5. desember 2011

Guðfræðin og glærurnar



Vantrú er félagsskapur fólks sem hefur það að markmiði að andæfa kröftuglega allri boðun á yfirnáttúrulegum fyrirbærum. Innan Vantrúar eru meðlimir af mörgum sauðahúsum. Sumir eru kjaftaskar, aðrir með létta þráhyggju og enn aðrir ósköp venjulegir menn. Það geta flestir fundið galla að sínu skapi í fari þeirra sem mest hafa sig í frammi fyrir Vantrú.

Upp á síðkastið hefur félagsskapurinn verið útmálaður sem ofsa- og eineltissamtök sem stundi heilagt stríð gegn frelsi háskólamanna. Sumpart varðar umræðan háskólapólitík. Um það nenni ég eiginlega ekki að tjá mig. En merkilegri hluti umræðunnar er sá hvort Vantrú sé ofsa- og eineltissamtök.

Forsaga málsins var sú að kennari í Guðfræði birti glærur í kennslu þar sem hann málaði svona heldur óþokkalega mynd af Vantrú. Eitthvað fór hann glannalega með límið og skærin því Vantrúarmenn sem komust á snoðir um kennsluna (og sendu útsendara á staðinn) töldu freklega á sér brotið. Heimildavinnan væri með þeim hætti að hún ætti heima á sagnhaugnum sem verður til þar sem forspjallskennarar í háskóla flysja lestina af nýnemum – sem hvorki kunna að hugsa sjálfstætt né vitna í hugsanir annarra.

Ég renndi yfir þessar glærur. Mest af umkvörtunarefnum Vantrúarmanna fannst mér voðalegur væll. En þar með er ekki sagt að mér hafi þótt mikið til guðfræðikennslunnar koma – því þar var sami væll á ferðinni. Kennarinn hafði nokkuð fyrir því að mála verri mynd en efni stóðu til. Ég myndi ekki einu sinni blogga með þeim hætti sem kennarinn kenndi. Ég myndi skammast mín.

Svo líður og bíður. Háskólinn vandræðast með þetta allt saman og Vantrú hangir með skoltinn um slagæðina, guðslifandi fegið að hað hafa loks nappað guðfræðina í bólinu. Flugumaðurinn í guðfræðikúrsinum hafði fært klúbbnum „gullnámu“ bresta guðfræðinganna. En flugumenn eru af ýmsum sortum og þar sem Vantrúarmenn hlökkuðu yfir happi sínu sat einhver sveittur við að afrita þeirra persónulegu samtöl og leka í guðfræðingana á móti.

Þessi samtöl, þótti einhverjum, ekki bera vitni um smáðan hug þess sem órétti hefur verið beittur – heldur vera til marks um stráksskap og jörfagleði. Talað var um „heilagt stríð“ og þar fram eftir götunum.

Svo skrifaði einhver eitthvað í Moggann og svo aftur á mbl.is um raunir ofsótts háskólamanns og hatramman strákaklúbb með eineltistendensa.

Og ég sé á viðbrögðum feisbúkkvina að þessi grein hefur heldur slegið í gegn. Margir hafa greinilega haft horn í síðu Vantrúarmanna og gleðjast þegar því er snúið.

Kannski er ég kaldlyndur andskoti en ég vorkenni þessu ágæta guðfræðikennara voðalega lítið. En ég vorkenni Vantrú heldur ekkert rosalega heldur. Guðfræðikennarinn vann þessar „kærðu“ glærur með rassgatinu. Ef menn vilja kalla það „akademískt frelsi“ að mega það – þá só bí it. Vantú óð í málið með tittlingnum. Þeim fannst bara frekar spennandi að hafa nappað „andstæðinginn“ með buxurnar á hælunum. Alveg eins og guðfræðingunum finnst voða gaman að berja nú á Vantrú með stolnum einkaspjöllum.

Efnisatriði málsins eru næstum alveg ófrjó. Það er nákvæmlega ekkert hugvekjandi eða spennandi við þrætur guðfræðideildar HÍ og Vantrúar. Deilan er væll og formsatriðatuð.

En það er einn munur á framgöngu guðfræðikennarans og Vantrúar. Vantrú er vissulega sekt um að leita að einhverju, bara einhverju, til að koma höggi á óvininn. Guðfræðikennarinn lét sér ekki nægja að leita að einhverju – heldur bjó hann til það sem upp á vantaði.

En það er svosem ekki bara í guðfræðinni sem það tíðkast.

1 ummæli:

Hjalti sagði...

"(og sendu útsendara á staðinn)"

Þetta er reyndar ekki rétt. Vinur eins í hópnum ákvað að taka þennan áfanga. Seinna í þræðinum af lokaða spjallinu (sem Bjarni Randver virðist halda að sé opinn) stakk einn okkar (ég!) upp á því að að senda "útsendara" (af því að ég var afskaplega forvitinn).

Þetta tal um að við höfum sent einhvern flugumann er eitt af þessu sem er búið til ;)