26. febrúar 2012

Epísk stjórnmálaspennusaga

Ég er að hugsa um að gera kvikmynd. Hún fjallar um spillta og ógeðfellda stjórnmálastétt og allan þann óþverra sem þrífst á bak við tjöldin. Söguþráðurinn er í stuttu máli þessi:

Golíat


Við kynnumst Golíat. Golíat er hrokkinhærður og ögn ófyrirleitinn frjálshyggjustrákur sem komst til metorða í Frjálshyggjuflokknum með því að ná Borginni á sitt vald og sitja þar  þangað til hann var orðinn saddur. Þá tók hann sig til og lagði undir sig Frjálshyggjuflokkinn sem orðinn var frekar veiklaður á landsvísu og flaug inn á þing.

Baldvin


Þar hitti hann fyrir Baldvin. Baldvin var gamall, drykkfelldur og á stundum einþykkur jafnaðarmaður. Saman fóru þessir félagar í lítið sumarhús í Engey og stofnuðu ríkisstjórn.

Ríkisstjórninni gekk vel. Þeir félagar skiptu með sér verkum og náðu, með því að gera sem mest úr hörmungum þess bús sem þeir höfðu erft og með því að nýta sér litla kreppu sem nýliðin var hjá, að friða verkalýðsforystuna og fá hana með í lið. Á nokkrum árum sneru þeir mínus í plús og töldu sig nokkuð góða. Baldvin einbeitti sér að utanríkismálunum og ákvað, að ráði eldri bróður síns, að viðurkenna sjálfstæði Gúlag-eyjanna, sem nýlega höfðu sagt skilið við stórt og illt heimsveldi sem nú var að hrynja í sundur. Golíat fannst þetta góð hugmynd og studdi vin sinn Baldvin í málinu og brátt varð Baldvin að örlítilli sjálfstæðishetju í hinum nýfrjálsa heimi. Torg framan við höfuðstöðvar öryggislögreglu hins illa veldis var endurnefnt Baldvinstorg eftir hinum örláta lýðræðispostula. Baldvin gerði sér oft ferðir í eymdina í hinum nýju ríkjum og uppgötvaði að töluverð eftirspurn var eftir miðaldra körlum með þykk veski og enn þykkari erótískar bækur. Naut hann verulegrar kvenhylli og þótti honum það ekki leitt því hann var snarpur og þróttmikill elskhugi og átti glæsilega konu. Sem komin var af glæsilegu fólki.

Sól
Tvö ský voru þó á sólu þeirra félaga Golíats og Baldvins. Frjálshyggjuflokkurinn hafði ekki ráðið við brotthvarfi Golíats úr Borginni og þar hafði komist til valda mikil frenja sem Sól hét. Sól hataðist heitt og innilega við Golíat og kunni því heldur illa að Jafnaðarmaður héldi honum að völdum. Sól hafði tekist að safna andstæðingum Frjálshyggjuflokksins í bandalag og vildi svelta skrímslið til bana. Hið sama vildi Hanna, flokkssystir Baldvins. Hún átti sér draum um breiða fylkingu Jafnaðarfólks og þótti skítt hve Golíar og Baldvin höfðu dregið allan þrótt úr verkalýðsfélögum og öðrum lítilmögnum. Átti hún enda ættir að rekja til mikilla verkalýðskvenna. Hanna fór að ókyrrast og fór svo að hún gerði uppreisn gegn Baldvini. En tapaði.


Hanna


Hún bar harm sinn vel. Hrópaði aðeins slagorð um tilfinnanlega hefnd við fyrsta hentugt færi og boðaði stofnun nýs stjórnmálaafls, Aflvaka. Í kosningum fékk Aflvaki nokkurt fylgi en þó ekki nóg. Ríkisstjórn Golíats og Baldvins hafði eins manns meirihluta. Golíat ákvað að við það yrði ekki búið og munstraði Baldvin upp sem sendiherra (sem var næst fínasta djobbið fyrir spenasugur stjórnmálanna á eftir seðlabankastjóra) og kippti inn í ríkisstjórnina Framræsluflokknum, sem þrátt fyrir sveitalegt nafn hafði þá um mundir rýmt til fyrir nýrri tegund af stjórnmálamönnum, svokölluðum miðjumönnum – sem var sama með hverjum þeir unnu. Hófst nú nýtt gróðatímabil. Frjálshyggjuflokkurinn nýtti afstöðuleysi Framræsluflokksins til hins ýtrasta og bjó í haginn fyrir frjálshyggjuparadís.

Eitt olli þó Golíat þó hugarangri. Hann sá sína ástkæru borg í skítugum kvennakrumlunum á Sól. Þar hafði hann flaskað á því að hafa verðugan eftirmann. Og því miður var það enn svo að næstráðandi hans var ekki til stórræðana, Meyr H. Lydda, hét hann og var sérmenntaður í baunatalningu frá virtum háskóla.

Meyr H. Lydda

Golíat fór nú að huga að ýmsu smálegu til að tryggja sinn hag og frjálshyggjunnar eftir sinn dag. Hann lagaði eftirlaunarétt sinn og skipaði dómara með rétt hjartalag. Hann vissi sem var að allt samfélagið var gegnsýrt af jafnaðarmönnum og þaðan af verri róttæklingum og gætti þess vandlega að reyna að má þá smán af opinberum stofnunum. Einn hans nánasti ráðgjafi og vinur, Hólmar, gætti þess að Golíat gæti ætíð fengið annað álit á hugmyndum sínum, sem hljómaði nákvæmlega eins og upprunalega álitið.

Nema hvað. Það reyndist þrautin þyngri að vinna með Framræsluflokknum. Hentistefnan sem hafði verið svo góður félagi í meðvindi var eins og rifið segl þegar vindur blés á móti. Í róttækri viðleitni til að sigra kosningar hafði flokkurinn lofað landsmönnum áður óþekktum aðgangi að lánsfé. Og það korteri eftir að búið var að selja bankana, sem nú áttu að missa spón úr aski sínum. Golíat var ekki kátur en neyddist til að láta af kröfum Framrsluflokksins og hefja áður óþekkta ríkisstyrkta lánastarfsemi. Hann þurfti einnig að taka risalán frá útlöndum því kjördæmi formanns Framræsluflokksins vantaði Þriggja gljúfra stíflu, sem átti að sjá málmbræðslu fyrir rafmagni.

Bankarnir töldu sig illa svikna og reyndu að undirbjóða lán ríkisins. Hófst nú æðisgenginn bardagi sem smám saman leiddi til þess að verð á húsnæði hækkaði upp úr öllu valdi því hærra verð merkti að maður gat fengið hærri lán. Margir sem þurftu ekki lán tóku þau samt út á nýhækkað verðmæti eigna sinna og keyptu stóra ameríska jeppa, flatskjái og utanlandsferðir.  Bankarnir sópuðu út lánunum og nýttu sér það að í útlöndum var hægt að fá lánað næstum ótakmarkað magn af peningum. Og þótt bankarnir lánuðu til lengri tíma en þeir fengu lánað höfðu þeir ekki áhyggjur. Þeir gætu alltaf endurfjármagnað. Þeir tryggðu sig líka með því að lána í erlendri mynt. Áhættan var hverfandi.

Af hverju að eiga eina dúkku þegar maður getur átt þrjár?

En nú komust blikur á loft.

Sól og Hanna höfðu stofnað Fylkinguna og ætluðu að ráðast gegn Golíat sjálfum. Hún hafði yfirgefið Borgina til að sigra kosningar. En Golíat hafði bjargað sér með því að leyfa Framræsluflokknum að hafast að það sem hann vildi. Það varð að teljast góður árangur því á bak við Sól stóð heilt fjölmiðlaveldi sem gaf út fréttablað og birti um hana lofsverðar fréttir og ljótar fréttir um Golíat og Framræsluflokkinn.

 Golíat varð æfur. Hann hafði gleymt því að tryggja sér jákvæða fjölmiðlaumfjöllun. Að vísu átti Frjálshyggjuflokkurinn Málgagnið en það hafði steingleymt að uppfæra sig til nútímans og var enn gefið útundir gotneskri fyrrisögn. Nýja fréttablaðið virkaði ungt, ferskt og var í tengslum við stóra leikmenn í hinu nýja fjármálakerfi sem iðaði af lífi innan um öll þessi erlendu lán.

Golíat hafði reynt að koma böndum á hið illa fjölmiðlaveldi en mistókst, því gamall óvinur sat nú sem forseti og blokkaði veginn. Honum voru flestar leiðir varnaðar. Og til að bæta svörtu ofan í myrkur hafði hann orðið að gefa eftir hásæti sitt og gerast utanríkisráðherra.

Hann undi sér þar heldur illa. En dag einn kom á borð til hans undarlegt mál. Hans gamli vinur og félagi, Baldvin, var kominn í heljarinnar klandur. Ung stúlka í fjölskyldu konu hans hafði misskilið erótískt uppeldi hans sem áreitni og lagt fram kæru. Var þetta önnur kæran á stuttum tíma, því hann hafði verið kærður fyrir að misnota diplómatafriðhelgi sína til að ræna barnabarni sínu. Hafði hann verið færður svo lítið bæri á úr flottasta sendiráðinu í slappt miðjumoðssendiráð. En þar sem hann naut friðhelgi, jafnvel þar, þurfti pólitíska ákvörðun um það hvort friðhelgi yrði aflétt ef kæran reyndist á rökum reist. Til að gera málið alvarlegra hafði sannast á hann sending mjög óviðeigandi klámfenginna skilaboða gegnum friðhelgan sendirráðspóst. Það hlaut þó að vera refsivert.

Hans gamli félagi, sem nú var sjálfur orðinn mjög valtur í sessi, ákvað að bjóða Baldvini leið út. Baldvin sagði af sér störfum og mætti kærunni sem óbreyttur borgari á góðu eftirlaununum sem Golíat hafði tryggt honum – og í staðinn var ekkert gert með vafasamar embættisfærslur og sendibréf. Sendiherrann hneigði sig auðmjúkt fyrir utanríkisráðherranum og prísaði sig sælan. Hann slapp svo á tækniatriðum frá kærunni og enginn eltist við hann fyrir að hafa misnotað friðhelgina.


En dagar Golíats voru taldir. Hans síðasta verk var að láta gera sig að seðlabankastjóra áður en hann afhenti, Meyr H. Lyddu flokkinn. Framræsluflokkurinn hafði ofmetnast og fokkað öllu upp og Meyr hafði engan kost annan en að stofna stjórn með erkióvini Golíats, Sól. Og Hanna komst í ráðuneyti – Baldvini til mikillar skapraunar.


Sól varð utanríkisráðherra og líkaði það allvel. Hún ákvað að berjast fyrir því að landið kæmist í Öryggisráð SÞ og háði magnaða kosningabaráttu sem endaði með algjörum ósigri. Sem var óskiljanlegt. Fram að þessu höfðu landsmenn lifað í fullvissu þess að landið væri sérlega vinsælt hjá útlendingum. Þeir höfðu meira að segja lánað þeim alla þessa peninga.


En nú fóru peningarnir að standa á sér. Í örvæntingu sinni fóru bankarnir að stofna reikninga í öðrum löndum og undirbjóða alla aðra banka. Það virkaði um sinn – en þar kom að borga þurfti reikninga sem hvorki var til innistæða fyrir né möguleiki á að fá lánað fyrir.
Sól og Meyr H. Lydda panikkuðu. Golíat mætti hróðugur á þeirra fund og málaði skrattann á vegginn með þórðargleði þess sem misst hefur af flugi sem endaði sem slys. Golíat og Sól hunsuðu ráðleggingar hvors annars og Meyr Lydda sat úti í horni og bað Guð að hjálpa þeim öllum. Hinir vinalegu útlendingar urðu skyndilega að ægilegum ófreskjum sem heituðu blóð.

Sól heimtaði Golíat úr Seðlabankanum en Meyr þráaðist við. Loks fór svo að Fylkingin, flokkur Sólar sagði stopp. Það yrði að losa sig við myllusteininn Frjálshyggjuflokkinn. Sól samþykkti, treg í taumi og setti upp skilmála fyrir áframhaldandi samstarfi sem Meyr gat ekki annað en hafnað. Undir þessu öllu barði reiður múgur trommur og slóst við löggur. Byltingin var hafin.

Og henni lauk. Jafnharðan.

