19. desember 2011

Jólafrí trúleysingjans

Hún poppar upp reglulega röksemdin um að trúleysingjar lifi einhverskonar hræsnisfullu sníkjulífi á hátíðisdögum annarra. Trúleysingi ætti, skv. sumum, að vera í vinnunni, þegar trúaðir halda frelsara sínum afmælisboð.

Þessi röksemd virðist gefa sér (eigi að vera einhver broddur í henni) að guðstrúnni eigi að fylgja kjarabætur. Að sá sem trúi á Guð eigi að leggja minna af mörkum, vinna minna en annað fólk. Nema auðvitað menn séu að segja að trúlausir eigi að taka sín frí á öðrum dögum en þeir sem þykjast vera í trúarfríi.

Sem er álíka gáfulegt og að ætlast til þess að fólk með viðkvæma húð hætti að taka sér sumarfrí í júlí og ágúst og að bindindismenn hætti að fá helgarfrí.

Annars hefur mér sýnst að það fólk sem velur sér „kristilegustu“ ævistörfin sé einmitt fólkið sem ólíklegast er til að vera í fríi á jólunum.

2 ummæli:

Einar Karl sagði...

Veit svo sem ekki hvort kristilegir fárist í raun og veru út í að aðrir fái frí, en reglulega les maður hallærislega hneykslan á því hversu "innihaldslaus" jól hljóti að vera hjá þeim sem ekki beint og óbeint tileinka daginn afmæli Jesúsar. Óbeint er verið að segja að slíkt fólk eigi ekkert að halda uppá "gervijól".

Það kostulega er að svoleiðis pistlar koma ekki endilega frá strangtrúuðum heldur miklu frekar forræðishyggju-siðapostulum sem líta á kristna kirkju (ekki síst íslenska Þjóðkirkju) sem æskilega umgjörð og forskrift fyrir settlegt smáborgaralegt líf. Ólafur Stephensen ritstjóri er í þessum hópi. Sjáum til hvort hann sendi trúlausum lesendum sínum jafn snautlega jólakveðju nú og í fyrra.

Gleðileg jól Ólafur Stephensen!

Eva sagði...

Reyndar eru jól ekki upprunnin í kristindómnum og ekki afmælisveislur heldur. Held að þeir sem hafa yfirtekið sólrisuhátíðir heiðingja ættu nú bara að láta aðra í friði.