4. desember 2011

Nauðganir og völd


Femínismi er auðvitað ekkert eitt. Pólitískur femínismi er á íslandi mjög marxískur. Í raun líklega lífsseigasta raunverulega marxíska hugmyndafræðin. Nema að í stað stétta eru komin kyn.

Marxískar baráttustefnur hafa það flestar að markmiði að leggja sjálfar sig niður. Fall þeirra er falið í draumum þeirra. Þegar draumasamfélagið næst verður baráttan óþörf. En þessu fylgir oft það viðhorf til þess samfélags sem draumasamfélagið á að leysa af hólmi að það sé óþarft og gagnslítið.

Vandinn er að marxísk draumasamfélög hafa tilhneigingu til að verða aldrei að veruleika af þeirri einföldu, sálfræðilegu ástæðu að þótt menn séu vissulega ginnkeyptir fyrir marxisma þegar kúgunin og misréttið er áberandi og augljóst – þá kasta menn af sér marxismanum eins og notuðum gúmmihönskum um leið og frelsi þeirra er komið yfir ákveðið mark og hafna þeirri löngu eyðimerkurgöngu til fyrirheitna landsins sem tekur við þegar mesta okinu er létt. Það er nefnilega grundvallarvilla byggð í marxismann – sú að kúgað fólk vilji bæði aflétta kúgun sinni og búa til draumaland. Sem er álíka hugsanavilla eins og að halda að langt leiddir fíklar muni, nái þeir að sigrast á fíkn sinni, allir vilja verða vammlausir menn. En það er aðeins í svefnrofum vímunnar sem fíkillinn verður hálfheilagur – fyrr eða síðar poppar ísjaki persónuleika hans upp á yfirborðið aftur.


Þetta snýst ekki um konur

Lang mest af andúð á femínistum á Íslandi er andúð á róttækum, marxískum málflutningi. Sem kemur konum ekkert við. Og flestir andstæðingar femínista gera þá barnalegu hugsanavillu að greina ekki þarna á milli. Það er augljóst að marxísk stefna sem skiptir út öreigum fyrir konur höfðar frekar til kvenna en karla og hljómar meira sannfærandi úr munni kvenna en karla – en það verður aldrei hægt að fullyrða að stefnan sé á nokkurn hátt einkennandi fyrir konur. Nokkrir andstæðingar femínisma ganga svo langt að afgreiða skilningsleysi sitt gagnvart femíniskum kreðsum sem sannindamerki um það að konur búi ekki yfir skynsemi og rökhugsun. Sem er argasta bjánabull. Marxískur femínismi er næsta fullkomlega rökrétt hugmyndafræði. Að minnsta kosti jafn rökrétt og allur annar marxismi. En hann er ekki einföld hugmyndafræði. Því samfélög eru flókin og margvísleg og þótt maður beiti fáum og einföldum grundvallarreglum þá geta niðurstöðurnar orðið margar og margvíslegar. Af því leiðir að marxismi verður oft mótsagnarkenndur og erfiður viðureignar, sérstaklega þegar kúgunin hættir að vera augljós.


En það sem þeir gera sem sífellt tönnlast á „femínistamussukerlingum“ og nota ævinlega kynferði sem skammaryrði – er að gefa, ranglega, til kynna að þetta snúist um konur og lesti þeirra. Og þegar þú ræðst sífellt á kynferði málshefjanda þá veistu í fyrsta lagi ekkert hvað þú ert að ráðast á – og í öðru lagi staðfestir þú aðsóknarkennd þeirra kvenna sem virkilega halda að þær tali fyrir munn allra kvenna. Og þú leggur þínar pensilstrokur í púkk þeirrar bjöguðu heimsmyndar sem býr að baki hatrammasta áróðrinum.

Leitið og þér munuð finna


Marxismi gengur út frá því að sjálft samfélagið sé blint fyrir misréttinu. Að því leyti á stefnan meira skylt við opinberanir en stjórnmál. Drifkraftur hans eru einstaklingar sem fá opinberun, sjá ljósið. Oft með persónulegum og dramatískum hætti. Þá meikar skyndilega samfélagið sens á nýjan hátt. Allt er skoðað með þeim gleraugum að leitað er að sannindamerkjum þess að einn hópur hafi komið sér betur fyrir í samfélagsvefnum en annar.


Hvað varðar augljóst ranglæti þá blasir órétturinn við. En um leið og ranglætið hættir að verða augljóst þá þurfa menn að leita með vasaljósi og stækkunargleri. Og þá þarf ekki að koma á óvart að menn finna það sem þeir leita að. Sérstaklega í hinum pólitíska armi hugmyndafræðinnar. Og enn hefur það ekkert með konur að gera – þetta er ekki einu sinni bundið við marxisma. Þetta er almenn mannleg tilhneiging sem meira að segja grandvörustu, rökhugsandi karlar brenna sig stundum á. Frægasta dæmið er líklega franski ónæmisfræðingurinn Jacques Benveniste sem uppgötvaði, sér og öðrum til mikillar furðu, að hreint vatn gat virkað sem ofnæmislyf. Benveniste fór algjörlega rökrétt og vísindalega að öllu og endurtók tilraunir sínar og fékk alltaf sömu niðurstöðu – sem gladdi hómópata gríðarlega mikið. Það var ekki fyrr en eftir miklar athuganir að gallinn fannst. Ástæða þess að Benveniste fann minni vatns var sú að hann var að leita að því.

Og þannig hafa pólitískir, marxískir femínistar fundið hver sönnunargögnin á fætur öðrum um það að samfélagið sé betra fyrir karla en konur. Það er óralangt síðan menn fóru hreinlega að finna hvern merkjanlegan mun á meðförum á kynjunum og skilgreina hann sjálfkrafa körlunum í hag. Nýlegt dæmi um það er fabúlering Sóleyjar Tómasdóttur um yfirvinnumun kynjanna hjá Reykjavíkurborg. Sem hún vill jafna með því að stöðva yfirvinnu. Í því dæmi glittir nefnilega í Draumalandið. Launamunur kynjanna hefur nefnilega yfirleitt verið ræddur sem ranglæti gagnvart konum – því að karlar eigi greiðari aðgang að fé og í gegnum það að lífsgæðum. En Sóley er komin skrefinu lengra – enda veit hún að lengri vinnudagur þar sem karlinn aflar fjár (sem síðan fer í flestum tilfellum í sameiginlega neyslu fjölskyldunnar og konan hefur raunar betri tök á að nýta því hún vinnur minna) verður ekki skilgreindur sem þægilegri og betri staða karla en kvenna. Það er ekkert sérlega aðlaðandi við það að þurfa að vinna lengsta vinnudag í Evrópu vegna þess að viðhorf til vinnu á Íslandi er galið. Jafnvel þótt mælanlegt einkenni þess séu hærri laun karla en kvenna. Mjög margir karlar vildu frekar vinna minna og eyða meiri tíma með fjölskyldum sínum – að ég tali ekki um þegar börn þeirra eru veik eða þurfa á sérstakri umhyggju að halda. Það mætti færa mjög sannfærandi rök fyrir því að margt við íslenskan vinnumarkað sé mannfjandsamlegt og að sá hluti hans bitni frekar á körlum en konum.

Og þegar komið er að þessum mörkum þá gera flestir pólitískir, marxískir femínistar sér grein fyrir því að hér þurfi að grípa til ómengaðs marxisma. Jöfnuður verður markmiðið. Punktur.

Hugsanavillur marxískra femínista

 Fyrri hugsanavilla marxískra femínista er þegar komin fram. Hún kemur femínismanum ekkert við – heldur er skilgetið vandræðabarn marxisma. Sú staðreynd að hann er þá aðeins sannfærandi þegar okið er raunverulegt og kúgunin aðkallandi. Við þær aðstæður má knýja fólk til verka. En um leið og jöfnuður er í sjónmáli þá vill fólk dreifast um allar trissur og þá þarf að halda mönnum í skefjum. Og með afli ef annað dugar ekki til. Það er ástæða þess að marxismi hefur hvergi á jarðarkringlunni skotið rótum nema alræði hafi fylgt í kjölfarið. Marxistarnir eru eins og hvítasunnumennirnir í samfélaginu sem bjarga verst stöddu fíklunum og gefa þeim nýtt líf – en mannlegt eðli sér til þess að hvítasunnusöfnuðir verða aldrei mjög stórir og ennfremur að þeir munu fyrr eða síðar smitast af vömmum þess.

Seinni hugsanavillan er ályktunarvilla. Sú, að fyrst samfélagið sé karllægt og andstyggilegra konum, og samfélagið sé eins og flókið míkadóspil þar sem ekki er hægt að hreyfa við einum pinna án þess að fleiri fari af stað – þá hljóti einstakar stofnanir og stofnar samfélagsins að stuðla að kynjamisrétti.


Þess vegna gefa sumir, pólitískir femínistar ekki mikið fyrir mannréttindaskilning eða forsendur réttarríkisins. Þeir hugsa eitthvað á þá leið að fyrst þessir hlutir hafi ekki skilað meiri árangri fyrir hina kúguðu stétt kvenna þá séu þeir ekki aðeins gagnslitlir heldur skaðlegir.

Þetta kemur ofsalega skýrt fram í málflutningi þessa dagana þar sem því er haldið fram að sú regla að menn séu „saklausir uns sekt er sönnuð“ sé ofmetin. Enda gegni hún því hlutverki að verja sakamenn.

Það sýnir fram á verulegar andlegar ógöngur þegar menn láta eins og reglan um að sakborningur skuli njóta vafans sé hjóm. Það sýnir í besta falli fram á verulega skerta samfélagslega og sögulega vitund. Það er nefnilega rett að réttarkerfið hefur í sögulegu samhengi miskunnarlaust verið notað til að sinna hagsmunum ráðandi valdhafa. Það er meira að segja frekar stutt síðan menn fengu dóma fyrir að tala ljótt um fasista og koma þar með útflutningshagsmunum landsins illa.


Það er ekki eins og reglan um að sanna þurfi sekt hafi verið sett í þeim tilgangi að hin sterku öfl samfélagsins kæmu sér undan réttlætinu þegar svo ber undir. Hún var sett eftir mörghundruðára reynslu af geðþóttaréttlæti til að verja lítilmagnann. Þann veika.

Réttarkerfið er fjarri því að vera fullkomið. En vandinn liggur ekki í of mikilli vernd brotamanna. Jafnvel þótt það séu til glæpir sem erfitt er að sanna.

Áherslan á glæpi sem erfitt er að sanna er ekki nýtilkomin. Því það er bein fylgni milli þess hve auðvelt er að sanna glæp og afsanna hann. Og glæpir sem erfitt er að afsanna hafa verið bein braut kúgara til ofsókna gegnum tíðina. Orð gegn orði hefur orðið að áskorun kúgunarafla. Það er nefnilega oft hægt að fá fólk til að segja hvað sem er ef „hvatinn“ er nægur.

Það að menn séu saklausir uns sekt er sönnuð er ekki kúgunartæki. Það er nauðsynleg bólusetning gegn kúgun. Vandamál sem leiða til og spretta af nauðgunum verða ekki leyst með því að breyta sönnunarbyrði. Þau þarf að leysa á öðrum vettvangi og með öðrum aðferðum.

Skylda fræðilegra femínista



Marxískur femínismi er líka til sem fræðigrein. Og það eru raunar til margar aðrar útgáfur femínima. Ég tel að fræðilegur femínismi beri ákveðnar skyldur gagnvart pólitískum. Sem hann er ekki að sinna. Það er til dæmis skammarlegt að femínistar geti komið fram á sjónarsviðið og haldið því kinnroðalaust fram að líkurnar á að Egill eða Andri eða Jón hafi raunverulega nauðgað stúlku séu 98%. Og því sé meira en réttlætanlegt að díla við hann sem sekan mann. Og þessi tala 98% plús mínus prósent eða tvö er í sífellu borin fram sem röksemd fyrir því að „saklaus uns sekt er sönnuð“ eigi ekki við um nauðganir.

Þrátt fyrir slíkan málflutning og það að jafnvel sé vísað í fræðilegar „rannsóknir“ ítrekað og aftur þá virðist enginn í fræðaheiminum líta á það sem sitt hlutverk að benda á það að þessi málflutningur er verulega óvísindalegur og óheiðarlegur. Staðreyndin er sú að á bak við þessa tölu, 98%, eru engar faglegar vísindalegar rannsóknir. Ekki ein einasta. Í það eina skipti sem ég bað um rökstuðning fyrir þessari tölu var mér vísað á rannsóknir sem ýmist voru algjörlega óvísindalegar og snérust um eitthvað allt annað. Í einni rannsókninni var meira að segja tekið sérstaklega fram að hún snérist einmitt ekki um að rannsaka tíðni falskra ákæra og önnur reyndist þegar betur var að gáð snúast um flokkunarkerfi hjá varðstjóra á lögreglustöð og það hlutfall kvenna sem sendar voru burt án frekari skoðunar – en það voru aðallega verulega geðveikar konur sem sögðu að Jesús hefði nauðgað sér  eða að þær hefðu verið kynferðislega misnotaðar af geimverum.

Meðmælalistar


Það er margt ógeðfellt við kynferðismál á Íslandi. Viðhorf til kynferðismála eru oft afar bjöguð – ekki bara hjá körlum. En við skyldum fara varlega í fordæmingu eða dómhörku þegar kemur að „óeðlilegu“ eða „ónáttúrulegu“ kynlífi.

Vissulega er nauðgun alltaf óverjandi og óréttlætanleg. Og það er full ástæða til að taka hart á nauðgurum.


Um daginn var ég á veitingastað og ég sá hvar unglingsstelpa sem var að afgreiða varð fyrir áreitni. Hún stóð og snéri baki í matsalinn þegar fullorðinn náungi sem mér sýndist vera yfirmaður hennar kemur aftan að henni og fer að nudda á henni axlirnar. Mér fannst strax eitthvað skrítið við þetta. Þá sé ég að hann grípur í síðuna á henni rétt undir handakrikanum og hún kippist við og snýst. Hann var miklu eldri en hún og líklega í valdastöðu yfir henni. Mér fannst þetta skýrt dæmi um það sem femínistar hafa verið að berjast gegn. Þrátt fyrir að stelpan hafi reynt að brosa að þessu þá fannst mér þetta svo óþægilegt að ég talaði við tvo menn sem ég þekki. Annar vinnur á staðnum og hinn vann þar og þekkir eigendurna.  Ég gat auðvitað ekki verið alveg viss um að þau væru ekki par og að ég væri að misskilja eitthvað undarlegt daður sem kynferðislega áreitni.

En auðvitað voru þau ekki par. Sá sem vinnur þarna sagðist vita hvaða stelpa þetta væri og bætti við að það létu allir svona við hana. Og þá sagði hinn: „Nú, er þetta svoleiðis stelpa?“

Mig langaði til að berja hann. En þá bætti hann við að gaurinn sem ég lýsti hefði svosem verið þekktur af svona hegðun.

Ég bað þá að sjá til þess að eigendur staðarins fréttu af þessu og gerðu eitthvað í þessu. Í viðbót við það samdi ég tölvupóst til eigendanna.

Mér finnst áreitni af þessu tæi viðbjóðsleg og ólíðandi. Og ég er hjartanlega sammála marxísku femínistunum um vandann og nauðsyn þess að bregðast við.

En mér finnst verulega viðbjóðslegt að sjá að sú baráttuaðferð skuli nú poppa upp hjá baráttumönnum gegn kynferðisofbeldi sem ítrekað hefur verið notuð til að rægja fórnarlömbin. Gerðir hafa verið meðmælalistar, sem jafnvel eru birtir í blöðum, sem allir fela í sér ein skilaboð: „Hann myndi aldrei gera svona, ég þekki hann, en henni er trúandi til alls.“

Lausnin á þessum viðbjóði er ekki að koma fram og segja: „Honum er trúandi til alls, ég þekki hann, en líkurnar á því að hún sé að ljúga eru innan við 2%.“

Þetta er andstyggileg, smánarleg og óverjandi aðferð við að tækla kynferðismál. Og sá sem hagar sér svona er í fyrsta lagi að hefja dómsmál utan réttarkerfisins en líka að skora á „stuðningsmenn“ hins í drulluslag. Næsta skref gæti verið að stuðningsmenn „hans“ komi fram og segi að hann sé gúddí gæi en hún sé svona og svona.

Og hver er staða stúlkunnar þá? Þegar einhverjir vanhugsandi mannvinir eru búnir að koma fram og heita henni stuðningi vegna þess að gaurinn sem hún sakaði sé svoddan drullupeli og trúandi til alls? Hver ber ábyrgð á því ef nú koma fram aðilar og ráðast að mannorði hennar eins og búið er að ráðast að mannorði hans?

Niðurstaðan

 Fólk á að hafa vit á því að þegja um það sem það ekki veit og skilur. Óskhyggja á ekki að ráða för í málflutningi um sakamál. Það er fráleitt að koma fram um leið og ásökun kemur fram (og það liggur ekki einu sinni fyrir kæra) og fullyrða að ásökunin sé til marks um hugrekki enda séu 98% líkur á að hún sé sönn og að „saklaus uns sekt sé sönnuð“ sé klisja. Það er líka fáránlegt að halda því fram að nú hljóti „valdaöfl“ í samfélaginu að vera á yfirsnúningi í að þagga málið niður.

Það er ekki þöggun að sleppa því að taka afstöðu til sakargifta þegar maður veit ekkert um málavöxtu. Það er ósköp eðlileg og viðeigandi þögn.

Það gerir mann ekki að stuðningsmanni nauðgara þótt maður telji að meira að segja þeir skuli njóta lagalegra réttinda og verndar. Það gerir mann að andstæðingi kúgunar.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

þegiðu, þú veist ekkert hvað þú ert að tala um.

Nafnlaus sagði...

Nú er ég sammála því að viðkomandi hugsanlegur nauðgari eigi að njóta lagalegra réttinda og verndar. Ég er sammála þér um prósentustigin tvö, þau eru óstaðfest og vitanlega engin rök í málinu.

En valdaójafnvægið finnst mér skipta máli, margfræg tilvitnun í Svein Andra Sveinsson um að áróðursmaskína VG hafi búið til þetta mál er hluti af því ójafnvægi. Mér finnst eðlilegt að femínistar eða aðrir þeir þátttakendur í almennri umræðu sem vilja standa bakvið stúlkuna og sýna henni að hún njóti stuðnings, geri það með opinberum hætti. Við erum kannski ósammála um það, við erum að sjálfsögðu ósammála um allskonar hluti og almennt nenni ég voðalega lítið að ræða þá við þig. Ég les þig, þú lest mig og yfirleitt vil ég gjarnan láta þar við sitja.

En í þessu tilfelli langar mig að þú veltir fyrir þér og segir mér hvort þér þyki eðlilegt að ég kjósi að trúa því að maðurinn sé sekur, þar til annað kemur í ljós, á þeim forsendum (fyrir utan allar opinberu forsendurnar sem eru á allra vitorði, granítharðan í bílskúrinn etc.) að ég hef sjálf orðið fyrir grófri kynferðislegri áreitni frá manninum og varð vitni að því til lengri tíma hvernig hann kom fram við konur - handahófskennt dæmi: að taka þátt í veðmáli á vinnustað um hver strákanna verði fyrstur til að negla nýju stelpuna.

Ég var nefnilega í vafa um það til að byrja með hvort mín reynsla ætti að spila inn í skoðunina sem ég hef á málinu. En eftir að hafa rifjað þetta upp og minnt sjálfa mig á hvað þetta var ógeðslega niðurlægjandi og hvernig kúltúrinn sem ég var stödd í á þeim tíma var hreinlega mannskemmandi og ógeðslegur, sem ég áttaði mig ekki á fyrr en eftir á, þá komst ég bara að þeirri niðurstöðu að það væri ekkert eðlilegra en að reynsla mín mótaði að hluta til afstöðu mína til málsins.

Það er ekki hægt að ætlast til þess að fólk taki enga afstöðu, allir munu alltaf taka afstöðu í svona málum. Það gildir ekkert síður um þetta mál en útrásarvíkinga eða barnaníðinga eða handrukkara. Og í ljósi þess hvað sönnunarbyrðin er erfið og að fæst mál fara yfirhöfuð fyrir dómstóla, þá eru mjög litlar líkur á að það fáist nokkur botn í þetta mál. Sennilega verður það útkljáð á einn eða annan hátt í fjölmiðlum (ég sé fyrir mér tárvotan leikfimiskennara á forsíðu DV að ræða hvernig hann lét af kynferðislega ólifnaðinum (og hann mun ekki minnast á ofbeldi) eftir að hann sagði skilið við kókaínið og sterana) þangað til það fellur í gleymsku.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Þessi tilvitnun í Svein Andra, sem ég sá í fyrsta skipti rétt áðan, er viðbjóður. En get ekki samþykkt að þar glitti í völd sem beri að jafna – eða jafnvel trompa. Slúður og rógur er ekki, og má ekki vera að mínu mati, vettvangur sem maður reynir að sölsa undir sig. Maður á einmitt að reyna að fjarlægjast hann og berjast gegn því að slíkt hafi áhrif – ekki aðeins að reyna að láta það hafa áhrif í rétta átt.

Hafi menn persónulega reynslu af framkomu manna sem sakaðir eru um glæpi sé ég ekkert að því í sjálfu sér að við svona tækifæri sé sú reynsla rædd. Það getur verið heilmikill léttir að einhver hafi loks verið opinberaður sem eitthvað sem maður hefur vitað lengi.

Það er himinn og haf á milli þess að segjast hafa slíka reynslu og þess að segja að „sakleysisteglan“ sé klisja eða að tölfræði dugi til að taka afstöðu með eða á móti fólki í sakamálum. Afstaða þarf að byggja á einhverju haldbærara en það. Helst persónulegri reynslu en síðan er það dómstóla að taka afstöðu til sannindamerkja.

En þar fyrri utan tel ég að það þurfi ekki afstöðu til að gera tvennt: Í fyrsta lagi unda þeim brotlega þess að njóta réttarverndar og ákveðinnar friðhelgi og hinsvegar að sýna fórnarlambinu samúð og hluttekningu. Það hefur enginn glatað neinu sem styður og hjálpar nauðgunarfórnarlambi – þótt það væri að ljúga. Við þurfum ekki sönnunargögn til þess að styðja og hjálpa. En sá stuðningur á að vera faglegur og veittur af aðilum sem hafa vit og þekkingu á því sem þeir eru að gera – ekki misgáfulegar stuðningsyfirlýsingar út í loftið.

Einar Karl Friðriksson sagði...

"Saklaus uns sekt er sönnuð" ER grundvallarregla réttarríkisins og dómskerfis okkar. En hún er EKKI algild og altæk regla um samskipti og skoðanamyndun í okkar samfélagi, og GETUR EKKI orðið það.

Ef sú væri raunin, myndum við segja að Ólafur Skúlason sé blásaklaus af öllu því sem á hann hefur verið borið, allir útrásarvíkingar alsaklausir um nokkurn skapaðan hlut, Anders Breivik blásaklaus, os.fr.?

Þetta er drulluerfitt mál, þegar þekkt opinber persóna er ásökuð um gróft brot. En felst ekki ákveðin AFSTAÐA í því að bara láta þættina hans rúlla áfram, hlusta á kappann í útvarpinu, hlæja að bröndurum? Erum við þá að loka eyrunum fyrir ásökunum á hendur honum, og eru það RÉTT viðbrögð?

Ég er ekki að segja að ég viti svarið.

Búum til dæmi, segjum að ung aðstoðarkona myndi kæra Steingrím J. Sigfússon fyrir nauðgun. Ættum við bara að kyrja öll í kór "saklaus uns er sekt er sönnuð" og gera EKKI NEITT, breyta engu, horfa á hann kvöld eftir kvöld í sjónvarpinu og segja bara "Það hefur EKKERT breyst - maðurinn er saklaus þar til sekt er sönnuð!"

Ég er alls ekki segja að við dæmum einn eða neinn fyrirfram, en kappinn þarf kannski að stíga til hliðar og/eða segja okkur hvað gerðist. Við getum ekki EKKI tekið neina afstöðu OG hlegið að honum áfram.

Reyndi að koma vangaveltum í þessa veru skipulega frá mér í pistli: "Er sonur minn nauðgari?

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Ég las pistlinn þinn, Einar. Hann er góður.

Vissulega er erfitt að taka afstöðu – eða hreinlega haga sér þegar svona ásakanir koma fram. En það er himin og haf á milli þess að vera óöruggur um hvernig eigi að koma fram og hins – að taka massíva afstöðu út frá ógrunduðum skoðunum eða tölfræði. Það að lýsa stuðningi við einhvern þegar maður hefur í raun engar forsendur er galið.

Hildur Lilliendahl sagði...

Ég veit ekki, þótt maður lýsi yfir stuðningi við stúlkuna, er maður þar með að gera því skóna að hún hafi upplifað hlutina á sama hátt og Egill eða að gera því skóna að hann sé sekur?