26. janúar 2012

Nemendalýðræði í Hogwarts

Við unglingadeildina okkar í Norðlingaskóla hefur í tvo vetur verið starfrækt námsnefnd. Kosið er í nefndina samhliða kosningum í nefndir og ráð. Í nefndinni sitja nemendur og fulltrúar kennara og taka ákvarðanir um námið. Hafa verður í huga að í Norðlingaskóla er ekki óeðlilegt að stundaskrá breytist 3-5 sinnum á vetri og kennslan er mjög breytileg frá einu stundarskrártímabili til annars.


Meðal þess sem ákveðið var í samráði við námsnefnd á þessu skólaári var að prófa eitt tímabil að gefa frjálst hvort nemendur væru í skólanum frá 8-2 eða 9-3 þegar mesta skammdegið skall á. Í nokkrar vikur komu nemendur ýmist klukkan átta eða níu í skólann og fóru heim klukkan tvö eða þrjú (nema þegar þeir voru í vali). Við könnuðum tiltækið í upphafi og enda tímabilsins og niðurstöðurnar lofa góðu. Þetta er eitthvað sem við munum gera aftur og jafnvel fara með lengra.



En ein hugmynd poppaði upp í fyrra en komst ekki á dagskrá fyrr en nú á dögunum. Nemendur vildu að skólinn breyttist í Hogwarts. Þess vegna var það að síðasta mánudag hætti Úllónolló (unglingadeild Norðlingaskóla) að vera til og í staðinn tók við Hogwarts. Áður höfðu sérfræðingar um Harry Potter í námshópnum tekið sig til og lesið námskrárnar og stungið upp á verkefnum. Einn hópur kom fram með þá hugmynd að nemendur semdu og útskýrðu galdraþulur á dönsku. Annar stakk upp á því að við brugguðum galdraseyði. Tveir nemendur hönnuðu persónuleikapróf sem skipti krökkunum niður á vistir.



Kennslurýminu var skipt í fimm hluta. Almennt rými og fjórar vistir. Í frímínútum fara menn í sína vist og skreyta og skiptast á upplýsingum um verkefni þess dags. Kennarar ganga um klæddir í búninga og heita ekki lengur sínum nöfnum heldur Professor Snape, Mr. Filch eða eitthvað frumsamið. Nemendur eru í hvítum skyrtum með lituð bindi. Gefin eru stig fyrir frammistöðu og refsistig ef mönnum verður á.



Þetta er alveg fáránlega gaman.

Það skemmtilegasta er sú staðreynd að við kennararnir leyfðum nemendum að stjórna ferðinni. Þau sömdu kennslustundir. Þau réðu þessu. Við leikum þeirra leik.

Það er nefnilega löngu kominn tími á þá hugmynd að kennarar eigi að handstýra hverjum einasta nemanda hverja einustu mínútu. Stundum er barasta ágætt að stíga til hliðar og leyfa nemandanum að nema. Og reyna að hafa gaman að þessu.

Engin ummæli: