27. desember 2011

Akademískt frelsi

Það er í sjálfu sér skiljanlegt að háskólakennarar skuli telja mál BR og Vantrúar snúast um akademískt frelsi. Það halda margir að akademían snúist um algjöran, vísindalegan heiðarleika. Hið rétta er að hið akademíska umhverfi er alsett þeim kaunum sem almennt og yfirleitt fylgja hjörðum manna. Menn gera oft engan greinarmun á baráttumálum sínum og akademískri kennslu. Hika ekki við að kenna skoðanir sínar. Og kunna illa við að þeir sem fjallað er um svara eða skipta sér af. Ég man þegar ég vann lokaritgerð um kvótakerfið og tók þá afstöðu að gagnrýna til jafns hugmyndir leiðbeinanda míns (Þorsteins Gylfa) og annarra. Úr því urðu mikil átök enda hann ekki vanur því að fá á sig árásir í ritgerðum sem hann leiðbeindi um. En það fór allt vel. En mér er minnisstætt þegar við spurðum hann hví hann svaraði ekki gagnrýni HHG á skrif hans um kvótakerfið. Hann sagði: "Hann Hannes svarar sér sjálfur." Og við hlógum. En áttum auðvitað ekkert að hlæja. Enginn háskólakennari á að njóta friðhelgi. Enginn háskólakennari á að njóta þess frelsis að fá gagnrýnilaust að predika skoðanir sínar og viðhorf. Það er ekkert svo merkilegt við langskólagengið fólk að það skuli njóta meira frelsis en aðrir. Síðan háskólar urðu til hafa ótal villukenningar og vitleysur dáið drottnum sínum. Allar hafa á einhverjum tímapunkti átt sér málsvara innan veggja æðri menntastofnana.

Það er kannski ekki skrítið að HÍ hafi reynst næstum fullkomlega gagnslaus í pólitísku, efnahagslegu og siðferðilegu hruni landsins. Þar innan veggja eru menn of uppteknir af smáskítlegum áhugamálum, eigin hægindum og hégóma til að gera alminlegt gagn. Akademískt frelsi er ekki notað til að traðka á tám valdhafa, auðvalds eða til árása á öflug, hamlandi hugmyndakerfi. Akademískt frelsi er notað til að hunsa þá sem gagnrýna. Og krafan er sú að vera frjáls undan því að svara gagnrýni. Enda svarar gagnrýnin sér sjálf.

Engin ummæli: