24. febrúar 2012

Hatursáróður Passíusálmanna
Nú hefur ruglið með haturslaust Ísland árið 2015 náð til Passíusálmanna. Hinir mannelskandi og kærleiksboðandi gyðingar á bak við Wiesenthal-stofnunina fara fram á það að Ríkisútvarpið hætti að dreifa gyðingahatri með lestri sálmanna.

Og, jú. Passíusálmarnir eru þungaðir af andúð á Gyðingum. Aftur er rótin hjá Páli postula. Þeim sama og færði Snorra og félögum hommaandúðina. Hann skrifar til Þessalónikumanna:

Því að þið hafið þolað hið sama af löndum ykkar sem þeir urðu að þola af Gyðingum 15er bæði líflétu Drottin Jesú og spámennina og hafa ofsótt okkur. Þeir eru Guði eigi þóknanlegir og öllum mönnum mótsnúnir.

Þetta er í kjarna sínum gyðingahatrið sem rabbínin setur sig upp á móti. Að gyðingar sé sagðir hafa drepið Jesú, ofsótt menn og að þeir séu hornreka bæði hjá Guði og mannkyninu.

Og ef eitthvað er að marka þau rök að reka eigi Snorra fyrir hommahatur vegna þeirra ofsókna sem samkynhneigðir hafa orðið fyrir gegnum tíðina þá hljóta þau að blossa upp í æðra veldi þegar hommum er skipt út fyrir gyðinga.

Þess má líka geta að einhverjar rannsóknir hafa sýnt að þunglyndi er tvöfalt algengara hjá karlkyns gyðingum en öðrum körlum. Og að Gyðingar almennt þjáist frekar af geðröskunum en fólk annarar trúar.

 Höfum það í huga að Passíusálmarnir eru oft sagðir með því besta sem ort hefur verið á íslenskri tungu, í sérflokki í sálmakveðskap í heiminum á þeim tíma sem þeir voru ortir. Órjúfanlegur þáttur bókmennta- og menningarsögunnar.

Höfum það líka í huga að skólabörn eru verðlaunuð með því að þau lesa sálmana (í kirkju meiraðsegja), þingmenn lesa þá í löngum röðum sem og ástkærir leikarar og andans menn.

Á að reka þetta fólk úr opinberum stöðum?

Nei, varla. Það mætti nefna tvenn rök til að greina hatursspúandi barnakennara frá frómum þingmönnum og börnum. Í fyrsta lagi má segja að allt þetta fólk hafi ekki skilið það sem það las – eða að það hafi lesið það í hálfkæringi. Snorri sé verri því hann meini það sem hann segir.

Þá er komið upp stigveldi hatursáróðurs. Taka skal mildar á tregum hommahöturum, gyðinga- og kynþáttahöturum (sem af augljósum ástæðum erfiðir verkið) og dæma skal menn eftir ætlaðir sannfæringu.

Tja, hvernig væri þá að gera prófmál úr Ögmundi Jónassyni? Hann ætlar að stíga á stokk þann 15. mars næstkomandi í Grafarvogskirkju og lesa upp sálm sem er einskonar krafa um sharía-lög yfir öllum mönnum. Og hann hefur sjálfur birt innblásinn pistil um hina magnþrungnu reynslu af því að lesa passíusálmana. Þá á að lesa með sálinni. Honum finnst ennfremur mikilvægt að RÚV láti ekki þrengingar fæla sig frá því að dæla þessu gyðingahatri út í eterinn.

Eða, hvernig væri að átta sig á því að Passíusálmarnir eru ekki skaðlegir. Það kann að vera að einhver smáprósenta þjóðarinnar kyndi undir gyðingahatri sínu með því að vitna í þá. Það getur jafnvel vel verið að stór hluti trúaðra Íslendinga telji að gyðingar hafi sitthvað á samviskunni gagnvart Jesú.

Það skiptir barasta engu máli. Mannréttindi eflast ekki við að banna það sem fer í taugarnar á mönnum (jafnvel þótt þeir vísi til eigin ofsókna). Mannréttindi eflast við að hætta að banna alla skapaða hluti – og hætta að ritstýra heimsmynd fólks í smáatriðum.

Ef þeir, sem vilja láta reka Snorra, eru í alvöru sammála því að það eigi að banna opinberan flutning Passíusálmanna í RÚV, þá erum við verulega illa stödd.

6 ummæli:

Hjalti sagði...

"Aftur er rótin hjá Páli postula. "

Það er nú miklu meira af gyðingahatri í orðum sem eru eignuð Jesú heldur en orðum sem eru eignuð Páli (Páll skrifaði ekki þessi orð sem þú vitnar í).

T.d. kallar Jesú gyðingana afkvæmi djöfulsins og fleira ljótt.

Eva sagði...

Ég er að velta fyrir mér hvort ég skilji niðurlagið rétt. Ertu að meina að sennilega hafi þeir sem fordæma Snorra hlaupið á sig og ekki hugsað málið til enda?

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Hjalti. Jú eflaust er þetta rétt hjá þér.

Eva, nei. En ég held að það krefjist umhugsunar fyrir þá hvað dæmin ery lík. Eg vona að umhugsun leiði í ljós að betra er að umbera Snorra - og Psálmana en banna hvorttveggja.

Hjalti sagði...

Ég las bréfið frá stofnuninni og ég sá ekki neitt talað um að það ætti að banna Passíusálmana.

Er ekki munur á því að banna Passíusálmana og vera ekki að flytja þá árlega og hampa þeim í ríkisútvarpinu?

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Það er varla hægt að banna Passíusálmana úr þessu nema banna dreifingu þeirra.

Ég geri ráð fyrir að Wthl-stofnunin sé jafn mikið á móti allri annarri dreifingu.

Nafnlaus sagði...

Er ekki allt orðið Gyðingahatur núorðið?