20. desember 2011

Það sem þarf að breytast í stjórnmálum

Eitt af þeim fyrirbærum sem ég hef tekið eftir í kennslunni og tel líklegt að til sé hálfvísindalegt orð yfir er „viska fjöldans.“ Það þarf ekki stóran hóp af fólki til að ná verulegum framförum í jafnvel erfiðum málum. Líklega er þetta hvergi skýrara en í þeirri stefnu heimspekináms sem kallast P4C eða Heimspeki með/fyrir börnum/börn. Þá er myndað „samræðusamfélag“ sem byggir á fáum, einföldum samskiptareglum og almennri skynsemi (ogkurteisi) sem í sameiningu kafar niður í mál og greinir þau, flettir í sundur og leitar að nýjum flötum.


Með örlítilli þjálfun geta mjög ung börn jafnvel orðið samræðumeistarar sem tileinka sér frumlega, gagnrýna og uppbyggilega hugsun í samfélagi við aðra.

Þótt 63 sé lág tala þá felst sú grunnhugsun í lýðræðispælingunni að það sé nógu stór hópur til að viska fjöldans nái að stýra för. Jafnvel hjá þjóð sem stefnir ótrauð á hálfa milljón íbúa. Og ég held að það sé nógu stór hópur. Vandinn er að þannig er það ekki í raun. Og við erum af einhverjum ástæðum reglulega blind fyrir ástæðum þess.


Segjum sem svo að við ætluðum að innrétta herbergi fyrir hóp fólks af tiltekinni stærð, segjum tíu manns. Við fáum ekkert að vita um fólkið fyrirfram. Raunin yrði væntanlega sú að við myndum innrétta herbergið eftir okkar höfði. Ef við værum sérlega hugulsöm myndum við gæta þess að hafa aðstöðu fyrir hreyfihamlaða, afþreyingu fyrir sjóndapra eða heyrnarskerta eða aðstöðu til að skipta um bleiur – úr hjólastól. Segjum svo að í ljós kæmi eftir að við værum búin að innrétta herbergið að það er biðsalur fyrir næturvaktina hjá miðbæjarlöggunni. Eftir helgina væri herbergið væntanlega í rústum. Allt fíneríið brotið og bramlað og búið að kúka á bleiuskiptistöðina. Við fengjum síðan það hlutverk að endurhanna herbergið fyrir næstu helgi. Það mætti kalla óvenjulega mikla trú á meðbræðurna ef herbergið væri í það skiptið mikið meira en nokkur naglföst húsgögn, stálklósett og hugsanlega búr.


Bygging sem gerð er fyrir það versta í fólki hefur sáralítið aðdráttarafl fyrir það besta í fólki. En bygging sem hönnuð er utan um það besta verður fljótt eyðilöggð ef hinir verri komast í hana.

Þetta er vandi alls stjórnarfars.

Á Alþingi sitja 63 einstaklingar sem ættu að vera einkennandi fyrir íslenska þjóð. Fólk með mismunandi skoðanir á ýmsum málefnum sem raðast saman í fylkingar eftir nokkrum grundvallarreglum. Fólk sem á að nýta visku fjöldans til þess að tryggja að landinu sé stjórnað sæmilega skynsamlega og sómasamlega.


Raunin er auðvitað sú að með tíð og tíma hefur öll hugsjón um fagurt stjórnarfar á landinu þokað fyrir hrossakaupum, barningi og rætni. Stjórnmálamenn láta ráðast af „hagsmunum“ en ekki „hugsjónum“ eða einu sinni brjóstviti. Hagsmunirnir eru notaðir er trójuhestar fyrir hugsjónirnar. Mönnum er seld sú ævagamla ranghugmynd að menn geri mest gagn með því að taka þátt í leik sem heitir pólitík – því þótt hún sé kannski á stundum pínu skítugur leikur þá standi menn áhrifslausir utan hennar.

Pólitík er arfi í skrautblómagarði. Og talandi um slíka garða. Hversu margir þingmenn ætli láti sig garðinn aftan við þinghúsið einhverju varða? Þessi garður var gerður af þingmönnum sem þannig ráðstöfuðu samskotafé frá almenningi. Fyrstu misserin var nostrað við þennan garð. „Æðstu“ menn þjóðarinnar krupu í mold og drullu við að reita upp arfa og hlúa að skrautblómum til þess að almenningur á landinu gæti komið til Reykjavíkur og séð aurana sína verða að einhverju innblásnu, framandi og fallegu.

Í dag er þessi garður safn. Þingmennirnir okkar tölta inn í hann þegar taka þarf hópmynd af þingflokknum og standa þá gjarnan bísperrtir á glansandi lakkskóm eða stingandi hælum á miðjum grasfleti með þinghúsið í bakgrunni. Hvorki þeir né ljósmyndarinn gefa gaum að gróðrinum sem aðrir sjá um að sinna.


Það þarf ekki nýja þingmenn. Það þarf ekki nýja stjórnmálaflokka. Hið gersamlega útúrkú-ýkta bil á milli hugsjónastrauma í íslenskri pólitík er varla meira en svo nemi muninum á að versla í Bónus eða Nettó. Síðast í dag sá ég áskorun á netinu til þeirra sem gátu hugsað sér að sofna á verðinum og hleypa „hinum“ að. Allar slíkar áhyggjur byggja á tálsýn. Tálsýn um mun sem enginn er.

Venjulegar þingkosningar á Íslandi snúa að því hvort maður kýs blátt bindi eða rautt – eða í mesta falli þverslaufu.

Það þarf ekki aðra þingmenn eða öðruvísi þingmenn. Það eina sem þarf er að þingmenn fari að haga sér aðeins öðruvísi. Ef þeir gera það skiptir ekki öllu máli hverjir þeir eru.

Þú myndir ná meiri árangri við stjórn landsins og ná fram meiri siðbót með því að velja fólk af handahófi úr þjóðskrá – ef þér tækist að fyrirbyggja það að það tæki upp ósiði þingmannanna.

Thoreu sagði:
Ég tel að við eigum að vera menn fyrst og þegnar svo. Það er ekki eftirsóknarvert að rækta virðingu fyrir lögunum til jafns við hið réttláta. Á hverri stundu ber mér aðeins að gera það sem ég tel rétt. Það er alkunna að flokkar eru samviskulausir þótt flokkar samviskusamra manna séu flokkar með samvisku.

Þessi æra einstaklingsins er grunnurinn að því að hópurinn sem heild komist áleiðis í rétta átt.

Í engum stjórnmálaflokki, engum þingmeirihluta býr slík göfgi að það réttlæti það viljaframsal sem þingmenn gangast undir. Þessi leikur um að ná og halda meirihluta og þar með völdum er stórskaðlegur. Leikur sem gerir það að verkum að almenn skynsemi, kurteisi, sáttfýsi og virðing er lögð á hliðarlínuna. Leikur sem veldur því að þeir, sem þó hafa hugsjón, marsera í takt við hina í þeirri von að fá einu sinni að ráða hvernig er gengið.

Það sem þarf í íslensk stjórnmál er fólk sem ætlar að slaka á og hætta þessum stjórnmálastælum, yfirdrepsskap og hrossakaupum og vera bara venjulegar manneskjur inni á þingi. Leggja sitt af mörkum til alvöru umræðu. Hlusta og tala. Fólk sem tekur undir góðar hugmyndir. Styður þingfélagana þvers og kruss og tekur ekkert mark á flokkslínum. Talar um hlutina eins og þeir eru og skrúbbar ekki raddböndin á sér upp úr dobbelspík.

Það þarf fólk sem heklar dúka á naglföstu borðin, þótt það þýði að einhver af hinum fautunum muni líklega rífa hann af og skeina sér á honum. Það þarf fólk sem færir viðkvæmnina og fegurðina inn í ískalt steinhjarta þinghússins. Það þarf fólk sem er tilbúið í friðsamlegt en algjört andóf gegn þeim ósiðum sem sem þingið hefur komið sér upp.

Það þarf venjulegt fólk.

Heimska hópsins á að víkja fyrir visku fjöldans. Lítil börn geta það. Því ekki fullorðið fólk?

Hlutverk okkar, kjósandans, er að hætta að vera klappstýrur fyrir ósiðina. Hætta að láta sem við vitum ekki að fögru fési stjórnmálaflokks sem að okkur snýr fylgir fúll bakhluti sem dritar yfir allt sem er gott og fagurt. Við eigum að hætta að vera meðvirk í þessu óholla, slítandi leiðindaandrúmslofti sem umlykur stjórnmálin. Byrja að trúa því að stjórnmálamenn geti betur. Og í framhaldinu – gera þá kröfu á þá að þeir geri það.

Engin ummæli: