18. febrúar 2012

Hommahatur kristinna

Menn hafa orðið til þess, nú síðast Davíð Þór Jónsson, að draga á flot allskyns ruglumbull úr gamla testamentinu til að sýna fram á fásinnu þess að telja kristna trú andæfa samkynhneigð. Og það veit Tútti að frameftir allri Biblíunni er að finna spaugilegar og kjánalegar reglur sem engum manni dettur í hug að séu til eftirbreytni. Það má ekki ganga í fötum úr tvennskonar efni, konur á túr eiga að halda sig fjarri fólki, það má höggva hendur af konum sem kremja eistu, ekki borða hval og svo mætti lengi telja.

Um leið trompa menn allar slíkar gamlar reglur með kærleiksboðskap krists. Þú átt að elska alla aðra og dæma ekki.

Slagurinn um hina einu sönnu kristni er slagurinn um það hvar draga eigi mörk milli kærleiks og krafna. Kristur átti það til að missa húmorinn fyrir brestum manna. Það hefði verið eftir honum að velta við borðum í Kauphöllinni eða skammast í purpuraklæddum biskupum sem verja drullusokka. Jesú Biblíunnar  var ekki skaplaus hippi sem elskaði alla. Á tíðum var hann ansi kröfuharður. Það voru reglur. Þeim átti að fylgja.




En svo er það Páll postuli. Sá mannhatandi ofstækismaður sem fékk að matreiða kristnina ofan í kirkjurnar. Páll nýtur enn töluverðrar hylli innan Þjóðkirkjunnar og til hans er mikið vitnað. Það er í Páli sem hommaandúð kristninnar í nútímanum á sína uppsprettu. Í bréfi hans til Rómverja segir:


26Þess vegna hefur Guð ofurselt þá svívirðilegum girndum. Bæði hafa konur breytt eðlilegum mökum í óeðlileg, 27og eins hafa líka karlar hætt eðlilegum mökum við konur og brunnið í losta hver til annars, karlmenn frömdu skömm með karlmönnum og tóku út á sjálfum sér makleg málagjöld villu sinnar.

Það er þetta sem samfélagið vill nú dæma ólögmæta skoðun. Skoðun sem stangist á við kærleiksboðskap krists. Skoðun sem dugi til að hrekja menn úr störfum.

Það, að láta sem andúðin á samkynhneigð sé ekki eðlilegur þáttur kristinnar kirkju, er vægast sagt villandi. Fyrir henni eru „sterk“ guðfræðileg rök. 

Kirkjan og tíðarandinn hafa alltaf verið tengd kúgunarböndum. Hingað til hefur kirkjan haft stjórn á tíðarandanum. Nú er tíðarandinn farinn að stýra kirkjunni. Það er eflaust aðeins eitt merki þess hve kirkjan er orðin óskaplega máttlaus og veik. Hún lagar sig að „almennri“ skynsemi í stað þess að reyna að stýra henni.

En...trúfrelsi, skoðanafrelsi og málfrelsi er einskis virði ef það leyfir aðeins hið óumdeilda. Á sama hátt og við gerum þá kröfu, jafnvel á skoðanabræður Páls postula, að þeir umberi upp að vissu marki homma, hórdómsmenn og kvenfólk, þá verða hinir sömu að umbera málpípur Páls. Hversu kjánalegar sem þær kunna að hljóma. 

Saga mannkyns er saga hugsunarstjórnunar fyrst og fremst. Hjörðum manna hefur verið att úr einu foraðinu í annað. Í sögulegu samhengi erum við rétt nýskriðin á fætur úr stærsta hildarleik allrar þeirra sögu. Við erum ekki einu sinni búin að grafa alla þátttakendur í því ofboðslega leikriti haturs og hamfara. 

Flestar hörmungar mannkyns stafa af því að menn telja að þeir séu að gera gott. Svo gott að því megi ekki spilla með andófi. 

Það verður að ala upp fólk sem lifir gagnrýnu, andlegu lífi.

Forsenda þess er frelsi. 

Þú getur ekki tekið hjálpardekk af hjóli barns nema auka hættuna á því að það detti. 

Það er ekki hægt að kveikja ljós nema framkalla nokkra skugga. 

Upplýstur hugur þarf ekki að óttast slíka skugga.

5 ummæli:

Bjössi sagði...

Með hverri færslunni sem ég les frá þér ágerist óbragðið í munninum á mér. Þar sem ég þekki þig og veit - eða held - að þú sért ekki þröngsýnn hálfviti togast nú á í mér vonir um tvær mögulegar skýringar á þessum málflutningi þínum. Annað hvort hljóti þetta að vera langdreginn brandari eða gjörningur og þá er punchlineið orðið langþráð, eða þá að þú ert fallinn í þá kjánalegu gryfju að líta á málsaðila í þessari umræðu sem jafningja. Eins og mætti skilja af orðum þínum um að ef gera eigi þá kröfu til "fylgjenda Páls postula" að þeir umberi homma og hórdómsfólk, þá verði að gera þá kröfu til andmælenda þeirra að ofsatrúarmennirnir séu umbornir og (líklega, þó þú segir það ekki beint) virtir.

En þú gleymir því að kristnir evangelistar hafa ekki í sögulegu samhengi verið ofsóttir, pyntaðir, sendir í útrýmingarbúðir eða lamdir kerfisbundið af laganna vörðum vegna þess hverjir þeir eru. Það hefur ekki verið á dagskrá samkynhneigðs fólks (né heldur einu sinni barna- og dýraníðinga, eins banalt og það nú er að samþykkja einu sinni að búa til eins konar knippi úr þessum þremur hópum) að úthrópa kristið fólk eða halda uppi orðræðu opinberlega sem er til þess fallin að veita þröngsýnum og heimskum ofbeldismönnum afsökun fyrir því að stunda ofsóknir gegn þeim.

Í sorglega mörgum löndum heims er það dauðasök að vera samkynhneigður. Víða er það glæpur sem þó ber ekki að refsa með dauða. Sumstaðar hafa menn náð svo langt að "athæfið" er ekki lengur löglegt en þó líta menn undan þegar þröngsýnin og óttinn ber menn ofurliði og þeir gera sig seka um hatursglæpi. Á Íslandi hefur stefnan verið undanfarin ár að vera öðrum þjóðum fyrirmynd í því að mismuna ekki fólki á grundvelli kynhneigðar. Með þeim orðum þínum að það sé "fullkomlega eðlileg evangelísk skoðun" að samkynhneigð sé dauðasynd - og að sú skoðun eigi að fá að vera í friði fyrir gagnrýni - er erfitt að komast hjá þeirri niðurstöðu að þú teljir Ísland vera á villigötum. Er það rétt skilið hjá mér?

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Nei, það er ekki rétt skilið.

Evangelískar skoðanir eiga ekki að vera friðhelgar fyrir gagnrýni. Engin skoðun á að njóta slíkrar friðhelgi.

Þær eiga samt ekki að vera ólöglegar. Um það snýst málið.

Kúgun á fyrri öldum réttlætir ekki offors. Það getur fyllt menn af heift (sbr. Ísrael).

Heimskulegar skoðanir deyja út þegar þeim er leyft að takast á við skárri skoðanir. Þær þarf ekki að myrða með þöggun. Þöggunin gerir þær aðeins lífseigari og hættulegri.

Bjössi sagði...

Þú hefur stórkostlega dásamlega frábærlega mikla trú á mannkyninu (miðað við reynsluna) ef þú heldur að rétta leiðin sé að leyfa hatursáróður - ekki bara gegn hommum a la Snorri heldur gegn svörtum a la Luis Suarez, gegn konum a la Gillz og gegn rauðhærðum a la South Park - og treysta því að hatrið deyi út. Hvenær í mannkynssögunni hefur það gerst?

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Mannkynið hefur ekki nærri því jafn slæma reynslu af hugsanafrelsi og kæfandi umhyggju.

Varríus sagði...

Jamm - það er göfugt að verja málfrelsi skíthæla. Og því má halda fram að það sé eina vörnin fyrir málfrelsi sem skipti raunverulegu máli - hitt segi sig sjálft.

Og óþolandi að sjá (kirkjunnar) menn skauta framhjá orðum Páls postula eins og þau skipti engu máli - þetta snúist bara um að afgreiða Gamlatestamentið með einföldum Aristótelískum syllógisma. QED.

Ég hallast að því að ef á að setja málfrelsinu EINHVERJAR skorður þá eigi að setja þeim skorðum mjög þröngar skorður. Miða t.d. við hótanir eða beina hvatningu til ofbeldis. Og svo þykir mér vert að hafa í huga stöðu þess sem talar og við/um hvern. Prinsipp skipta máli en samhengi gerir það líka.

Einangrun og sálarkvöl unglinga sem glíma við kynhneigðarspurningar eru þekktar - og alltof algengar afleiðingarnar líka. Þetta skiptir máli þegar verið er að ræða hvað kennurum leyfist að halda fram opinberlega. Það má m.a. færa rök fyrir því að þetta sé alvarlegra mál en kynþáttaáróður frá kennara - því kynþáttur fólks er yfirleitt ekki í felum - og stuðningsnet í nærumhverfinu til staðar.