23. nóvember 2011

Það sem við kennarar viljum ekki að þið vitið

Opinber skólastefna á Íslandi er sökkvandi skip. Menn eru hættir að dásama hana á tyllidögum. Meira að segja á Titanic struku menn fiðlustrengina þar til þeir urðu blautir á tánum. Á íslenska skólastefnuskipinu er þögn. Vandræðaleg þögn.Það eru nokkrir mánuðir síðan ég fékk af því flugufregnir að ný, risastór rannsókn á starfsháttum í grunnskólum sýndi miður glæsilega niðurstöðu þegar kæmi að framkvæmd skólastefnunnar. Raunar væru niðurstöðurnar eiginlega ekkert annað en ömurlegar.

Um síðustu helgi, þar sem fyrstu niðurstöður voru kynntar var minn versti grunur staðfestur. Og þótt þetta væru bara fyrstu niðurstöður og enn eigi eftir að rannsaka miklu meira og rýna betur í bakgrunnsupplýsingar og breytur þá blasti við okkur öllum sem mættum á ráðstefnuna hinn ægilegi sannleikur.

Íslenskir kennarar eru búnir að gefast upp á hinni opinberu skólastefnu og hafa ekki lengur áhuga á að framfylgja henni.

Hin opinbera skólastefna felst í því að hvert barn, óháð því hvar það situr á hinum og þessum  normalkúrfum, eigi rétt á því að fá nám við hæfi og tilheyra samfélagi með öðrum börnum á svipuðu reki. Það sé með öðrum orðum liðin tíð að stærsti sameiginlegi nefnarinn ráði för í skólakerfinu, allt sé miðað við hann. Og að frávikum sé raðaða saman eftir sérkennum í lokuðum hólfum.

Skóli án aðgreiningar er ekki ný hugmynd. Henni er stefnt gegn þeirri hómópatísku gervivísindahugmynd að líkt lækni líkt. Þeirri hugsunarvillu að best sé að flokka fólk eftir sameiginlegum, yfirborðskenndum eiginleikum. Hún felst í þeirri hugsjón að samfélagið skuli tilheyra okkur öllum – þótt við séum ólík.Í stuttu máli virðist opinbera skólastefnan Skóli án aðgreiningar aðeins hafa skilað vélrænu afgreiðslukerfi fyrir börn, og sérkerfi fyrir þau sem valda kerfisvanda. Ráðist var að „rót“ vanda þeirra barna sem ekki náðu viðunandi árangri eða ekki voru til friðs með greiningar- og gátlistum. Sem gjarnan voru fullir af spurningum eins og þeirri hvort barnið ætti erfitt með að bíða eftir að röðin kæmi að því eða hvort það ætti erfitt með að sitja kyrrt.

Öll þau ár sem ég hef starfað sem kennari man ég aldrei eftir því að hafa fengið gátlista um þá kennsluhætti sem barninu var boðið upp á. Ég var aldrei spurður hvort gerð væri meiri eða minni krafa um kyrrsetur og þagnir. Aldrei var athugað hvort vinnuaðferðir væru hugsanlega einhæfar eða skólaumhverfið heftandi.

Og foreldrarnir sem dauðskömmuðust sín fyrir að hafa eignast „erfitt“ barn þorðu sjaldnast að efast um starfsaðferðir skólans eða spyrja um frammistöðu kennarans af ótta við að slík leiðindi væru talin til marks um arfgengan kvilla – sem nú gengi aftur í barninu.

Barnið fékk því lyf. Kennarinn fékk skýrslu. Skýrslan endaði á nokkrum hugmyndum um hvernig hægt væri að sinna „svona“ börnum. En svo hélt lífið áfram.

Ég kenndi einu sinni dreng sem var á slíkum lyfjum. Einu sinni þegar skólabróðir hans var að gista hjá honum sá hann hvar drengurinn þóttist kyngja töflunni en hrækti henni svo út úr sér. Sá sem varð vitni að þessu spurði hissa hvað hinn væri eiginlega að gera. Sá svaraði að hann væri að fara í hlaup í íþróttum og hann hlypi hægar þegar hann tæki lyfin. Sami drengur, komst ég síðar að, stundaði það að „taka sig af lyfjunum“ með þessum hætti þegar til stóð að fara í gönguferðir eða hjólatúra þar sem hann þurfti á allri sinni orku að halda.

Að hugsa sér. Þá daga sem skólinn veitti honum útrás fyrir hreyfiþörfina þurfti hann ekki lyf. Þvert á móti þvældust þau fyrir.

Hvað fyndist okkur um það ef góðu, bókelsku börnin sem alltaf standa sig vel væru sett á amfetamínskyld lyf vegna þess að þau eru svoddan gufur í leikfimi. Og leikfimikennarar og menntakerfið væri búið að fá sig fullsatt af því að það tæki barnið 3 mínútur að hlaupa 400 metrana.

