1. nóvember 2011

Að sálga smádjöflum

Rifrildi Davíðs Þórs og Maríu tekur á sig fyrirsjáanlega mynd. Davíð tókst að gera píslarvott úr Maríu með því að hóta henni málsókn. Hann mun að sjálfsögðu ekki sækja málið frekar, enda væri það heimskulegt af honum.


Þegar fólk beitir dóms- eða löggjafarvaldinu til að „klára“ rökræðu þá hefur kerfið klikkað og neyðarútgangurinn ekki verið nýttur. Það á enda að vera algjört neyðarúrræði – og nokkuð sem maður gerir aðeins ef lokakosturinn (sem er að þegja og snúa sér að öðru) er af verulega mikilvægum ástæðum ómögulegur.

Rifrildi Davíðs og Maríu hefði aldrei átt að fara út í slíkar hótanir. María drekkti sínum fyrsta pistli (sem innihélt þrátt fyrir allt mjög málefnalega spurningu) í vaðli, upphrópunum og skoðunum – sem áttu oft sáralitla samleið með staðreyndum málsins.

Davíð ætlaði á móti að vera sniðugur og nappa hana á hræsni – lögbrotum.

Svar Maríu í dag er fyrirsjáanlegt – en um leið nokkuð upplýsandi. Hún gerir að sjálfsögðu píslarvott úr sér og biður Davíð ekki afsökunar. En hún tekur fram, sér til málsvarnar, að Davíð verði, eins og aðrir, að gera greinarmun á staðreyndum og gildisdómum. Það sé varla hægt að refsa henni með dómi fyrir viðhorf og skoðanir sem stangast á við viðhorf annarra – enda sé hún ekki að misbeita staðreyndum eða ljúga til um sannreynanlega hluti.

Mikið vildi ég nú að María eða einhver annar – tæki sig til og skoðaði beitingu löggjafans (og þar með í framhaldinu beitingu framkvæmda- og dómsvalds) gegn vændiskaupendum.  Og gerði það sérstaklega út frá þeim vinkli að sjá hvort forsendur þessara laga séu byggðar á staðreyndum eða gildisdómum.

Því að á sama hátt og María biður sér vægðar frá löggjafa og dómskerfi vegna þess að hún telur að hún eigi að hafa gildisdóma sína í friði fyrir því (a.m.k. upp að hærra marki en staðreyndadóma) – þá virðist rökrétt að gera þá kröfu að valdinu sé ekki beint gegn öðrum – þ.m.t. vændiskaupendum – ef lög byggja fyrst og fremst á gildisdómum löggjafanna.

Ég held reyndar að það megi banna vændi með margvíslegum staðreyndabundnum rökum. En vændi verður ekki bannað vegna þess að vændi sé „nauðgun gegn greiðslu,“ órfjúfanlegur þáttur í mansali og ofbeldi, hlutgerving kvenna eða með öðrum gildishlöðnum rökum.

Það er því vonandi að þessi rimma Davíðs og Maríu skili þó þeim árangri að koma umræðunni upp úr því fari að menn berji hver á öðrum með gildismati – og menn fari að ræða staðreyndir. Fyrr en það gerist – mun umræðan engu skila.

Engin ummæli: