7. janúar 2012

Vogaskóli og kyndlarnir

Það berast ánægjulegar fréttir af Vogaskóla. Þessi frétt staðfestir það sem ég var búinn að heyra að þar á bæ ætla menn að gera tilraun með að leysa hefðbundnar kennslubækur af hólmi með kyndli. Ekkert nema gott um það að segja og gaman að það skuli vera lífsmark í skólakerfinu. Og það er fleira gott í gangi í Vogaskóla í nýtingu stafrænnar tækni sem við hin megum læra af.Ég hnaut þó um orðalag í fréttinni sem stuðaði mig dálítið. Það bendir í sjálfu sér ekkert til þess að það sé endilega lýsing á viðhorfum fólks innan Vogaskóla – það getur allt eins verið að blaðamaður hafi sjálfur túlkað hlutina þannig eða þetta komið fram í óformlegu spjalli. En sjáið þetta:

Kindle varð fyrir valinu þar sem spjaldtölvan er einföld, handhæg og hentar eingöngu til lestrar, svo nemendur geta ekki laumað sér á Fésbókina eða leikjasíður. Verkefnið er unnið í samvinnu við Námsgagnastofnun og Skólavefinn. 

Hér er búið að taka augljósan ókost á tækinu (kyndillinn er því miður verulega takmarkað tæki) og snúa því upp í kost þar sem það takmarki möguleika nemenda á að „lauma sér“ á leikjasíður eða feisbúkk. Og í þessari málsgrein kristallast dálítið gallinn við notkun upplýsingatækni í skólum.

Í fyrsta lagi er það stórkostlegur misskilningur ef menn halda að skólarnir geti mikið lengur komið í veg fyrir að nemendur „laumist“ inn á aðlaðandi efni á netinu. Annar hver nemandi er kominn með snjallsíma, Android eða iOS, og óformleg rannsókn mín bendir til þess að eftir jólagjafaæðið séu þeir orðnir verulega fáir nemendurnir (á unglingastigi) sem ekki eru komnir með „tölvu“ í vasann sem hæglega má nota til að spila leiki á, fara á feisbúkk og gera það sem hugann lystir.

Skólinn er algjörlega á villigötum ef hann ætlar að halda áfram að taka að sér það hlutverk að skammta börnum rafrænt efni og skera það við nögl. Nú þegar eru allir þessir símar troðfullir af leikjum sem börnin geta „laumast“ í hvað sem skólinn vill. Og hugtakið „leikjasíða“ er deyjandi. Unglingar eru að hætta að nota þær og nota í staðinn öpp. Sem fæst þurfa netsamband.

Í öðru lagi er algjörlega tilgangslaust að halda nemendum frá feisbúkk eða leikjum í námi. Leikir eru stórkostlega vannýtt leið til náms. Og ég fullyrði að næsta bylting í menntavísindum verður að hætta að streitast á móti tækninni og umfaðma hana. Það er leikur að læra. Það á að vera leikur að læra. Það þarf að frelsa nám undan leikleysinu og leyfa börnum að læra í leikjum. Leikir eru frabær leið til náms og við eigum að reyna að nýta okkur það í stað þess að standa á móti því. Það sama má segja um samskiptasíður eins og feisbúkk.

Unglingar eru ekkert öðruvísi fólk en fullorðnir að því leyti að þau þrífast í heimi upplýsingatækni. Ef feisbúkk og leikir eru veruleiki þeirra fullorðnu þá er bæði heimskulegt og ábyrgðarlaust að reyna að svipta unglinga þeim veruleika. Þau þurfa að læra að nota hann.

Vandamálið er ekki unglingarnir og það að þeir „laumist“ eitt eða neitt. Vandamálið er löngu úrelt og steinrunnin kennslutækni og viðhorf. Skólakerfið hefur hunsað upplýsingatæknina. Sem er álíka gáfulegt og að hunsa blýantinn. Vandamálið er líka þetta fangavarðaviðhorf til unglinga. Kennarinn á að halda nemendum sínum á flugi, ekki á jörðinni.

.

3 ummæli:

Carlos sagði...

Ekki að það skipti máli, en úr grunnskólum Rvk er ekki hægt að fara á tilteknar síður, sem tölvudeildin skilgreinir. Það á s.s. ekki að skipta máli, hvort tölvan sé opin fyrir FB eða ekki, skólastjórn RVK skólanna getur ákveðið hvað er opið og hvað ekki.

Nafnlaus sagði...

http://fora.tv/2011/09/16/Ananth_Pai_Gamifying_the_Classroom#Schoolteacher_Ananth_Pai_Gamifies_His_Classroom

Kv. Helga (doktorsnemi í tölvuleikjum í námi)

Óli Gneisti sagði...

Mér þótti þetta undarlegt val út frá því að það íslenskir bókaútgefendur völdu epub formið fyrir sitt efni og Kindle getur ekki lesið það - þó það hafi gerst nýlega þá var það fullkomlega fyrirsjáanlegt.

Þó Google sé ekki farið að selja bækur utan Bandaríkjanna þá hefði ég reynt frekar að fá lesarana þeirra sem lesa epub. Eini ókosturinn við þau tæki er einmitt að þau komast ekki á netið.

Ég kemst hins vegar auðveldlega á Facebook í mínum Kindle þannig að ég skil ekki alveg hvað fólkið er að meina. Kannski er þetta WiFi útgáfan og krakkar geta ekki tengst neinu þráðlausu neti.