar orðið hagsmuni. Nemendur í grunnskólum hafa sumsé hagsmuni af því að hvítasunnufólk og aðrir tali ekki um samkynhneigð sem synd. 


Mig langar að demba hér inn tilvitnun sem ég held að mjög margir, sama hvar þeir standa í málinu, geti tekið undir:


Í skólum sem kostaðir eru af almannafé ætti að vera raunverulegt hlutleysi um trúmál hvar sem þess er óskað.

Sá sem þetta skrifaði var stundum kallaður Mannasættirinn mikli. Hann var virtur og vinsæll amerískur stjórnmálamaður sem var þekktur af því, sem síðar hefur fengið á sig frekar neikvætt orð: popúlismi. Hann var frjálslyndur Demókrati og mikill friðarsinni. Orðin hér að ofan skrifaði hann í litla bók árið 1922, vitandi það að í aðsigi væri mikil orrusta vegna trúmála í skólum.


Hann hét William Jennings Bryan.Bókin heitir Í sinni mynd.

Efni hennar er langdregin árás á vísindin og þau áhrif sem þau voru að hafa amerískum ungdómi til spillingar. Nokkrum árum seinna vann W.J.Bryan frægt dómsmál sem oft hefur verið kallað Aparéttarhöldin. Þar fékk hann kennara dæmdan fyrir að nota bók í kennslu sem innihélt kafla um þróunarkenningu Darwins.

Hér er önnur tilvitnun úr aðdraganda þeirrar fyrri:

Við Columbia-háskóla (frétti ég hjá babtistaprédikara) hóf prófessor námskeið sitt um jarðfræði á því að segja nemendum að henda burt öllu sem þau hefðu lært í sunnudagaskóla. Um prófessor í Yale er sagt að enginn yfirgefi bekkinn hans trúandi á Guð (Þetta hef ég eftir ungum manni sem sagði mér að þessi prófessor væri að afvegaleiða bróður sinn frá kristinni trú). Faðir (og þingmaður) segir mér að dóttir hans hafi sagt þegar hún sneri aftur úr Wellesley að enginn trúi biblíusögunum lengur. Annar faðir (og þingmaður) segir mér af syni sínum en grafið var undan trú hans með þessari kenningu [Darwins] í guðfræðinámi. Þrír prédikarar hafa sagt mér að þeir hafi fengið áhuga á efninu þegar börn þeirra sneru heim úr háskóla með efasemdir um trúna. 

Þegar W.J.Bryan óskaði eftir raunverulegu hlutleysi var hann allsekki að óska eftir hlutleysi. Hann var að óska eftir friðhelgi. Hann var þeirrar skoðunar að Guðstrúin nyti slíkrar almennrar hylli og væri svo óefuð að hana ætti að verja allsstaðar þar sem hún væri í hættu. Á endanum snerist baráttan gegn guðleysinu um baráttuna milli góðs og ills, ást og haturs.

Hann vitnar í skáldið Bourdillon:

Nóttin hefur þúsund augu
og dagurinn bara eitt,
samt hverfur ljós heillar veraldar
þegar sólin sest 
Hugurinn hefur þúsund augu
og hjartað bara eitt,
samt hverfur ljós heillar tilvistar
þegar ástin er ei meirOg hann talar um efnishyggju, Nietzsche og nasisma. Hnoðar þetta saman í einn stóran haturvöndul og bendir á að með því að umbera það að ástin, með sinn guðdómlega uppruna, sé soguð úr vitundum barnanna – þvert gegn vilja foreldra þeirra og samfélagsins í heild – sé verið að valda óbætanlegum skaða.

Síðan kemur að kjarna boðskapar hans:

Í fyrsta bréfi sínu (kafli 4:2) [á að vera 4:20] lýsir Jóhannes kærleiksboðorði Krists á róttækan hátt: Ef einhver segir: „Ég elska Guð,“ en hatar bróður sinn, er sá lygari.“
Þetta eru hvöss orð en postulinn var að fást við gríðarlega alvarlegt viðfangsefni, þ.e. hið augljósa ósamræmi milli þess að elska Guð og hata bróður sinn.
Hatur í garð bróðurins getur birst á margvíslegan hátt og við verðum að hafa hugfast að hatur er synd sem birtist frekar í gjörðum frekar en viðurkennd. Ein birtingarmyndin er afskiptaleysi...

Bryan barðist af mikilli hugsjón gegn afhelgun vísindanna. Lokasenna hans við Clarence Darrow er fræg en þar kallaði Darrow, sem varði kennarann í málinu, sjálfan sækjandann, Bryan, til vitnis um kristna trú. Þar álpaðist Bryan til að segja að hann vissi ekki mikið um önnur trúarbrögð enda nægði honum kristnin og að hann vissi ekki að menning Kínverja væri eldri en syndaflóðið. Bryan vann en dó örfáum dögum seinna úr ofþreytu og sykursýki.Kennarinn var sýknaður af æðri dómstól ári seinna vegna formgalla – það reyndi ekki á hvort það var stjórnarskrárbrot að banna þróunarkenninguna. Eins og síðar varð.

Núna, 90 árum síðar, hefur dæmið snúist við.

Nú á að reyna að setja kennara á sakamannabekk vegna þess að hann telur að kristin trú banni samkynhneigð (með hórlífi, lygum, öfund og öllu hinu sem bannað er). Nú er það sá kristni sem er sakaður um að hata og spilla æskulýðnum. Nokkuð sem jafnvel hugsjónablossandi lýðræðisríki hafa álitið dauðasynd (í óeiginlegri merkingu) frá upphafi. Þetta var sök Sókratesar. Hann gekk um og ringlaði unglinga í kollinum. Ef einhver hefði sagt við Sókrates: „Segðu þessum ungmennum að samkynhneigð sé eðlileg!“ hefði hann sagt: „Hvað meinarðu með eðlileg?“ eða „Hvernig veistu það?“ Hann hefði ekki linnt látum fyrr en ungmennin hefðu verið snarringluð og ekki þorað að slá neinu föstu um samkynhneigð eða nokkuð annað.Lýðræðið þarf Sókratesana. Þeir gegna því hlutvefki að reyna á fullyrðingarnar. Líka þær heilögu. Þeir eru broddflugur sem stinga svo svíður undan. En þeir viðhalda heilbrigði á stærri kvarða. Ef þeir eru ekki teknir úr umferð og dæmdir.

Hugmyndin um þann skaða sem Snorri veldur eru í besta falli þokukenndar. Hugtakinu hatri er veifað eins og það sé enn sveipað gildishlöðnum, trúarljóma. Ef einhver getur fært rök fyrir því að Snorri hati – á umræðan að enda þar með. Alveg eins og Bryan vonaði að honum tækist að sannfæra lesandann að það að bjarga ekki sálum afvegaleiddra skólabarna væri hatur. Margir vilja meina að samkynhneigð ungmenni bíði skaða af því að vita til þess að kennarinn hafi þessa skoðun. Alveg eins og Bryan taldi sannað að darwinismi væri skaðlegur þegar skoðuð væru áhrif þess að börn færu í háskóla og sneru heim týnd í tilverunni.

Auðvitað er skoðun Snorra ömurleg. Fornarlarleg og heimskuleg. En menn ofmeta stórkostlega áhrif hans á nemendur. Þótt við leggjum það til hliðar hvað nákvæmlega felst í því að hata – þá ganga mörg hundruð skólabörn um göturnar sannfærð um að kennararnir þeirra hati þau. Sum hafa meira að segja rétt fyrir sér.


Á fjöldamörgum heimilum hafa átt sér stað samtöl sem enda á einhverju á borð við: „Ég fékk fjóra í dönsku af því dönskukennarinn hatar mig.“ Í langflestum tilfellum trúi ég mótsvar foreldranna sé:„Láttu ekki svona. Hættu að kenna öðrum um. Þú hefur augljóslega ekki fylgst með í dönskutímum.“


Nú á að reka mann og dæma af því að einhverjir hafa ákveðið að skoðun hans, sem vissulega er kjánaleg og forómafull, sé hættulegt hatur.

Ef skilgreina má hatur frjálslega þá er öruggt að skólakerfið fullt af hatandi kennurum sem láta nemendum líða illa. Margir miklum mun verri en hann. Fáir nenna að fást um það.

Guðbergur Bergsson uppskar lófaklapp og almenna aðdáun fyrir barnhatandi pistil á netinu. Fjöldi fólks sagði opinberlega: „Gott hjá honum. Einmitt það sem ég vildi segja.“ Vegna þess að fólk var pirrað út í óknyttadrengi taldi fólk í góðu lagi að fjörgamall karl og viðhlæjendur hæddust opinberlega að hræddum, litlum dreng sem áttaði sig ekki á því hve ógnvekjandi fullorðið fólk getur verið.

Má bjóða einhverjum kúfaða skeið af hræsni?

