22. nóvember 2011

Bjórrýni bindindismanns

Ein af ástæðum þess að ég er harður stuðningsmaður frelsis (sérstaklega málfrelsis) hefur hugsanlega eitthvað með það að gera að ég hef, frá því ég var mjög ungur, tamið mér næstum þórbergst dyggðalíferni. Þegar ég var unglingur hætti ég að borða nammi, drekka gos – og sletta. Í meira en ár var allt sem ég sagði hrein og tær gullaldaríslenska (ég vissi a.m.k. ekki betur). Frá upphafi tók ég líka konur mjög alvarlega. Svo alvarlega að ég ákvað þegar ég var vandræðalega ungur að ég ætlaði bara að sofa hjá konum sem ég treysti til að ala upp barn með mér ef svo „illa“ vildi til. Mér tókst furðuvel að lifa eftir þessum boðorðum mínum. Ég ætlaði ennfremur að vera heiðarlegur, sanngjarn og tileinka mér lifnaðarhætti í anda þess fólks sem hafði vakið aðdáun mína og virðingu þegar ég var barn.

Það gefur auga leið að ég er fyrir löngu búinn að uppgötva að allir mínir dyggðaturnar eru byggðir á breyskum grunni. En ég reyni samt. Og ég held ég muni alltaf reyna. Það veitir mér einhverja djúpa sælu að vita að ég hef breytt rétt í máli sem skiptir mig miklu.

Að því sögðu hef ég gefið mér víðan völl til að syndga á. Hlæja að ljótum húmor, þrasa og rökræða þar til fólk langar að kýla mig og haga mér á allan hátt úr takti við væntingar og óskir samferðamannanna. En aðeins þegar kemur að smámunum. Eða munum sem ég met sem smáa.

Ég hef aldri reykt. Aldrei drukkið. Aldrei neytt neinna ólöglegra efna. Aldrei drukkið kaffi. Fyrst var þetta þrjóska. Smám saman kom ég mér upp lífsreglu: Ég skyldi vega og meta hvern hlut á tveim skálum: skál þess sem horfir yfirvegað á hann utanfrá og hins sem horfir innan frá. Ef ósamræmið væri hróplegt – þá segði ég pass.

Þegar maður sér smábarn hlæja fer maður sjálfur að hlæja. Upplifunin er jafn fögur utanfrá séð og innanfrá. En mjög drukkið fólk upp á sitt „besta“ vekur manni aðeins vorkunn og viðbjóð – á sama tíma og það sjálft gengst upp í eigin ágæti.

Fyrir mér er það merki um blekkingu – og hreina gerviþörf. Dáleiðandi heimsku.

En smám saman hef ég lært að áfellast ekki þá sem kjósa að lifa öðruvísi. Eða réttara sagt að horfa ekki á þá með yfirlæti þess sem höndlað hefur sannleikann. Mitt val virkar fyrir mig af því það var ég sem valdi – óþvingaður og af frjálsum hug. Dyggðin er ekki til komin af ákvörðuninni – heldur leiðinni að henni. Þess vegna vil ég ekki neyða fólk með höftum eða áróðri til að velja eins. Það er þá aðeins dyggð að stela ekki hafi maður raunverulegt tækifæri til að stela.

Og jafn kjánalegt og það er hjá mér bindindismanninum, sem er þeirrar skoðunar að drykkjumenning þjóðarinnar sé ekki aðeins lágkúruleg heldur tilkomin af tómri helvítis andlegri leti, að fyrir mér byrjar aðventan þegar vinur minn og samstarfsmaður (sem er drykkfelldur í meira lagi) skrifar sína árlegu Jólabjórrýni.

Ég drekk í mig textann og smjatta á lýsingarorðunum. Mér finnst notalegt að finna keiminn sem leggst yfir þegar hann hittir á góðan bjór. Og ég verð fúll út í framleiðendur þess vonda.

Eins og miðaldra bókasafnskerling les í sig morðlýsingar af ákefð svolgra ég í mig bjórrýninni – og svo má aðventan byrja.

Menn hafa nefnilega hæfileikann til að glæða jafnvel ljótleikann fegurð. Og það er mér hollara að horfa á fegurðina.

Believe in
the Good
in the World

...segir ein klisjukennd tilvísunin. Sem síðan er gjarnan hókuspókusuð í þetta:

 Believe in
the Good
in the World


Besta lexía mín í lífinu var að fatta að það var meiri viska í þessu upprunalega.

En hér er bjórrýnin.

Skál!


Jólabjórinn 2011
by Björn Gunnlaugsson on Monday, November 21, 2011 at 10:46pm
Rétt er að byrja á því að taka fram að þar til fyrir fáeinum dögum ætlaði ég ekki að skrifa bjór-rýni fyrir þessi jól. Ástæðan er einföld: ég var búinn að smakka tvær tegundir og var handviss um að nákvæmlega engin breyting hefði orðið frá síðustu aðventu.

Fyrst varð ég var við stórundarlega markaðssetningu á hinum danska Tuborg jólabjór. Hann átti að koma á den danske kro með mikilli flugeldasýningu föstudaginn 4. nóvember og þann dag – áður en menn fengju að bragða herlegheitin – bauð kráin upp á ókeypis bjór.

Hversu vondur er jólabjórinn ef þú þarft að vera búinn að hella í þig venjulegum bjór allan daginn áður en þú smakkar?

Ég mætti líka á danska þetta kvöld og fékk mér einn. Takið eftir því. Ég fór á bar á föstudagskvöldi og fékk mér EINN jólabjór. Eftir að hafa þrælað honum í mig langaði mig bara heim.

Því næst tók ég mig til þegar Viking jólabjór var kominn í vínbúðina og keypti nokkrar dósir. Sá bjór er ekkert sérstakur og þar með hélt ég að niðurstaðan væri komin: jólabjórinn í ár er eins og jólabjórinn í fyrra – og allt of víða mjög vondur ef honum er dælt af krana.

En svo sá ég einn nýjan sem var ekki á markaðnum síðasta ár og ég ákvað að prófa. Sú bjórtegund nefnist Einstök og verður fyrst í hinni árlegu jólabjór-rýni Feitabjarnar.

Einstök: Namminamm! Minnir á rándýran flugeld á gamlárskvöld sem springur í þremur litum með löngu millibili. Fyrst er hann sætur eins og maltöl, svo kemur skrítinn kryddkeimur og loks eitthvað sem minnir á einiber. Flottur við öll tækifæri á þessari aðventu – með matnum, í starfsmannapartíið og til að róa þreyttar taugar á Þorláksmessukvöld. Svo er hann heil 6.7% án þess að maður finni það á bragðinu.
Fimm stjörnur.
Föroya Bjór Jólabryggj: Nú er kenningin mín endanlega afsönnuð því ég man vel hvað mér fannst bjórinn frá frændum okkar í Austfjarðaþokunni mikið dæmalaust ógeð í fyrra. Nú er hann bara fínn. Einfaldur, soldið fyrirsjáanlegur en bragðgóður og rennur ljúft niður. Svo er alltaf jafn gaman að lesa á miðann, en þar stendur að þennan bjór skuli maður drekka ef maður fær sér “ræstan fisk og sperðil.”
Þrjár og hálf stjarna.
Ölvisholt Jólabjór: Hér er eitthvað sem ekki gengur alveg upp. Ölvisholt kom sterkt inn í fyrra en þessi bjór finnst mér ekki góður.  Lopapeysuklæddir 101-bóhemar eru eflaust ósammála því það þykir svo gasalega hipp og kúl að drekka svona míkróbrugg en það er ekki nóg að henda negul og kanil út í bjór. Það getur gert vont rauðvín að ágætu jólaglöggi (úú! Mental note to self: kaupa negul, kanil og vont rauðvín) en það gerir ekki hversdagslegan bjór að jólabjór. Frat!
Ein og hálf stjarna.
Royal Xmas (hvítur): Ekki batnar það. Ein afleiðing hins svokallað “hruns” á Íslandi hefur verið sú að jólabjór selst upp löngu fyrir jól. Það mun vera vegna þess að færri fyrirtæki halda jólahlaðborðin sín erlendis. Þrátt fyrir þetta hafa jólabjórtegundirnar tvær frá Royal aldrei selst upp, því jafnvel fátækustu Íslendingar vilji frekar sleppa því að fá sér jólabjór en að drekka þetta sull. Á dósinni stendur að Danir hafi notið þessa öls síðan 1969 en bragðið fær mig frekar til að hugsa um að fara í 69 með 69 ára gömlum Dana.
Hálf stjarna.
Royal Xmas (blár): Oj. Þessi er jafnvel enn verri. Á dósinni er einhver frasi um “dýpt og karakter” sem á sennilega að höfða til þeirra sem telja sig einhvers konar lífskúnstnera. Þessi bjór angar hins vegar alveg af misheppnuðu fylleríi og eina dýptin er sú hversu langt ofan í klósettskálina höfuðið kemst morguninn eftir. Hundvondur og ég geri nú það sem ég geri næstum aldrei í lífinu: ég helli þessum bræðrum í vaskinn ókláruðum.
Núll stjörnur.
Albani Julebryg: Hvað er í gangi eiginlega?? Ég var búinn að skipuleggja röð bjóra miðað við ákveðnar væntingar og núna átti ég að öðlast trú á mannkynið á nýjan leik. Albani heitir þessi bjór og bragðast eins og ... Albani! Og þá er ég ekki að tala um ungfrú Kosovo, heldur gæti þessi bjór átt við í subbulegu jólahlaðborði þar sem þú reynir við ræstitækninn og vaknar svo næsta morgun buxnalaus inni í kústaskáp og þarft að drífa þig í klamydíutjekk.
Ein stjarna.
