15. desember 2011

Heimspekileg pæling um stjórnarfar

Manninum hefur, líklega einum dýra, tekist að öðlast sæmilegt vald yfir umhverfi sínu með hugsuninni einni saman. Hann getur skilið, spáð og grúskað – og forritar sjálfan sig í sífellu til að áhrifin séu sem skilvirkust. Hæfileikinn er svo rótgróinn í okkur að við verðum sjaldnast vör við hann – til þess þarf eitthvað afbrigðilegt eða svakalegt að gerast. Það er helst þegar einhverjar hörmungar eða veikindi eiga sér stað að þessi dúsa, sem veitir okkur öryggiskennd og lífsnæði, er rifin úr munninum á okkur og við upplifum berskjaldað valdaleysi sem ristir okkur ofan í kviku. Samt eru valdmörkin augljós ef maður hefur augun opin. Maður upplifir þau meira að segja við hversdagslegan viðburð eins og lottóútdrátt. Þar sem maður sér hverja töluna koma upp (og reynir jafnvel í huganum að spá fyrir um þær jafnóðum) og þegar þær eru allar komnar á sinn stað þá leikur sú hugmynd sér í kollinum á manni að nú búi maður yfir verðmætri þekkingu – þessar tölur hafi enda verið milljóna virði – fyrir nokkrum mínútum. En nú er þekking á þeim verðlaus. Þessi skörpu skil eru annarleg og ögn ónáttúruleg enda gufa verðmæti ógjarnan upp í náttúrunni. Og hugsunin er náttúruleg fyrst og fremst. Vonin hefur örugglega reynst þróunarlega hagstæð þótt hún sé á stundum órökrétt.


Nema hvað, samfélög manna byggja oft að verulegu leyti á því að menn hamast við að ná valdi yfir umhverfi sínu. Bæði til áhrifa og til skilnings. Við köllum þá sem afla sér óvenju víðtæks skilnings „sérfróða“ eða „sérfræðinga“ og aðhyllumst næstum forngrísk viðhorf til þeirra. Það var sama hve Sókrates hamaðist á öllu því sem menn gengu að sem gefnu það var eitt viðhorf sem einhvern veginn virtist alltaf til marks um hreina og tæra skynsemi. Ef hugsa þurfti um hest átti að fá hestasérfræðing, ef smíða átti flautu átti flautusmíðasérfræðingur að sjá um það.

Hvort þessi sérfræðihyggja er óumdeilanlega skynsamleg tel ég heilmiklum vafa undirorpið. En hversu skynsamleg sem hún er þá er hún ekki viðvarandi leiðsögn eða lausn nema fámenni eða einsleitni komi til. Því hvernig á að smíða flautu þegar flautusmíðasérfræðingarnir eru tveir – og þá greinir verulega á?

Við höfum ekki náð að leysa þann vanda.


Og það sem meira er þá tel ég að viðhorf okkar í slíkum málum séu meingölluð og blekkjandi – og að þekking sérfræðinga sé einmitt ekki nýtt til leiðsagnar og framfara – heldur til að viðhalda stöðnun og ráðaleysi.

Stundum er sagt að sigurvegararnir skrifi söguna. Það er vafalaust rétt. En það er samt aðeins angi af stærra máli – því hvernig sagan er skrifuð þótt engum sigri eða tapi sé til að dreifa. Sagan er nefnilega skrifuð þrisvar. Fyrst er gert framvirkt uppkast. Síðan er hún rissuð upp. Loks er hún hreinskrifuð. Uppkastið er gert áður en sagan á sér stað. Rissið meðan hún gerist og hreinskriftin eftir á.

Allt er þetta löðrandi í vanda. Oft á tíðum ræður uppkastið sögulokunum, þótt sagan hafi enn ekki átt sér stað og jafnvel þótt sagan hafi í raun ekki verið í neinu stórkostlegu samræmi við uppkastið. Það má alltaf velja úr það sem passar best. Það er mjög erfitt að skrifa söguna jafnóðum því að til að skrifa þarf samhengi og samhengið er ekki ljóst fyrr en eftir á og jafnvel þá þarf maður að gæta sín á því að samhengið sé sprottið af sögunni sjálfri en sagan ekki mótuð af gefnu samhengi.

En erfiðast er þetta fyrir okkur, almenning. Sem hlustum á greinendur og sérfræðinga skapa samhengi og gera uppköst á hverjum degi. Og sjáum strauma fólks haga lífi sínu eftir þessum uppköstum. Því þegar við brennum okkur á vondum ráðum er svo voðalega erfitt að læra af reynslunni. Ástæðan fyrir því er í sjálfu sér ekki flókin.

Þegar við horfum til baka tökum við best eftir því sem er óvenjulegt eða ofsafengið. Og það er, eðli málsins samkvæmt, það sem verst er að spá fyrir um. En eftir á er það svo barnslega augljóst. Sérstaklega þegar maður greinir orsakakeðjur og kafar í málflutning og umræðu.

Stóri misskilningurinn er tvíþættur. Í fyrsta lagi að augljós orsakakeðja, rakin afturábak, sé eins augljós þegar hún er rakin áfram. í öðru lagi að orsakakeðjur séu augljósar yfirleitt.

Þegar íslenska bankakerfið hrundi var skrifuð rannsóknarskýrsla þar sem bent var á misfellur og mistök, vanrækslu og vonda siði. En allt var þetta auðvitað rakið í vissu þess að allt sprakk í loft upp. Og vissulega voru ótal færi til að milda fallið og jafnvel koma í veg fyrir það. En vandinn er sá að á hverju augnabliki stóðu ótal leiðir opnar og þær leiðir sem farnar voru ekki síður rökstuddar og skiljanlegar en hinar, sem hefðu skilað betri árangri.


En þá benda menn gjarnan á spámenn. Fólkið sem varaði við hruninu og var á móti veigamiklum atburðum í orsakakeðjunni sem leiddi til hruns. Þetta fólk fær skyndilega áheyrn og virðingu og menn vilja að það ráði ferðinni hér eftir, enda sé það búið að sanna sig. Og svona menn eru dregnir fram næstum daglega. Einhverjir hagfræðingar eða spekingar sem spá nýrri og nýrri kreppu.

Auðvitað eru einhver dæmi þess að einhverjir séu betur upplýstir en aðrir og bendi á það sem öðrum yfirsést. En hitt er eiginlega algengara að ekki sé um neina upplýsta ábendingu að ræða – heldur aðeins almenn viðhorf sem þarna vill svo til að hitta nærri naglanum.

Þeir sem þola ekki fótbolta telja skoðun sína rökstudda í hvert sinn sem slys verður á fótboltavelli eða ljótt brot eða annað vesen. Þeir sem elska bækur telja að Harry Potter sanni það að bókin sé langtþvífrá dauð. Þeir sem hatast við kapítalisma telja kreppuna sanna málflutning sinn.

Þegar staðreyndin er sú að þegar mögulegar niðurstöður eru takmarkaðar þá mun alltaf einhver vera staddur fyrir tilviljun þar sem boltinn stoppar í rúllettuhjólinu. Það munu alltaf einhverjir hafa hrópað töluna 19 rétt áður en lottókúlan birtist og það munu alltaf einhverjir hafa varað við þenslu, verðbólgi, atvinnuleysi eða stöðnun þegar hún á sér stað.

Það að einhver hafi varað við einhverju er í sjálfu sér engin sönnun þess að spádómsgáfa þeirra sé betri en annarra. Það þarf ekki einu sinni að sanna að áhættan hafi ekki verið verjandi þrátt fyrir að illa hafi farið.

Það ringlar okkur sem samfélag ógurlega að vera sífellt að leita að sérfræðingum og spámönnum. Það viðheldur nær óbreyttu ástandi stöðnunar þar sem forsenda þess að hlutir séu hugsaðir upp á nýtt eru einhverskonar vandræði eða hrun. Það hlýtur að vera hægt að skapa samfélag þar sem hlutir þurfa ekki að enda illa til þess að menn þori að breyta eitthvað til.

Ég held að stjórnmál, fjölmiðlun og önnur opinber mál hefðu gott af því að draga lærdóm af því sviði mannlegrar breytni sem lengst hefur komist frá því að vera ofurseld spámönnum, -kerlingum og hjátrú. Og þá meina ég raunverulegan lærdóm. Hagfræðingar og stjórnmálafræðingar hafa í dag oft minni áhrif á stjórnmálin en stjórnmálin hafa á þá.


Aðall vísindalegra aðferða er ákveðinn heiðarleiki og lokun fyrir undanbrögð. Menn þurfa að standa skil á aðferðum sínum gagnvart öðrum ef þeir vilja að niðurstöðurnar séu teknar gildar. Gegnsæi er grundvallaratriði. Tilraunagleði og fjölbreytni er nauðsynleg enda ganga vísindi að því sem gefnu að það sé töluvert fleira sem menn vita ekki en það sem þeir vita. Og þegar mann telja sig komna á slóð einhvers merkilegs eru menn tilbúnir að leggja mikið af mörkum til að prófa sig áfram – þó ætíð fullvissir um það að þeim gæti skjátlast. En að hafa rangt fyrir sér eru ekki mistök – og ekki einu sinni endilega vanhæfni – heldur fullkomlega eðlileg og nauðsynleg leið til þess að safna þekkingu og gera jarðvegin frjóan fyrir framfarir. Enda er aðalatriðið ekki það að vísindamaðurinn sé innblásinn spámaður með nærri ofurmannlega hæfileika. Aðalatriðið er að vísindamaðurinn noti aðferðir sem skila árangri.

Þar sem líf og dauði liggur við hafa menn löngu áttað sig á að þessi aðferð er sú eina sem verjandi er. Læknar „spinna ekki“ skurðaðgerðir á staðnum. Björgunarsveitir treysta ekki á hugboð. Menn byggja á bestu þekkingu, tilfinningu og innsæi – en síðan sjá „aðferðirnar“ til þess að jafnvel þótt hugboðið reynist rangt þá halda menn áfram. Ef týndur ferðamaður finnst ekki á afmörkuðu svæði þá eru skýrar vinnureglur um það hvað gerist næst.


Það er mín skoðun að það sé löngu kominn tími á það að við hættum að leita að spámönnum og láta samfélagið snúast um persónur og flokka – og að við tileinkum okkur nýja aðferð. Aðferð sem er fyllilega samþættanleg við fulltrúalýðræði. Að menn taki upp andann í hinni vísindalegu aðferð. Að menn tileinki sér tilraunagleði, skipti út fullyrðingum fyrir tilgátur, tileinki sér gegnsæi og læri af því sem ekki heppnast. Og þurfi að undirgangast þá kröfu að til að mark sé tekið á niðurstöðum þeirra þá fylgi þeim nákvæm lýsing á aðferðum og forsendum.

Ég eftirlæt lesendum mínum að meta að hve miklu leyti stjórnsýsla, fjölmiðlun og stjórnmál eru með þessum hætti nú þegar.

Engin ummæli: