Ég sé æ oftar fréttir af því að vímuskömmtunarstöð Ríkisins, ÁTVR, taki að sér siðgæðisvörslu fyrir almenning. Það virðist vera einhverskonar opinber stefna á Íslandi að áfengisdrykkja og lágkúra eigi ekki saman – eða ætti ég að segja að áfengiskaup og lágkúra eigi ekki saman.
Síðasta útspilið var að stöðva sölu á rauðvínsgutli nokkurra eldri borgara m.a. vegna þess að þeir voru einhverntíma harðir naglar sem reyndu að höfða til annarra harðjaxla. Þetta var auðvitað allt löngu áður en bæði öldungarnir og aðdáendurnir breyttust í vínberjasúpandi smáborgara.
Ég ætla ekki að eyða mörgum orðum í það hversu kjánalegt mér þykir þetta allt. Þjóðin á við bullandi drykkjuvandamál að stríða. Hún er svo rækilega og ofboðslega á valdi áfengis að það stendur heilbrigðari menningu rækilega fyrir þrifum. Fjöldinn allur af fólki kann enga aðra leið til að skemmta sér en að breyta sjálfum sér í sumblsombí. Menn leggja á sig langferðir að óviðjafnanlegum náttúruperlum uppi á hálendi landsins til þess eins að dólgast þar í séríslenskri frekju. Menn sjá ekkert athugvert við það að henda farangri alvöru náttúruunnenda út úr herberjum og halda fyrir þeim vöku með bláhimnisbauli alla nóttina og verða svo fúlir þegar gerðar eru athugasemdir við það að þeir stundi smá gripdeildir ofan í kaupið. Finnst það óþarfi að tala við lögguna út af svoleiðis smámunum.
Og þetta eru engir sprittsúpandi rónar við Austuvöll. Þetta eru menn sem hafa efni á því að keyra díselþambandi blöðrujeppa langar leiðir um helgar. Það útilokar strax allan fátækari hluta þjóðarinnar.
Á landinu er horft á það með velþóknun að börn feti í þessi fársjúku fótspor foreldranna. Á landsbyggðinni er sumstaðar tíunda bekk boðið á fyllerí á þorrablótum. Í þéttbýlinu er séð til þess að helst allir læri að skemmta sér ekki ófullir í fyrsta bekk í framhaldsskóla. Á einu busaballi í haust stóð skýrum stöfum að ölvun ógilti miðann. Klukkan eitt um nóttina, þegar ég átti þar leið um, ráfuðu sextán og sautján ára sombíar um allt. Ég stoppaði á bensínstöð og horfði á barnunga stelpu reyna að draga jafngamla vinkonu sína heim. Það gekk illa því vinkonan ætlaði að ganga í sjóinn – út af strák. Edrú fyrstubekkingur stóð og beið eftir að vera sóttur, í losti, eftir að hafa horft á par í sleik á sófa. Gaurinn hafði verið kominn langleiðina ofan í meltingarveg stúlkunnar þegar honum varð eitthvað ómótt. Skyndilega fossaði æla milli munnvika þeirra. Fát kom á hina ungu elskendur – en aðeins augnablik – eftir fljótfærnislegan kattarþvott héldu þau sleiknum áfram.
Það er einhverskonar þegjandi samkomulag að neysla áfengis sé ekki aðeins æskileg heldur bráðnauðsynleg leið til skemmtunar.
Áfengismenning þjóðarinnar er lágkúruleg. Viðhorf til drykkju er þungað af meðvirkni og afneitun. Við höfum búið til og viðhaldið samfélagi sem upphefur ógeð, óþverra og ómennsku. Stór hluti þjóðarinnar er næstum algjörlega ófær um að sletta úr klaufunum af eigin rammleik með ómengaða dómgreind. Þess vegna er það að hæfni okkar til að njóta þess sem er gott og fagurt við heiminn er verulega löskuð.
Ég fór einu sinni í hópferð til Rússlands. Það var stórkostleg reynsla. Á meðan aðrir úr hópnum sátu að sumbli á veitinga- og skemmtistöðum fór ég í rannsóknarleiðangra um Moskvu og Pétursborg. Ég hitti margt fólk á þessum ferðum mínum. Sá marga áhugaverða staði. Náði í reynslu sem mun fylgja mér alla ævi.
Tveir úr hópnum eyddu allri ferðinni í kojufyllerí. Komu ekki út úr lestarklefa eða hótelherbergi ótilneyddir og þá í svo ömurlegu ástandi að þeir máttu geta kallast góðir ef þeir héldu niðri máltíð.
Í þessari ferð var ég samt sá skrítni. Drykkjusjúklingahegðun fellur innan mengi þess ásættanlega í hópferðum Íslendinga. Það að vafra einn um mafíuhöfuðborg heimsins að kvöldi til gerir það ekki. Í tvígang var gert inngrip í ferðir mínar. Mér meinað að fara í kvöldgöngu af ótta við að ég endaði bundinn við tré úti í skógi á meðan beðið væri eftir lausnargjaldi. Þeir fullu svifu á þgilegu skýi meðvirkninnar út og heim aftur.
Vandamál Íslendinga með áfengi hafa svo miklu dýpri rætur en svo að þau verði leyst með því að setja einhverja velsæmisstútunga yfir ÁTVR. Vandinn er menningarlegur. Hann á sömu rót og flest okkar vandamál.
Íslendingar hafa aldrei kunnað að lifa. Eru getulausir þegar kemur að því að grípa daginn. Þeir eru þjóð sem vön er að hokra. Sem hangir í hugmynda- og stefnuleysi í sama farinu. Frumleg hugsun er álíka fátíð á þessum hólma og litskrúðug fiðrildi.
Ástæða þess að þjóðin vill komast reglulega í vímu er einföld. Þrátt fyrir allt þá erum við enn menn. Við höfum þarfir. Það að við kjósum að sinna þeim ekki og búa við viðvarandi andlega og menningarlega fátækt skapar spennu. Spennu sem víman slakar á um stund. En blossar svo jafnharðan upp aftur.
Þjóð, sem getur varla feisað náttúruperlur sínar ófull, er þjóð í hlekkjum. Hún þarf ekki miðlæga, kjánalega ritskoðun. Hún þarf að læra að standa í fæturna.
Þá ákvörðun tekur enginn fyrir þig. Ef þú kýst það ekki sjálfur þá verður þú að fá að liggja áfram í ælupollinum. Þú getur teymt hestinn burt frá barnum en þú færð hann ekki til að hætta að drekka.
Það að banna Motörhead-rauðvín og páskaungabjór er eins og að fara á Austurvöll og breiða bleikan blúnduvasaklút yfir hlandblettinn í klofi rónans sem liggur þar rænulaus. Það hjálpar engum nema samvisku þess sem á klútinn.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli