15. febrúar 2012
Bless, Sighvatur!
Sighvatur Björgvinsson, ráðherrann sem allir elskuðu að hata í ungdæmi mínu, kemur „ferskur“ inn í þjóðmálaumræðuna þessa dagana. Hann poppaði upp eins og nátttröll í lautarferð í Silfrinu um síðustu helgi og eftir að hafa hlustað á hann mala nokkra stund varð mér hugsað: „Misminnir mig? Var það ekki Sighvatur sem var settur yfir þróunarhjálparstarfið í Afríku? Hvernig gat svona hrokafullur maður valist í svona auðmjúkt starf?“ En svo mundi ég að það þarf enga auðmýkt til að vilja hjálpa fátæku fólki í fjarlægum heimshornum. Hrokkinn er alltaf til í að rétta sinn hjálparhramm.
Svo hætti ég að hugsa um Sighvat og hunsaði eindregið allt karp um það hvort verið gæti að atvinnupólitíkus og atvinnupóstpólítkurpotari hefði megnið af eftirlaunum sínum af þeim störfum sem hann vann áður en hann komst í há laun og bitlínga.
Þá rakst ég á hann. Var að fletta Vísi og sá andlitið. Hugsaði sem snöggvast: „Jú, það er rétt. Meira að segja með þetta skegg er hann sláandi líkur mister bín.“ Svo las ég bréfið. Hann var að hrokast í einhverri konu sem ég þekki ekki og segja henni að hann hefði fengið góða menntun í grunnskóla en að hún hefði verið látin fara frá pabba hans (sem var væntanlega dreifbýlisskólastjóri) ef hún hefði verið að kenna á síðustu öld og skilað frá sér 1/4 hluta drengja ólæsum.
Svo hnýtir hann við og reynir að vera fyndinn að það væri allt í lagi því hún hefði þá getað farið í doktorsnám í menntunarfræðum.
Í einni og sömu greininni tekst Sighvati að vera með hroka, aldurs- og kynjarembing og andmenntunarþvælu. Vel af sér vikið, verð ég að viðurkenna.
Ég er hálfpartinn að vona að Sighvatur sé síðasta afturgangan úr stjórnmálum tuttugustu aldarinnar til að fá þá flugu í höfuðið að Ísland hefði gott af öldungaveldi. Maður þvær sér ekki með uppþornuðum svampi.
Þeir eru alveg einstaklega leiðinlegir þessir gömlu stjórnmálaskarfar sem birtast alltíeinu og láta eins og þeir hafi brugðið sér af bæ og þá hafi allt fokkast upp og nú séu þeir komnir til að laga málin.
Sighvatur dregur pabba sinn inn í málið og kýs að flengja honum ótengda konu með vendi frá honum. Það eina sem ég hugsa er að pabbi Hvata hefði betur kennt honum auðmýkt og reynt að tæta úr honum drambið og hrokann en að streða við að kenna honum að lesa. Það er lítils virði að hafa fágaðan stút ef botninn vantar í könnuna.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
4 ummæli:
Jakobína var að svara þessari grein, sem útskýrir vísuna í föður skarfsins. http://visir.is/ruglid-og-reikningsgetan/article/2012702109965
Sighvatur er alveg óstjórnlega leiðinlegur. Umræðuhefðin á Íslandi myndi skána aðeins hef hann myndi hætta að skipta sér af þjóðmálum. Það væri óskandi að þessir gömlu sjálftöku dólgar myndu nú bara njóta ellinnar og aura sinna.
Þetta var svargrein Sighvats við svari Jakobínu við upphafsgrein hans um ólæsi drengja. Þú ert varla dómbær á þessa síðustu grein fyrr en þú hefur lesið þær allar.
Þeir voru allir svona af hans kynslóð. Þeir lærðu að tala og mala í ákveðinni röð og þá fengu þeir að vera með í leiknum. Svo komust þeir aldrei útúr hlutverkinu aftur og héldu að þetta ætti bara að vera svona.
Þetta stóra hrun hér heima var ekki bara efnahagslegt, það var líka menningarsjokk þegar við flest allt í einu horfðumst í augu við hvað við höfðum látið viðgangast svo lengi. Við leyfðum þessum köllum að halda uppi ömurlegu leikriti á meðan þeir voru að búa svo um hnútana með lagasetningum að geirneglt yrði að leikritið héldi áfram. Það var heila málið.
Skrifa ummæli