Samkynhneigðir nemendur sem líður illa þurfa að díla við allskonar fordóma og erfiðleika. Minnst af því stafar af trúarskoðunum. Mest af því af almennri heimsku og þröngsýni. Það að fjarlægja málglaða, trúaða kennara úr vegi þeirra á krítiskum augnablikum skilar engu. Samkynhneigðir unglingar munu áfram þurfa að díla við útlitsfordóma, hegðunarfordóma og alla hina fordómana sem ekki eru ólöglegir. Eru bara ásættanleg heimska. Samkynhneigður unglingur í tilvistarkreppu reynir yfireitt að mölva niður fleiri veggi en þann eina hvort honum er leyfilegt, þegar þar að kemur, að sofa hjá einstaklingi af sama kyni.

Það að skapa samfélag þar sem leyft er að hugsa og tala frjálst og höggva með meitlum í heilagar kýr og aðrar, gæti orðið að gagni. Því samfélag sem umber að Snorri fái að tilheyra miðaldaklúbbi opinberlega umber einnig og hvetur til þess að öll viðmið séu skoðuð af kappi. Ef menn fá að sveifla sleggjunni aðeins í kringum sig er miklu líklegra að menn mölvi niður fordóma en varnir gegn fordómum. Fordómarnir eru svo miklu viðameiri.

1 ummæli:

Bjössi sagði...

Já sæll. Ég er mættur aftur. Hér er eitt og annað sem ég vil gera athugasemd við.

Í fyrsta lagi, flottur hálmkall! Ég játa fúslega að ég hafði aldrei heyrt um þennan vitleysing. Hins vegar finnst mér þú seilast ansi langt að leggja málflutning hans að jöfnu við andmælendur Snorra í Betel.

Þú hefur áður notað orðið þöggun í þessu samhengi og í pistlinum þínum í dag talar þú um að það skili engu að “fjarlægja” Snorra.

Er það þöggun þegar menn stíga fram með bloggfærslur, facebookstatusa, opin bréf í blöðunum og lögreglukærur? Þvert á móti. Þarna er verið að vekja athygli á því hversu viðbjóðslegar skoðanir Snorra eru og því fleiri sem andmæla honum og því hærra sem þeir gera það, því fleiri munu átta sig á því (þótt Snorri sjálfur geri það seint) að í okkar þjóðfélagi líðst ekki að menn geri á opinberum vettvangi árásir á hópa á grundvelli kynhneigðar.

Þau skilaboð munu vonandi berast einhverjum vansælum unglingum og vittu til - þau munu hjálpa.

Það er afar einfeldningslegt að gefa í skyn að það eigi ekki að ofsækja Snorra af því að hans hatur og þröngsýni er falið á bak við hans persónulegu túlkun á gamalli bók, bara af því að samkynhneigðir unglingar mæti fordómum svo víða annars staðar.

Unglingar í kynhneigðarkreppu eru samt bara einn lítill þáttur í jöfnunni. Því orð Snorra eru gróf móðgun í garð þúsunda Íslendinga.

Svo er Snorri enginn Sókrates. Orð hans eru hvergi til þess fallin að vekja nokkurn mann til umhugsunar um neitt. Þau eru sleggjudómar og alhæfingar og það breytir engu þótt hann þykist vera að vitna í guðs orð. Tilgangur Snorra er ekki að ungmenni “þori ekki að slá neinu föstu um samkynhneigð” heldur þvert á móti.

Þetta með dönskukennarann heldur engu vatni. Það hefur enginn hingað til afsakað lélega dönskueinkunn með því að kennarinn hafi bloggað um að fólk eins og nemandinn eigi skilið að deyja fyrir það hvert það sé. Þessir fjölmörgu kennarar sem þú telur að hati einhverja nemendur sína gera það hins vegar langflestir vegna þess sem nemendurnir gera. Og þar er reginmunur.

Heldur fannst mér svo klént að draga gamla hommann Guðberg inn í þessa umræðu. Skítt með það hvað hverjum finnst um það að menn meiði dyrabjölluhrekkjusvín, um það að dyrabjölluhrekkjusvín skíti í brækurnar eða að feður dyrabjölluhrekkjusvína telji réttast að fara fyrir dómstóla og skapi þannig dýrustu nærbuxur Íslandssögunnar. Og þó ég taki undir það með þér að það sé ljótt að gera opinberlega lítið úr hlandbrunnum hrekkjalómi þá var einnig þar verið að veitast að drengnum vegna þess sem hann gerði. Ekki vegna þess sem hann er.