11. desember 2011

Máttur „fjöldans“

Sú ákvörðun Pressunnar að birta myndina af kærustu Gillz og stúlkunni sem kært hefur þau fyrir nauðgun tók, illu heilli fyrir Binga, ekki mið af því að þótt flestir hafi viljað sjá þessa mynd þá vill næstum enginn gangast við þeim vilja opinberlega. 

Við höfum enda tvær fréttaveitur. Stór hluti fólks eyðir mikilli orku og tíma í að súrra sig fastan við sífellt fleiri þræði í þeim neðanjarðarköngulóarverf sem í raun og veru miðlar öllum upplýsingum á þessu blessaða landi. Þær upplýsingar sem rata inn í almennar fréttir hafa oft velkst í hinum vefnum dögum og jafnvel vikum saman áður en einhver fréttamaður ákveður að kippa þeim inn í sviðsljósið.

Það tekur örfáa daga að koma einhverju krúttlegu myndbandi frá einum til næstum allra á feisbúkk. Opinberlega er þjóðin hugfangin af  kettlingamyndböndum, smábörnum og eineltisfórnarlömbum. Óopinberlega eru menn að dreifa gróusögum, rógi og slúðri á eldingarhraða á spjallinu – hvort sem það er á feisbúkk eða á kaffistofunni.

Ástæða þess að Pressan átti ekki að birta myndina hefur í sjálfu sér ekkert með skoðun þjóðarinnar á því að gera. Bingi hélt hann væri að endurtaka leikinn frá því nokkrum dögum áður þegar hann lét nafn hins meinta nauðgara leka út þegar enginn annar þorði. Sú afhjúpun vakti almenna lukku og varð öðrum til eftirbreytni. 

Ástæða þess að Pressan gerði rangt var að þótt sambandið á milli kaffistofanna og opinberrar fjölmiðlunar sé oft illútreiknanlegt og kvikt þá er engum slíkum misskilningi til að dreifa í sambandi fjölmiðla og réttarfars. 

Fjölmiðlar eiga vissulega að greina frá dómsmálum og veita dómstólum aðhald. Þeir eiga að fjalla um dómsmál eins og önnur mál. En þegar kemur að viðkvæmum málum eins og kynferðisbrotum eiga þeir að hafa vit á að láta þau vera þar til niðurstaða er fengin. Þeir eiga ekki að fóðra múgsálina. Þegar fólk verður fyrir stóru persónulegu áfalli á það undantekningalaust að fá frið til að díla við það ásamt sínum nánustu. 

Aðstandendur þeirra sem sakaðir eru um nauðgun eða þeirra sem verða fyrir nauðgun eiga ekki að þurfa að bíta í kinnar sínar og sammælast um að tjá sig ekki um málið opinberlega þrátt fyrir mikla ögrun frá þeim galgopum og bjánum sem fjölmiðlar bjóða þá velkomna á svið. 

Frammistaða Binga-veldisins í málinu er til háborinnar skammar og öll iðrun er algjörlega óeinlæg. Þeirra eini harmur stafar af fjárhagslegu tapi.

Samt hef ég enga sérstaka velþóknun á þeim múg sem nú ryðst fram og heimtar að menn hætti að skoða Pressuna og gera sitt besta til að svelta hana til bana. 

Ég sá fólk nýlega afhjúpað á feisbúkk og „sakað“ um að eiga læk á feisbúkksíðu Pressunnar. Feisbúkkvináttan sögð í húfi ef menn leiðréttu þetta ekki hið snarasta. Auglýsendur voru sakaðir um að gera ljótt hverja þá klukkustund sem þeir létu líða án þess að rifta samningum við fjölmiðilinn. Þeir auglýsendur sem bökkuðu út voru hylltir og slógu tvær flugur í einu höggi. Hættu að borga fyrir auglýsingu og fengu aðra ókeypis. Ég veit síðan ekki hve oft þessum blessaða undirskriftalista var troðið í andlitið á mér.

Niðurstaðan varð að fylgismenn Pressunnar á FB fóru úr 25 þúsund í 22 þúsund og samsvarandi fjöldi skrifaði á undirskriftalistann. Þetta er ca. þriðjungur af fjölda meðlima í kaþólsku kirkjunni. Og það er full ástæða til að ætla að sá fjöldi fólks sem raunverulega vill sjá Pressuna harkalega refsað vegna málsins sé ekki mikið meiri en þetta.

Fjölmiðlar gegna fleiri skyldum en að láta viðkvæmt fólk í friði. Þeir eiga heldur ekki að verða málpípur fyrir ofstæki, ofsóknir eða áróður. Fjölmiðill á að standa með fréttamati sínu (og hafa eitthvað fréttamat til að byrja með) og sýna sjálfstæði. 

Ég las einu sinni viðtal við konu sem blöskraði íslenskt samfélag. Hún hafði búið í BNA í einhver ár og treysti sér varla til að versla í Bónus vegna þess að börnin hennar þurftu að ganga gegnum þá eldraun að sjá (að hennar mati) hardkor klám á forsíðum blaðanna sem voru til sölu við kassann. Konur í efnislitlum fatnaði voru meira en hennar ameríkanseruðu taugar þoldu. 

Ísland er fullt af litlum eins prósents sellum sem vilja stýra fréttamati og viðhorfum. Hlutverk ábyrgra fjölmiðla á að standa vörð um 99% í hvert sinn sem 1% vill taka stjórnina. Það hefur gengið mjög misvel. Eiginlega oftast hörmulega.

Eitt af því sem fjölmiðill þarf að gera til að standast slík áhlaup er að hafa sjálfstætt fréttamat og skoðun. Einhver prinsipp sem auglýsendur og aðrir fá ekki beygt. Alvöru, virka og faglega ritstjórn þar sem menn sæta ábyrgð ef þeir svíkja gildi miðilsins. Þeir verða að hafa einhverjar rætur þannig að þeir fjúki ekki burt eða bælist við það að einhver hópur blási til herferðar gegn þeim.

Því sá fjölmiðill sem reynir að styggja ekki neinn – hann segir ekkert af viti. 

Og engin 1% sella. Ekki einu sinni 5% eða 70% sella á að hafa það vald að þagga niður í fjölmiðli. 

Þeir sem gleðjast núna yfir því að „almenningur“ hafi tekið sér það vald að ritstýra fjölmiðli virðast horfa fram hjá þeirri einföldu staðreynd að ef það hefur virkilega áhrif á ritstjórnarstefnu fjölmiðils að einhverjir reiðir borgarar skrifi auglýsendum bréf og hvetji til að hætta að auglýsa þá um leið er verið að gera þá kröfu til fjölmiðla að þeir láti fjárhagslega hagsmuni stýra því hvað þeir skrifa. 

Eins og það sé ekki búið að fullreyna þá aðferð.

Pressan mun að öllum líkindum standast þetta áhlaup. Það mun vara stutt og hafa lítil áhrif. Menn munu áfram nálgast þetta vandamál eins og til þess var stofnað. Með því að finna þá lausn sem fjölgar mest „smellum“ og í framhaldi af því auglýsingum. 

Og allt verður nákvæmlega eins og áður,

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Forláttu smásmyglina en "25 þúsund í 22 þúsund " passar ekki við mínar tölur. Morguninn sem myndin birtist var talan 22798 á Pressan.is á Fésbók og fór niður í 22347. Er núna 22354.
Gísli Ásgeirsson