Við myndum ekki einu sinni hugleiða slíkar lausnir. Vitandi það að það hvort barn fer 400 metra leið á 1 mínútu eða 3 er ekki grundvallaratriði í farsæld þess og framtíðarlífi.

KF NÖRD á góðri stundu


Það sem við sum höfum ekki áttað okkur á er að hið sama gildir líka um annað nám. Það skiptir ekki máli hvort barn er eitt ár eða þrjú að læra grunnatriði algebru.

Nema...

...við höfum hannað skólakerfi sem treystir á það að allir læri það sama á sama tíma. Þá fara hægfarabörnin að þvælast fyrir og þeim hraðskreiðu fer að leiðast.

Og...

...ein niðurstaða rannsóknar á skólastarfi bendir til þess að meirihluti allra barna á Íslandi sé enn undir lítt sveigjanlegu framkvæmdavaldi kennarans. Og að oftar en ekki mætir nemandinn í skólann til að láta mata sig í þrjátíu manna hópi þar sem einn kennari stendur í stafni og kennir öllum það sama á sama tíma – eða réttir börnum bækur og lætur þau kenna sér sjálf. Og öll fá þau meira og minna sömu bókina sem á að vera á sömu blaðsíðu.

Þið fyrirgefið, en þetta er svolítið eins og að vera enn að hlaupa með sendibréf á milli bæja í stórri sveit þótt það sé kominn sími.

Tæknin hefur fyrir löngu gert okkur kleift að einstaklingsmiða nám.

En jafnvel þar sem tæknin er ekki til staðar eru margar leiðir til að einstaklingsmiða nám.  Það eru margar leiðir til að búa til skóla án aðgreiningar.

Það eina sem ekki er hægt að gera er að ætla öllum að vera svotil eins. Það gengur ekki, hefur ekki gengið og mun ekki ganga.

Menn láta stundum eins og það sé eitthvað nýtilkomið að til séu „fráviksbörn“ og að í gamla daga hafi flest fólk getað svipaða hluti. Það sé bara tómt eftirlæti að ætla að breyta kerfinu til að rúma börn sem þurfi fyrst og fremst að læra að haga sér.

Þegar háskólar voru opnaðir konum fylgdi því undarleg aukaverkun. Í framhaldinu fæddust sífellt fleiri börn sem urðu einhverf. Á tímabili röktu menn þessa aukningu til bólusetninga. En raunin mun vera sú að ástæðan var eiginlega fyrst og fremst sú að afburðagreindir karlar voru farnir að ná sér í konur og eignast börn. Þessir sömu karlar höfðu öldum saman verið í hálfgerðum karlabúrum inni í háskólunum þar sem fáar konur sýndu þeim áhuga og þeirra eina kynferðislega dægradvöl var að fróa sér eða hommast. En hommar hafa lengi riðið röftum í háskólakerfinu – enda bendir ekkert til annars en að gáfað fólk hafi kynhvöt eins og annað fólk – þótt leiðir til útrásar (og þar með fjölgunar) hafi ekki alltaf staðið galopnar.
En sumsé. Gáfuðu konurnar fengu loks að fara í skóla til gáfuðu karlanna og þau eignuðust saman einhverf börn. Aukning einhverfu stafar að einhverju leyti af því að menntafólk er farið að fjölga sér (þetta sama fólk var líklegra til að láta bólusetja börnin sín og þaðan mun misskilningurinn um tengsl bóluefna og einhverfu hafa sprottið).

Þessi tengsl milli afburðagreindar og einhverfu hafa varpað upp áhugaverðum spurningum á borð við þær hvort mælikvarði á greind hafi verið of þröngt strikaður. Hvort það sem álitið hafi verið yfirburðir hafi aðeins verið það á mjög þröngu og afmörkuðu sviði en jafnframt verið einkenni sérvisku eða jafnvel meingallaðrar persónugerðar. Að það sem talið var kostur – reyndist vera galli þegar kerfinu var breytt.

Hefðu menn haldið sig við skrifleg próf og rökfærsluritgerðir hefði aldrei reynt á gallann. Hefðu konur áfram verið kúgaðar og haldið skipulega frá námi kynni gallinn heldur aldrei að hafa uppgötvast. En það var aðeins innan þessa verndaða og ómanneskjulega umhverfis háskólalífsins sem gallinn var ósýnilegur.

Og mig grunar ansi sterklega að mörg af þeim börnum sem á Íslandi teljast „gölluð“ séu á sama hátt aðeins gölluð þegar þau eru skoðuð innan þess þrönga ramma sem skólasamfélagið setur þeim. Að þótt gallinn sé berlega ljós þegar börnin megna ekki að sitja kyrr og snúa að töflunni tímunum saman eða þegja þá sé mun auðveldara að breyta kerfinu en börnunum.

Því á sama hátt og konur áttu fullt erindi í háskóla – þá eiga öll börn (að mínu mati) erindi í grunnskóla.

Og þau eiga erindi í venjulegan grunnskóla. Ekki einhvern sérhannaðan til að aðstoða „erfið börn.“

Það á síðan að vera verkefni starfsfólksins í skólanum að sjá til þess að skólinn geri sitt besta til að laga sig að hverju barni. Það getur verið strembið verk. En það er hægt. Þó ekki án þess að hugsað sé út fyrir þann kassa sem skólaborðið er og kennslustofan.

Og starfsfólkið í skólunum þarf að standa í öndvegi í baráttu fyrir þessi börn og krefjast þess að þannig sé búið að þeim að þau þrífist innan skólans eins og önnur börn. Og starfsfólkinu þarf að þykja vænt um þau eins og önnur börn og finnast mikilvægt að skólinn sinni þeim og þau fái að vera þátttakendur í skólasamfélaginu.

En þannig er það ekki.

Áralöng vanræksla á þessu verkefni hefur orðið til þess að kennararnir hafa misst trúna. Þeir eru við það að gefast upp. Og það sem verst er, þeim finnst ekki einu sinni mikilvægt að reyna. Það er bara vesen. Þetta er ekki til neins.


Helmingur kennara er áhugalaus eða á móti því að skólinn sé opinn öllum börnum. 

Þessi helmingur sem búinn er að gefast upp vill börnunum áreiðanlega ekkert illt. Hann telur einfaldlega ekki mikilvægt að framfylgja opinberri skólastefnu.

Og þegar annar hver kennari telur verkefnið ekki mikilvægt þá er hreinlega útilokað að það takist.

Við kennarar erum oft furðu hörundsárir. Það má ekki tala illa um okkur. Við verðum alveg brjáluð. Við teljum okkur gera fjandakornið nóg fyrir þessi lélegu laun.

En við þurfum að horfast í augu við það að þetta er ekki boðlegt. Það er ömurlegt að fagstétt skuli ekki hafa meiri metnað eða hugmyndafræðilega sýn en svo að það sé bara ókei að finnast það ekki mikilvægt að barn fái að fara í skólann sinn.

Þetta er skandall. Stór skandall. Og kennarar geta ekki vísað á aðra og kennt þeim um þessa niðurstöðu. 

Það er örugglega rétt að kennarinn treysti sér illa til að framfylgja stefnunni við þær aðstæður sem skapaðar eru. Það er örugglega líka rétt að einstakir kennarar upplifa sig vanmáttuga gegn slælegri alhliða framkvæmd hugmyndafræðinnar. 

Hvað ef helmingur lækna lýsti því yfir að það væri ekki mikilvægt að fólk fengi læknishjálp í heimabyggð? Myndi fólk áfellast Heilbrigðisráðherrann eða Fjárlaganefnd? Nei. Við myndum móðgast og tala um vanhæfa og áhugalausa lækna. 

En af hverju erum við ekki að tala um þetta? Af hverju erum við kennarar ekki að segja eitthvað? Gera eitthvað? Skoða hverju megi breyta?

Hversu lengi ætlum við að totta dúsur sem innihalda ekkert nema hálftuggnar afsakanir og hálfvelgjur? 

Það er kreppa í skólakerfinu og hún snýst ekki bara um peninga. Og hún verður ekki bara leyst með peningum.

Það sem fyrst og fremst kreppir er kerfi sem viðheldur vanda í stað þess að leysa hann.

2 ummæli:

Torfi Stefán sagði...

Sæll Ragnar

Ég komst ekki á þennan fund hjá Skólaþróun en yfirskriftin lofaði góðu. Eftir farandi spurningar eru ekki gagnrýni heldur meira bara opnar spurningar. Hvernig ertu að sjá fyrir þér lausnina? Eigum við að slíta upp bekkjar/árgangakerfið og taka upp opnara skólakerfi. Einn kosturinn við árgangakerfið hefur verið sá að það sé gott fyrir sambærilega aldurshópa að haldast í hendur að það skipti í raun máli fyrir sjálfsmyn krakka að vera samferða öðrum eins í námi. Kannski eru þær tilgátur/rannsóknir ekki réttar. Kannski er gert of mikið úr því að nemendur þurfi að vera jafnaldra.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

http://maurildi.blogspot.com/2011/11/er-upplysingatkni-leiin-ut-ur-ogongunum.html

Takk fyrir spurningarnar, Torfi.

Ég vona að þetta svari einhverjum þeirra.