Það hefur ekki farið fram hjá neinum sem les Maurildin að ég er ekki allskostar sáttur við femínisma eins og hann birtist á Íslandi. Mér finnst hann að mörgu leyti órökréttur, einstrengingslegur, mótsagnarkenndur og þokukenndur. Mér finnst jafnframt að kvenfrelsi sé notað sem trójuhestur fyrir rótæka, kommúníska tendensa – sem eru mér ekki allir að skapi. Loks hef ég greint sterka nojaða strauma, einelti og þöggun í fari þeirra sem berjast fyrir femínisma.
Ég er duglegur að benda femínistum í kringum mig á þetta.
En ég þyrfti að vera blindur til að sjá ekki heiftina, hatrið og fordómana sem skella á yfirlýstum femínistum (sérstaklega konum). Og það þoli ég enn verr. Og ég þoli ekki að greindir femínistar skuli tríta samfélagið sitt eins og þessir háværu heimskingjar séu á einhvern hátt einkennandi fyrir það.
Kommentakerfi eru varplendur hreinræktaðra blábjána sem skvampa um eins og blóðstrokkaðir bullustrokkar og hæðast að konum. Frussa einhverju fábjánakommenti hvar sem þeir geta til að niðra „mannhatandi femínista“ sem í þeirra augum eru fyrst og fremst sekir um að þekkja ekki sinn sess. Femínismahatur og fordómar byggja sumpart á algjörri vanþekkingu á því hvað femínismi er – og þeir fáu sem hafa einhverja glóru skapa undarlega þversögn. Þeir telja að femínistar séu að reyna að sölsa undir sig heiminn og banna mönnum að vera menn – en eru um leið svo stútfullir af fordómum, fáfræði og heimsku að ofsóknaræðið er að fullu réttlætanlegt. Það er ærin ástæða til að nýta krafta þess opinbera til að uppræta almenna heimsku. Jafnvel þótt sá heimski sjái það sem persónulega árás á sig. Heimskan er skaðlegri en svo að hún geti verið viðurkenndur lífsstíll.
En að því sögðu þá verður enginn dyggðugri af löstum óvina sinna.
Ég vildi óska að femínistar hættu að koma fram við alla gagnrýnendur sýna eins og ósnertanlega óþokka. Ég vildi líka óska þess að femínistar í rökræðum hættu að springa á limminu í hvert sinn sem rimman verður yfirþyrmandi og sökkva inn í sjálfhverfu. Það er nefnilega ekki hemja hve oft fyrstupersónufornafnið rýkur á loft um leið og skóinn kreppir. Og borar einhverskonar ormagöng út úr umræðunni. Íslenskir femínistar eru alveg óhuggulega sjálfhverfir.
Og um leið myndi ég vilja að hinir hugsandi í hópi „óvina“ femínista og femínistarnir sjálfir gætu tekið höndum saman og barist gegn heimskunni sem skellur á öllum þeim sem beita sér gegn kúgun kvenna. Því sá, sem virkilega og af heiðarleika vill berjast gegn því sem hann álítur galla í fari femínista, hann getur ekki endalaust horft upp á holskeflur heimskunnar berja á „andstæðingum“ sínum án þess að langa til að grípa til varna.
Femínisminn er nefnilega ekki óvinurinn.
Heldur heimskan. Og hatrið.
1 ummæli:
Góð pæling. Ég held að það sé ekki síst vegna þessa ómálefnalegs andófs og skorts á málefnalegri gagnrýni sem femínistminn hefur súrnað svo mikið sem raun ber vitni.
Skrifa ummæli