Tuborg Julebryg (í dós): Aaaahhhh, þetta var betra! Tuborg klikkar sjaldan og státar örugglega af jafnbesta árangrinum í framleiðslu jólabjórs undanfarin ár. Að því sögðu þá er svosem ekkert sérstaklega spennandi við hann að þessu sinni. Hann gerir bara það sem jólabjór á að gera.  Hann er í sætari kantinum, eftirbragð lítið og svona kannski full ljúfur til að geta talist í sérflokki.
Hann er reyndar efalítið betri í gleri, að minnsta kosti ef tekið er mið af því hvað hann er afspyrnuvondur á krana.
Fjórar stjörnur
Viking jólabjór: Hér veit maður að hverju maður gengur. Í gegnum árin hef ég keypt langmest af þessum jólabjór á aðventunni, en það er líka bara vegna þess að ég vil helst geta fengið mér stóran bjór í dós þegar mér dettur í hug og nenni ekki að eltast við exótíska flöskubjóra til heimabrúks. Ég prófaði þennan á krana á Ölveri og hann var bara allt í lagi. Mér segir svo hugur að það verði keyptar nokkrar kippurnar af Viking vikurnar fyrir jólin en til hátíðabrigða muni maður velja eitthvað annað.
Þrjár stjörnur.
Egils JólaGull: Þessi er nýr í ár og ég veit ekki hvort hann kemur í staðinn fyrir hinn hefðbundna Egils jólabjór en sá allavega engan slíkan í ríkinu. Ég er einn þeirra sem finnst Egils Gull alveg stórkostlega vondur bjór og var því búinn að setja mig í stellingar að þetta væri eitthvað disaster, en... Hann er nánast fullkomlega bragðlaus. Samt stendur á flöskunni að hann sé bragðbættur með lakkrís. Það kæmi mér ekki á óvart þótt þessi bjór rokseldist nú fyrir jólin, miðað við á hvaða plani áfengismenning þjóðarinnar er oft. Ónefndur vinur minn og vinnufélagi hefur ákveðnar skoðanir á kynhegðun einhleypra Íslendinga, sem gengur að því er virðist út á að stunda sem mest kynlíf með sem flestum ókunnugum og í ástandi sem er til þess fallið að skilja lítið eftir annað en í besta falli núningssár. Þessi bjór er fullkominn fyrir slíkt fólk.
Ein og hálf stjarna. Viking JólaBock: Jæja, án þess að finna til minnsta tvískinnungs ætla ég þá að snúa mér að því að hrauna yfir þá sem þykjast hafa vit á bjór. Viking JólaBock er bjór fyrir fólk sem vill að aðrir haldi að þeir séu “connoisseur” á bjór. Allt yfirbragðið öskrar á mann að svona drekkur enginn nema snobbhænsn. Þetta byrjar á miðanum: Viking JólaBock er bruggaður í stíl hefðbundinna Bock bjóra. Hver veit hvað það þýðir?Í fyrra var þetta valinn besti bjór ársins í DV og seldist upp á nóinu. Þeir hjá Viking hafa látið skynsemina ráða að þessu sinni því bjórinn er öllu meinlausari í ár, ekki eins bragðsterkur og höfðar örugglega til fleiri. En hann er góður, það má hann eiga, eins og hefðbundnir Bock bjórar eru oftast.
Þrjár stjörnur. Stekkjarstaur: Hér er aftur á móti á ferðinni bjór sem púllar þetta. Hann er dökkur, ögrandi, öðruvísi og margslunginn. Stöngin inn og mig langar strax í annan. Þessi verður alveg örugglega á borðum á jóladag heima hjá mömmu til að skola niður hangikjötinu. Það er ekki ólíklegt heldur að hann virki ágætlega í samfloti með Álaborgar ákavíti ársins.
Fjórar og hálf stjarna. Harboe Julebryg: Þennan bjór tæki maður með sér á jólahlaðborðið í vinnunni en hann er ekki sérlega spennandi þegar hátíð er í bæ. Í rauninni er tiltölulega fátt jólalegt við hann. Maður gæti alveg sturtað nokkrum svona í sig í réttum félagsskap, svo það fer eftir vinnustaðnum hvað maður þorir að fá sér marga. Maður gæti alveg lent í að vakna við hliðina á Siggu á borði tuttugu og tvö.
Tvær og hálf stjarna.
Egils Malt Jólabjór: Það var ekki að ástæðulausu sem ég hafði þennan síðastan í röðinni því maltið klikkar aldrei.  Aðeins meiri beiskja í eftirbragðinu en maður er vanur og þetta er ekki bjór sem maður drekkur í lítravís frekar en fyrri daginn. Frekar svona sá sem maður laumast í rétt fyrir svefninn þegar kafaldsbylur hylur hæð og lægð. Enda held ég að nú sé kominn háttatími, skál og gleðilega aðventu.
Fjórar stjörnur.

 


1 ummæli:

Óli Sindri sagði...

Ætlar maðurinn ekki að dæma bland af appelsíni og Guinness? Því það er besti jòlabjórinn by far.