26. nóvember 2011

Er upplýsingatækni leiðin út úr ógöngunum?

Í síðasta pistli benti ég á að helmingur kennara hefur trú eða áhuga á menntastefnu landsins. Þeirri að skólinn skuli standa öllum börnum opinn.

Það kemur fyrst og fremst til af því að innleiðing hugarfars- og starfsháttabreytinga hefur verið ömurleg. Hafa þar allir staðið í vegi hver fyrir öðrum.

Raunin er sú að við erum enn að stærstu leyti að reka menntakerfi 19. aldarinnar. Stórir hópar af börnum sitja í litlum rýmum og snúa allir í átt að töflu – og einn kennari reynir að kenna þeim mola úr þekkingarforða mannkyns.

Einu sinni þegar ég tók við bekk þá gaf ég vinnuálag frjálst í sex vikur. Allir nemendur höfðu aðgang að sömu verkefnunum og réðu hvort þeir unnu þau og hve mörg. Í upphafi tóku allir stórt próf úr öllu efninu og hið sama gerðist að sex vikum liðnum. Hér má sjá tengsl ástundunar og árangurs.



Af þessu má glögglega sjá ákveðna tilhneigingu í þá átt að vinnusemi hefur áhrif á árangur. Það mótar fyrir línu horn í horn á myndinni. En það er ekki fullkomin fylgni.

Hæstu nemendurnir skiptast gróflega í tvo jafn stóra flokka.  Þá sem lögðu mikið á sig og þá sem lögðu lítið sem ekkert á sig. 

Þegar ég greindi muninn á þessum flokkum sá ég að í neðri flokknum voru fleiri strákar en stelpur. Og að auki kom í ljós að þegar þeir tóku stór próf með nokkru millibili þá voru framfarir þeirra mælanlega minni. Smátt og smátt fer nefnilega að skilja á milli þessara hópa – og það er skýringin á lélegri árangri drengja í skóla en stúlkna. Námsgetan er fyllilega sú sama en metnaðurinn og iðnin er minni. Lengi vel hanga drengirnir í skottinu á stelpunum með því að reiða sig á sjálfstraust og sjálfstæði en smátt og smátt hættir það að duga til.

Á myndinni sjást líka áberandi tveir einstaklingar sem uppskera ekki í hlutfalli við það sem þeir sá. Þeir svífa langt yfir öðrum með sambærilegan árangur. Skoðun leiddi í ljós að þarna var ástæða til að  skoða hvort um væri að ræða lesblindu eða aðra röskun.

Eins má sjá að á myndinni eru fjórir einstaklingar sem líklega eru búnir að gefast upp fyrir þessu fagi.

Loks sést hvernig meðaljóninn raðar sér um miðbikið.

Sex vikum eftir að ég tók við þessum bekk var ég semsagt búinn að greina eftirfarandi: Samband milli ástundunar og árangurs, uppgjöf, námsröskun, metnaðarleysi og í raun töluvert margt fleira sem ég dundaði mér við að lesa úr þessari mynd. Ég gat í framhaldinu leyft mér að undirbúa viðbragðsáætlun vegna þeirra hópa sem skáru sig úr. Ég gat reynt að glæða hópinn sem búinn var að gefast upp eða var of „kokkí“ til að leggja sig fram. Ég gat talað við umsjónarkennara þeirra sem ekki uppskáru þrátt fyrir vinnu. Við skoðuðum fyrst námstækni og vinnubrögð – og þegar við sáum að þau voru mjög góð tókum við eftir því að skýr einkenni um lesblindu voru til staðar. Raunar hafði umsjónarkennarinn í öðru tilfellinu þegar tekið eftir því og rætt við foreldrana – sem voru himinlifandi því þeir höfðu sjálfir haft grun um það en verið sannfærð af fyrri kennara um að ekkert væri athugavert.

Fyrsta skref mitt til að stuða þá sem lágu við botninn í vinnusemi í gang var að nemendur fengu ekki hefðbunda einkunn úr prófunum. Þeir fengu framfaratölu. 



Námsmatið, sem var símat sem ekki var beinreiknað inn í einkunn heldur einskært stöðumat, sýndi nemandanum framfarir hans á tímabilinu og árangur í öðrum verkefnum. Þá var vinnusemi hans skoðuð miðað við hópinn (þ.e. hvort hann væri að leggja á sig meira eða minna en aðrir).



Loks gat ég látið nemandann fá mynd af stöðu sinni í einstökum efnisþáttum. Þá stöðu notaði hann síðan til að áforma á sig verkefni í faginu næstu sex vikur þar til hann tók enn einu sinni próf úr öllu efni árgangsins.


Þetta er einstaklingsmiðað nám. Munurinn á þessu og hinu hefðbundna námi er að þótt undirbúningstíminn fari í að semja efni handa meðalnemandanum fer tími  kennarans eftir það í að sinna þeim sem skera sig frá fjöldanum í meira mæli. Til dæmis þurfti að brúa bilið upp í námsefni árgangsins fyrir ofan hjá þeim sem ítrekað sýndu fram á færni í ákveðnum flokkum. Í þessu tilfelli gerði ég það þannig að nemandi sem var yfir 80% í tilteknum flokki tvö próf í röð fór í munnlegt próf þar sem ég mældi þekkingu hans og að því loknu (ef árangur var raunverulegur) valdi nemandinn efni úr efri flokki til að vinna í.

Punkturinn er að þetta námsmat hefði aldrei verið mögulegt nema vegna þess að ég nýtti mér upplýsingatækni við kennsluna. Eftir að ég hafði hannað forsendurnar og samið verkefni, innlagnir og próf og gert aðgengilegar sem myndbönd og efni á vef þá óðu nemendur í efnið eftir eigin höfði og áhuga. Námsmatið var líka rafrænt og ég þurfti ekki að sóa dýrmætum tíma mínum í að sitja með penna og reiknivél og fara yfir. Excel sá svo um að draga tölfræðina fram.

Ég eyddi að endingu minni tíma í námsmatið en ég hafði gert áður með gömlu aðferðinni. Því copy-paste og fill in fítusar eru undratæki.

Með notkun upplýsingatækni er hægt að útrýma 19. öldinni í kennslu og hefja þá 21. Og ég hlusta ekki á þá sem kvarta yfir lélegum búnaði. Það er vissulega vandamál að búnaður í skólum er slappur. Nemendur okkar vinna t.d. á fimm ára gamlar fartölvur. En raunin var sú að meirihluti nemenda kaus að vinna mikið af þessu í heimanámi – enda eru svo til allir nemendur með aðgang að tækninni þar. Það að skólinn sé tímahylki er ekki ástæða til að kenna börnum eins og það sé ennþá árið 2005. 

Ekki það – að við þurfum að rífa tæknina inn í nýja öld líka. Og augljósa skrefið er spjaldtölvutækni.

Og í dag stöndum við á brún þess að stökkva inn í tækniöldina. Við í Norðlingaskóla erum að fara að hefja stórkostlega spennandi samstarf við fjölmarga aðila og saman ætla þessir aðilar að stíga skrefið. Ekki eftir ár eða tvö ár. Heldur strax eftir jól. Nánar um það aðeins síðar.




Það eina sem ég óttast er að hugarfarið uppfærist ekki um leið. Því ný tæki í höndum þeirra sem hafa stirðnaða huga gerir ekkert gagn. Það er búið að sólunda hundruðum milljóna í tækjakaup í menntakerfinu sem leiddu ekki af sér neina markverða breytingu á starfsháttum.

Það sem upplýsingatæknibyltingin á að leiða af sér í menntakerfinu er að í stað þess að bráðgerir drengir drabbist niður í metnaðarleysi og hægfara nemendur stöðvist alveg á meðan kennarinn matar alla á sömu máltíðinni – sem aðeins hentar miðjumoðinu – þá fái hver nám við hæfi, eftir sínum áhuga, styrkleikum og metnaði. Við getum aflagt pappír, og þar með skólaborðið. Nemendur geta verið á ferð og flugi um skólann sinn og umhverfið. Þeir geta unnið einir, þvert á árganga eða í litlum og stórum hópum. Og sá tími sem losnar fyrir kennarann, hann má nota í markvisst mat á skólastarfinu, hugmyndasköpun og samvinnu við aðra kennara – auk þess að kennarinn getur verið hvetjandi og stýrt umræðum og listsköpun.

Við erum dálítið að uppgötva að það eru fleiri en einn gír á bílnum okkar. Fóturinn er kominn á kúplinguna – og nú verður gaman að lifa.

1 ummæli:

Torfi Stefán sagði...

Það er ekkert minna heldur en heilt blogg í svarið. þetta hljómar vægast sagt mjög vel og ég get ekki neitað því að ég sé kennslu fyrir mér á svipaðan hátt, það er minnka talið og færa nemendum meiri vinnu í hönd. Eins þarf nemandinn að vinna meira með tölvur, tækji og tól og þá einkum til að þekkja forritin, nýtingarmöguleikana og ekki síst fá einhverja glóru á hvernig hægt er að sía út fróðleik á netinu.
Nú er ég ekki tæknilegasti gaurinn í bransanum en mér fannst styrkleikaritið/hringurinn líta mjög vel út. Er þetta fídus úr excel? Mér finnst þetta gefa mjög góða heildarmynd á styrkleika og veikleika.