23. febrúar 2012

Heimildaskrár eru villuljós.


Ég fór á Öskudagsráðstefnuna í gær. Hún er líklega stærsti faglegi vettvangur kennara á landinu. Þangað mæta á milli 500 og 1000 kennarar til að næra sig á ferskum straumum í menntaheiminum. Eins og til að undirstrika hina raunverulegu stöðu á milli hugmynda og veru er hún sett upp á arfavitlausan hátt.

Það er ekkert smáræði sem hægt væri að gera ef maður raunverulega nýtti það að fá mörghundruð fróðleiksþyrsta kennara á einn stað í nokkra klukkutíma hefði maður áhuga á að nýta það rétt. En raunin er sú að maður mætir á staðinn og byrjar á að standa í röð til að geta skráð sig á ráðstefnuna og fengið ráðstefnugögn. Gögnin eru prentuð mappa með prentaðir dagskrá og prentaðri auglýsingu um námsvefi. Hrein og tær sóun á pappír – og peningum.

Þarna voru líka básar. Þar var verið að kynna bækur. Sumar þeirra voru bækur sem ég lærði í grunnskóla.

Ráðstefnusalurinn var gríðarlegt flæmi. Fyrir miðjum útvegg var smá svið með púlti og þrír skjávarpar lýstu upp vegginn aftan við sviðið. Ótal stólar sneru að sviðinu og kennararnir voru ekki lengi að átta sig á sínu hlutverki. Kennarar eru stórkostlega góðir í að vera prúðir – og prjóna.

Það er í raun stórmerkilegt hve meira og minna allar menntaráðstefnur og fundir eru kennslufræðilega afleitar. Það er næstum algild regla að þegar kennurum er kennt að kenna er kennsluaðferðin aldrei í samræmi við kennsluna sem verið er að agítera fyrir. Það er eins og menntagúrúar hugsi sem svo: „Auðvitað er tómt rugl að kenna svona og nú ætla ég að segja ykkur af hverju, en af því við höfum stuttan tíma ætla ég að kenna það afleitlega.“ Í fljótu bragði man ég bara eftir einum kennarakennara sem stundaði það sem hann boðaði. Það var Ingólfur Ásgeir Jóhannesson. Hann setti hverja einustu kennslustund upp eins og hann kenndi að rétt væri að gera. Það má vera að fleiri séu eins en þeir eru ekki margir.

Fræðslufundur um árið 30.


Hið sama tæpum 2000 árum seinna


Þarna sátu sumsé ótal kennarar klukkutímum saman og hlustuðu á einn mann í einu sem talaði um glærurnar sínar – og prjónuðu. Innihald allra erindana var mjög fróðlegt. Raunar merkilegt. En auðvitað hefði maður átt að horfa á þá í tölvu. Síðan hefðu þeir sem hefðu raunverulegan áhuga á að nema eitthvað getað mætt á ráðstefnuna undirbúnir til að vinna eitthvað með upplýsingarnar.

En svona er þetta oft. Menn virðast halda að gott innihald þoli slæmar umbúðir. Átta sig ekki á því að það er ekki skýr greinarmunur á innihaldi og umbúðum í kennslu.

Eitt af örfáum áhyggjuefnum foreldra nemendanna sem munu nota spjaldtölvu við nám næstu 3 annir eru þær hvað gerist þegar börnin koma í framhaldsskólann og þurfa að fara að standa fyrir sínu gagnvart kennurum sem gera kröfur sem þeim hefur ekki verið kennt að standa undir. Og þessir kennarar bíða þarna, eins og hákarlar í lóni. Á síðustu örfáu mánuðum hef ég fengið ófáar áminningar um að eitt af því fyrsta sem mætir nemendum í framhaldsskóla er ofursmámunasami og -samviskusami kennarinn sem krefst þess að þú skrifir sífellt lengri texta með hárréttu línubili, nákvæmum spássíum og tilvísinum og heimildaskrá í fullkomnu samræmi við eina tiltekna bók.

Þvílík endemis vitleysa. Þessi ofuráhersla á frágang er tóm þvæla. Í fyrsta lagi er hún tæknilega á úreldingarmörkum. Bæði hvað varðar innihald og útlit. Að reyna að nota áratugagamalt tilvísanakerfi til að halda utan um upplýsingaköfun í dag er eins og að reyna að hafa stjórn á flugdreka með tannþræði. Auk þess er þörfin á því að læra að setja punkt, skáletrun, ártal og aðrar smásmugulegar upplýsingar upp í réttri röð engin. Það er álíka óþarft og að kunna html-forritun. Tæknin er fyrir löngu búin að gera svona baunatínslu óþarfa.

En raunin er auðvitað sú að kerfið haðrneitar að viðurkenna að það sem menn héldu að væri ógnarmikilvægt sé kjánalegt bull. Og það stritast við að kenna það og koma inn guðsótta í hjörtu nemenda sem breytast í samviskusama baunateljara með tíu þumla. Nemendur strita við að læra hvernig á að skrá allt þetta dót og þegar þeir loks ná þessu þykir þeim svo mikið til um sig að þeir bætast í hóp þeirra sem telja þessa hæfni ómissandi.



Heimildaskráning er villuljós.

Á meðan er næstum ekkert spáð í innihaldið. Aðeins þessa kaþólsku áráttu að kenna nemendum að vitna í aðra.

Mætti ég stinga upp á því að fólki sé kennt að elda áður en því er kennd framreiðsla. Í dag er það öfugt. Nemandi telst undirbúinn undir háskólanám þegar hann kann að láta jafnvel óæta rétti líta út fyrir að vera frá meistarakokki. Það er látið nægja, vegna þess að yfirleitt dettur kennurum ekki í hug að hlutverk þeirra sé að borða rétti nemenda sinna. Þeir eru mættir þarna til að mata – ekki matast.



Og því höfum við byggt upp menntakerfi sem jafnvel á ráðstefnum dettur í prúða prjónafarið. Gagnvirkni er engin, jafnvel þótt verið sé að ræða um nauðsyn hennar. Það koma varla spurningar í lok fyrirlestra – hvað þá meira.

Þegar Vogaskóli kom fram með Kyndlana spruttu ýmsir fýlupúkar af stað og tuðuðu. Skólinn varð fyrir töluverðum árásum fyrir að setja nokkrar kennslubækur inn á lestölvu. Við í Norðlingaskóla höfum sloppið að mestu við slíkt – samt göngum við miklum mun lengra. Við höfum reyndar í einni frétt verið notum sem einhverskonar gnægtartákn. Það var fréttin um að Austurbæjarskóli væri með svo ónýtar tölvur að kennarar væru farnir að kaupa eigin skjávarpa. Og svo var mynd af nemendum okkar og búið til samhengið: Meðan að sumir nemendur fá spjaldtölvur er tölvukallinn í Austurbæjarskóla að pota í ónýtan skjávarpa með kústskafti til að koma honum til.



Ég hef talað um það lengi að ástand í UT-málum er ólíðandi og ömurlegt. Það er til háborinnar skammar. Og ég styð kennara allsstaðar, í Austurbæjarskóla og annarsstaðr, í allri viðleitni til að snúa því við. Skal glaður leggja á mig ómælda vinnu til að hjálpa öllum sem vilja safna í lið til að breyta þessu.

Ég þarf samt að viðurkenna að þegar ég sá fréttina frá Austurbæjarskóla fylltist ég ekki baráttuhug fyrir hönd skólanna. Ég varð sorgmæddur. Og pínu fúll.

Áherslan var á umbúðir.

Ég var nefnilega í nákvæmlega sömu stöðu og Austurbæjarskóli og er það enn með megnið af nemendunum (það er bara einn árgangur með pöddur). Unglingadeildin er með elstu tölvurnar í skólanum okkar. Þær þurfa stöðuga gjörgæslu til að virka. Sumar ýla, aðrar vantar takka enn aðrar eru steindauðar. En við myndum aldrei samþykkja að þeim yrði hrúgað upp í einhverri tölvustofu þar sem umsjónarmaður með prik drottnaði yfir þeim. Tölvur eiga að vera í höndum nemenda í öllum fögum. Þær eiga að vera í kennslustofunum og vera notaðar þar.

Ég fletti því upp eftir fréttina hvort verið gæti að við í Norðlingaskóla lifðum í einhverri loftbólu. Ég væri að kenna í einhverju fjárhagslegu, bleiku skýi og allt blaður mitt hér væri fábjánalegt og óraunhæft tuð. Krafa um að sveltandi múgur borðaði kökur í stað brauðs.

Raunin er sú að Norðlingaskóli er annar af tveim skólum sem fá langsamlega minnst fé til skólahalds (í sínum stærðarflokki). Bæði til launa og reksturs. Austurbæjarskóli fékk (skv. síðustu opininberu tölum) t.d. næstum þriðjungi meira fé fyrir hvern nemanda en Norðlingaskóli. Fyrir þennan mun væri hægt að kaupa næstum fjórar spjaldtölvur af dýrustu gerð fyrir hvern einasta nemanda.



Austurbæjarskóli hefur að vísu tekið sér forystu í að sinna nemendum af erlendu bergi og gerir það ákaflega vel. Það kostar. En skyldi ekki vera hægt að spjaldtölvuvæða einmitt slíkan skóla og nýta tæknina til að hefja landnám í framtíðarlandi stafræns náms – þar sem einstaklingsmiðað nám (en nýbúakennsla er hápunktur slíks náms) er ólgandi af áður óþekktum möguleikum?

Hvernig skyldi vera hægt að spjaldtölvuvæða skóla sem rekinn er fyrir miklu minna fé en skóli sem potar skjávörpum í gang með kústsköftum? (Skólinn keypti spjaldtölvurnar, þær eru hvorki lán né gjöf frá Epli.is)

Jú, það er í sjálfu sér enginn galdur. Það eru tvær ástæður:

Sú fyrri er einangrun, alvarlegasta meinsemd starfsumhverfis kennara. Það er átta manna hópur sem í sameiningu tekur allar ákvarðanir um unglingadeildina okkar í Norðlingaskóla. Og við tökum ákvarðanir með nemendum. Þessir átta bera saman ábyrgð og móta saman stefnu. Þegar átta manns ræða hlutina og vinna saman gerast hlutir sem ekki er hægt að gera þar sem kennarar eru einir að pufast með sitt. Einangrun kennara er ástæða þess að í flestum skólum er bara einn „tölvukennar“ sem síðan býr sér til tölvuhreiður einhversstaðar sem aðrir kennarar hálf óttast.

Hin ástæðan er áhersla á innihald, ekki einangrun. Allt mitt námsefni var orðið stafrænt árið 2004. Nemendur voru þá þegar komnir með góðan aðgang að netinu heima hjá sér. Þeir lásu fyrir tímana mína heima og mættu í skólann. Ég gat ekki látið þá fá tölvur í skólanum (utan tíma í tölvuveri sem nýttust ekkert) en það skipti ekki máli. Námið fór vel fram því nemendur höfðu tölvuumhverfið á valdi sínu þá þegar. Núna eru þeir miklu fleiri nemendurnir sem hafa nær algjört vald á netinu og kennarar gætu notað það til kennslu. En í staðinn fara krakkarnir heim og vinna í stærðfræði- og íslenskubókunum sem notaðar eru í skólanum af því stafræn tæki eru ekki nógu góð.

Fréttin í Austurbæjarskóla bar með sér að það er eiginlega uppgjöf gagnvart notkun upplýsingatækni. Kennarinn sem kvartaði yfir aðbúnaði sagði að lokum að vissulega væri hægt að gera allt án tölva, hitt væri bara æskilegra og skemmtilegra.

Málið er að þetta er einmitt ekki raunin. Notkun upplýsingatækni í kennslu er ekki sambærileg við notkun salts í graut. Hún er sambærileg við að hætta að borða einhæft fæði og hafa loks aðgang að ferskum mat. Þar með er auðvitað ekki sagt að það sem borðað var áður hafi allt verið tómt rusl. Matur getur verið bráðhollur þótt hann sé einhæfur. Hann er bara ekki nóg. Og auðvitað heldur maður áfram að borða það sem er best.

Íslendingar komu afleitilega út í PISA-könnun í vísindum. Nánari skoðun á niðurstöðunum leiddi í ljós að einhver sterkasta fylgni við frammistöðu var notkun tölva í skólanum. Því lengur sem nemendur höfðu verið virkir tölvunotendur í námi – því betri frammistaða. Íslensk skólabörn fá ekki að nota tölvur að viti í skóla þótt þau séu með góðar tölvur heima og jafnvel betri tölvur í vasanum (sem gerð er upptæk ef hún er tekin upp í tíma).

En stóri, stóri vandinn er ekki tæknilegur. Hann er hugarfarslegur. Það var keyptur rándýr búnaður í alla skóla á sínum tíma. Hann var skelfilega illa nýttur. Hann er búið að endurnýja nokkrum sinnum. Aldrei verður notkunin betri. Vandinn núna er ekki gamlar tölvur. Ef þær yrðu endurnýjaðar allar á morgun myndi ástandið ekki lagast mjög mikið. Mjög margir myndu áfram hrúga tölvunum í lokaðar tölvustofur og leita allra leiða til að handstýra því hvernig tækin yrðu notuð. Hugarfarið á bak við hina vonlausu hugmynd „vefleiðangur“ yrði áfram ríkjandi. Ferð með fararstjóra um hlaðborð.

Það þarf að uppfæra innihaldið. Þegar það er gert mun fljótt koma í ljós hvar umbúðirnar kreppir raunverulega að. Það er þess vegna sem við erum að prófa iPad. Ekki vegna þess að hann er nýr eða flottur. Heldur vegna þess að hann hefur möguleika til að ná markmiðum sem aðrar tölvur gerðu okkur ekki kleift að ná.



Engin ummæli: