24. febrúar 2012

Holræsagrasrótin

Eitt af ógeðfelldari brögðum íslenskra stjórnmála er eins og tekið beint upp úr kænskubragðabók klækjarefanna í höfuðborg BNA eins og þeir birtast í myndinni Hr. Smith fer til Washington. Brellan felst í því að stunda undirróður, hrossakaup og almenna slægð og sjá til þess að andstæðingarnir fái að kenna ræklilega á öllu sama, en bara á bak við tjöldin. Vonin er svo sú að andstæðingarnir séu svo stjórnmálalega lítilsigldir að þeir sé enn ofurseldir almennum, heilbrigðum, mannlegum tilfinningum eins og reiði og hneykslan. Því sterkar neikvæðar tilfinningar (eða sterkar tilfinningar yfirleitt) hjá stjórnmálamönnum hafa því meiri áhrif á kjósendur sem tilfinningafrost og yfirdrepsskapur er meira stundað af stjórnmálastéttinni. Þar sem tilfinningaverur eru í stórkostlegum minnihluta í stjórnmálum draga áhorfendur sjálfkrafa þá ályktun að allt greinilegt tilfinningaflökt sé til marks um andlegt ójafnvægi.


Heilbrigt tilfinningalíf og heiðarleiki virka sem sjúklegir eiginleikar þegar sá er staddur innan um atvinnustjórnmálamennina með tilfinningalegu járngrímurnar, sem hertar eru eldi sem heilu flokkarnir kynda. Allar þessar járngrímur rugla siðferðilega áttavita þeirra sem næst standa – enda svæfir ekkert persónulegt velsæmi hraðar en klíkur. 

Þetta er ekki bara bundið við stjórnmálamennina sjálfa. Grasrótin sjálf vex í mýrarrauða. Járnið í grímurnar kemur þaðan. Baktal, rógur, slúður og slefburður er hlutverk litla mannsins. Mönnum þykir dálítið til þess koma að fá að vera litlir staurar í dreifikerfi rógsins. 

Á símþráðum grasrótarinnar hanga lestir og skammir eins og óhreinar brækur á þvottasnúru. Sumt er satt. Annað logið. Allt er notað – þegar það hentar. Þess á milli er það látið sitja í svikalogninu en þess gætt vandlega að það sé tryggilega á sínum stað.

Einn af innherjum í VG hefur það fyrir sið þegar skítamál koma upp að skrifa í háðulegum tón á feisbúkk um hversu stórkostlega hann sé hissa. Hann hafi aldrei heyrt þetta fyrr. Þegar hann gerði það um afhjúpun perrans í Jóni Baldvini komu vinir og samstarfsmenn og lengdu djókinn. Inn á milli komu svo einhverjir sem föttuðu ekki kaldhæðnina og sögðu (að ég held) í einlægni eitthvað á borð við: „Ég hafði aldrei heyrt þetta heldur. Hvernig má það vera?“ Þessi feisbúkk-þráður varð á endanum að frekar andstyggilegu innherjagríni þar sem þeir kaldhæðnu gáfu hverjir öðrum ósýnileg hæfæv yfir hausum hinna einlægu kjána.

Svo virðist sem öll grasrót íslenskra stjórnmála hafi vitað af þessu ógeði kringum Jón. Og það hafi ekki verið að sómakennd sem því hafi verið haldið „innan kerfis“ heldur hafi því verið beitt – eins og öðrum álíka viðbjóði – sem hráskinni í leik. Þegar Jón reyndi aðra uppgöngu í kratakompaníinu var óhróðurinn dreginn á flot og hann snarlega stoppaður.Svo birtist sonur Jóns í geðshræringu og rausar eitthvað um pólitíska þræði. Rekur þá til Ingibjargar Sólrúnar og lítur út eins og fáviti. Án samhengis virkar geðshræring Glúms eins og froðufellandi afneitunarvaðall vitstola manns.

Grasrótin kannast núna ekki við neitt. Tautar bara eitthvað um mannlegan harmleik og lætur sem sér sé meinilla við að þetta persónulega voðamál sé komið í kjafta almennings. 

Og þetta gerir grasrótin næstum hræsnislaust. Margir slúðurberar horfa hálfheilagir í spegil og tauta eitthvað um að þessi óþverraskapur eigi ekki erindi við almenning – hann eigi að nota til heimabrúks. Innan stjórnmálanna.

Það er fjandakornið verið að ásaka einn af áhrifamestu stjórnmálamönnum Íslandssögunnar um að vera barnaníðingur sem sloppið hafi vegna tæknilegra ágalla. Það er óefað að maðurinn notaði sér friðhelgi diplómatans til að klæmast við barn. 

Á þessum upplýsingum er „fríður“ hópur búinn að sitja árum saman og hefur ekki séð neina einustu ástæðu til að ganga erinda sannleikans eða sannfæringarinnar. Enginn virðist hafa séð nokkra ástæðu til að standa hér upp til varnar misnotuðum börnum. En menn virðast ekki hafa hikað við að slúðra og tefla þessu ógeði fram sem peði í viðbjóðslegri valdaskák.

Hversu miklum álíka upplýsingum situr grasrótin á ennþá?

Hversu mörg fórnarlömb sitja ein og yfirgefin vegna þess að þeir sem þykjast vilja handstýra þjóðfélaginu ákveða að halda upplýsingum sem vopnum í viðurstyggilegum valdaleik? Hversu alvarlegir „dómgreindarbrestir“ eru til staðar í kollum þeirra sem fara með völdin í samfélaginu?

Ég segi fyrir mig. Mér finnst vitneskja um að ráðamaður þjóðarinnar, sendiherra og hugmyndafræðingur alþjóðastöðu landsins stundi það að nota þau völd sem þjóðin felur honum í að klæmast við börn og leita uppi næturklúbba og hórur koma þjóðinni við. Ég verð að viðurkenna það að ég hef enga trú á því að maður sem segist ríða konu sinni eins og hreðjamikill geithafur í bréfi til barns og biður hana að senda sér kynóra til baka – hafi látið sér nægja að eiga heimspekilegar samræður við austur-evrópskar vændiskonur nýskriðnar af barnsaldri. Mér finnst heldur ekki trúlegt að maður sem sér ekkert athugavert við að nota sendiráðspóst til að eiga í kynferðislegum samskiptum við börn og sendir leynibréf til barns í skóla þess – hafi haldið í einhver þannig prinsipp að hann hafi aðeins sótt í vændiskonur í einkaferðum. Mér finnst líka sérlega ógeðfellt að maðurinn hafi verið skólamaður – og að konan hans verji hann með því að segja að þau hafi þekkst síðan hún var fimmtán.

Mér finnst dómgreindarskorturinn af svo stórkostlegu kalíberi að hann komi þjóðinni við.

Ég skil ekki að þið sem vissuð af þessu og hafið vitað þetta árum saman hafið komist að annarri niðurstöðu.

Ég bið ykkur því (þið vitið hver þið eruð) að renna örsnöggt yfir óhreina þvottinn. Hverju fleira haldið þið innan kerfis sem ætti að komast upp á yfirborðið? Og í hvaða tilgangi?Mig langar að taka það fram að ég er ekki að óska eftir rökræðu. Mig langar barasta ekkert til að fara að ræða það hvort eitt eða annað sem Glúmur sagði sé svona eða hinsegin eða um formlegar afleiðingar þess að réttarkerfið sleppti Jóni. Að þessu sinni er ég að beina orðum mínum til ákveðins hóps og ætlast ekki til umræðna. Gerið við þetta það sem þið viljið. En í guðana bænum skoðið ykkur og umhverfi ykkar af smá heiðarleika og festu.

7 ummæli:

Hildur Lilliendahl sagði...

Hetjuhrollur minn, Ragnar, ætlar ekki að hætta. Eigðu innilegustu þakkir fyrir þessi afar góðu og inspírerandi skrif.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Takk, Hildur.

Elías sagði...

Ég held að þú hafir misskilið þennan feisbúkkathugasemdaþráð all-herfilega. Það var sáralítil kaldhæðni þar, nema kannski þegar viðkomandi var óskað til hamingju með að vera svona lágt settur í Samfylkingunni.

Elías sagði...

Þar á ofan var lítið til að fletta ofan af fyrir hina innmúruðu: þegar málið var farið að kvisast út meðal þeirra var það orðið fyrnt að mestu og fórnarlambið rígfullorðið.

Hildur Lilliendahl sagði...

Það var samt heilmikið til að fletta ofan af í gær, Elías. Það var mikilvægt að þetta yrði opinbert. Það er gríðarlegur meirihluti þjóðarinnar algjörlega óinnmúraður í kjaftasögurnar sem ganga milli pólitíkusa.

Elías sagði...

Reyndar skil ég ekki hvers vegna þetta fór ekki hærra: brottför Jóns Baldvins úr pólitík var fullkomlega 110% óskiljanleg án þeirrar vitneskju.

Herdis sagði...

Ég tek það fram að ég er óflokksbundin og þekki ekkert til þessa máls, hafði aldrei af því frétt fyrr en í gær. Að því sögðu verð ég að segja að ég sé ekki hvernig hefði átt að gera þetta hátterni JBH opinbert án samþykkis fórnarlambsins. Án hennar samþykkis hefði jú varla verið hægt að birta bréfin og án þeirra hefði þetta verið afgreitt sem dylgjur og holræsahugsunarháttur. Og kannski ágætt, fyrst hún var ekki tilbúin til að stíga fram og láta birta bréfin, að afgreiða manninn úr pólitík á þann hátt sem var gert.