Sól var þegar hér var komið við sögu veik og átti erfitt með að standa í þessu veseni. Meyr veiktist sjálfur stuttu seinna. Samt lýstu liðsmenn Fylkingarinnar fullu trausti til Sólar en unnu á meðan að því að koma henni út sem allra fyrst. Það leit ekki vel út að reka veika konu frá völdum. Loks fannst leikur. Hanna bauð sig fram. Með tryggðaryrði á vörum og yfirlýsingum um að hún væri varla hæf um að standa í skugga Sólar ýtti hún Sól til hliðar. Með sér í stjórnina tók hún kommúnískan orðhák sem átti eftir að reynast betri en enginn í að þefa uppi kaffið og átta sig á praktísku hliðum þess að stjórna landi.

Leið nú og beið.

Fólkið með trommurnar fór að ókyrrast og heimtaði uppgjör. Skyndilega var kastljósið komið aftur á Meyr H. Lyddu og Sól. Fólk vildi þau fyrir dóm. Þau höfðu staðið við stýrið þegar skútuna tók niðri. Sól mótmælti hástöfum. Vera hennar við stýrið hefði barasta ekki verið í hennar verkahring. Hún hefði staðið þarna af einskærri tilviljun og þótt sannað væri að hún hefði platað fyrsta stýrimann í burtu mundi hún ekki af hverju. Meyr sagðist hafa gert sitt besta og kallaði guð til vitnis um það.Meyr sat eftir í súpunni á meðan Fylkingarfélagar Sólar slepptu henni við skellinn. Hún nýtti sér pólitíska eftirlaunanetið og kom sér í gott djobb í fjarlægri eyðimörk þar sem hún fengi laun í erlendri mynt.

Golíat var þó ekki dauður enn. Hann var bálreiður. Reiður sjálfum sér. Reiður flokknum sínum. Reiður því að hafa klikkað á því augljósasta af öllu augljósu. Hann hafði gleymt að stýra fjölmiðlun og hafði leyft tækifærissinnuðum forsetanum og vildarvinum Sólar að espa fólk upp gegn honum. Golíat tók sig nú til og settist í stól Málgagnsins. Og hélt gotneska letrinu. Í kreppu vill fólk eitthvað sem það þekkir.

Þar pundaði hann af öllum mætti á kommúnistann og Hönnu og gladdist mjög þegar hann sá að forsetinn hélt uppteknum hætti og olli þeim hverri skráveifunni á fætur annarri. Smátt og smátt treysti hann á að reiði almennings myndi sópa þeim frá völdum og þá gæti Frjálshyggjuflokkurinn tekið aftur við.

Eftir því sem Golíat varð glaðhlakkalegri reyndist Baldvini vini hans erfiðara að sitja kyrr. Hann fór að rífa kjaft.

Loks ákvað hann að jafna um Sól. Hann kallaði hana flóttamann og gungu og taldi að hún hefði gert sér smán til með því að forða sér á hlaupum undan Landsdómi. Loks fékk hann Fylkinguna til að setja upp kennslustund þar sem hann ætlaði að opinbera syndaregister Sólar.

Þetta var meira en Sól og hennar fólk þoldi. Árum saman höfðu þau setið á upplýsingum um perralega fortíð Baldvins og snautlegt brotthvarf úr stjórnmálum. Sól og vinir reyndu af veikum mætti að koma vitinu fyrir flokksmenn sína. Það mætti ekki hleypa perranum á stall til að niðra Sól.

Örþrifaráðið var að kalla fjölmiðla til fylgis.

Golíat snerti auðvitað ekki á málinu. Málgagnið sagði pass. Sem og allir aðrir. Fjölmiðar höfðu aldrei þorað að fjalla um það sem menn gerðu af sér með typpinu (hvort sem typpið hallaðist til stráka eða stelpna, eða beggja í einu eins og dæmi voru um).

En þó var einn miðill sem hafði mikinn áhuga á að fjalla um einmitt það sem menn gera með typpinu. Þar sat í hásæti femínisti sem sá hér fullkomna frétt. Valdamikill karl hafði áreitt unga stúlku og komist upp með það.

Þetta yrði að verða frétt.

Og það varð frétt.

- - -

Ég er ekki kominn með endann. Ég óttast það helst að fólki þyki sagan of ótrúleg.

Engin ummæli: