29. nóvember 2011

Þess vegna mun ríkisstjórnin ekki springa...strax.

Jón Bjarnason er í lygilega sterkri stöðu. Þrátt fyrir að á honum hafi dunið endalausar „stórubombur“ sem hafa sannfært hálfa þjóðina um að maðurinn sé ekki aðeins vanhæfur til að stýra nokkru flóknara en hjólbörum heldur ofan í kaupið verulega vitgrannur.

Jón Bjarnason er ekki í sterkri stöðu vegna þess að hann geti státað af neinum verkum eða verulegum hugsjónum. Allur styrkur hans er tilkominn af því einu að hann situr í dauðvona stjórnarsamstarfi sem hvorugur flokkurinn hagnast á að láta deyja ... alveg strax.

Það er mjög sérstakt að vera með skipstjóra og fyrsta stýrimann á dalli sem eru ósammála um hvar skuli landa aflanum. Það er óhætt að segja að ástandið um borð í slíkum dalli verður frekar eitrað – og verra eftir því sem nær dregur landi. Meðan verið er að lulla úti á rúmsjó geta menn látið sem samlyndið sé gott og blessað og pirrað sig yfir smámunum, eins og því hvort kaffið sé of þunnt eða of miklu kastað fyrir borð. En hver einasti skipverji hlyti að finna fyrir þrúgandi spennunni – og eftir því sem dagarnir og klukkutímarnir yrðu fleiri ættu höfðingjarnir tveir sífellt erfiðara með að sleppa stýrinu til hins.

Og nú hefur það gerst að spennan þrýstist upp á yfirborðið.

Alltíeinu láta menn eins og það sé einhver stórkostleg ósvinna að frumvörp séu samin af mönnum „úti í bæ.“ Samt vita allir að það er alsiða. Og menn láta sem það séu stórkostlega heilbrigð og heppileg vinnubrögð að fulltrúar framkvæmdavaldsins beri störf sín undir aðra fultrúa á öðrum sviðum og sérstaklega þá sem stýra stjórnmálaflokkunum. Svona eins og menn hafi gleymt að lesa skýrslu rannsóknarnefndarinnar um endalaus pólitísk og ófagleg afskipti af fagráðuneytum – sem á endanum lömuðu allt og fokkuðu öllu upp. Sem síðan leiddi til þess að menn hrukku til baka frá brunninni púðurtunnunni með kolsvört andlit og sögðu: „Þetta var ekki mín tunna.“

Það vita allir, sem ekki eru einfeldningar, að ástæða þess að menn vilja Jón Bjarnason burt er að hann hefur dregið lappirnar í því sem hann segir að sé innlimunarferli í ESB en hafi átt að vera aðildarviðræður. Hann er hraðahindrun – sem menn sjá tækifæri til að jafna út.

Og nú er staðan þessi:

Samfylkingin þarf að sprengja ríkisstjórnina á réttum tíma. Nú hafa allir aðrir flokkar sagt skilið við hugsjónina um ESB og því þurfa að fara fram kosningar á þeim tímapunkti að ESB-aðildarkosning sé yfirvofandi. Því þá mun Samfylkingin geta barist á því stefnumáli einu og sér og fengið fylgi frá hinum flokkunum. Framtíðin er ekki sérlega svört fyrir flokkinn ef hann nær að tóra fram að þeim tímapunkti.

En ef hann sprengir of snemma er afar ólíklegt að aðrir flokkar muni samþykkja að landa þessu máli með sama hætti og Steingrímur Joð hefur gert. Hann er því nytsamlegt „flón“ enn um sinn.

En VG er algjörlega á móti ESB (svona meira og minna) og því reynist Steingrími sífellt erfiðara að halda kúrsi. Og ef hann tekur afstöðu gegn Jóni Bjarnasyni þá er hann í raun að taka afstöðu með ESB. Sem myndi þýða það að flokkurinn gæti ekki með nokkru móti komið vel út úr kosningum. í raun og veru væri pólitískt sterkt af Steingrími að segja einu sinni að hann sé hættur að láta hóta sér fram og til baka af Samfylkingunni – þeir geti bara hætt þessu samstarfi ef þeir vilja. VG myndi fá miklu meira fylgi út á þá taktík þessi dægrin en með hinni taktíkinni að Steingrímur hlaupi um með múla á þá sem haga sér illa.

Átökin munu nefnilega bara aukast. Og sumir Samfylkingarmenn láta eins og þeir viti ekki hverjum þeir buðu upp í bólið hjá sér og spinndoktorast fram og til baka og kasta skít í róttæka VG-liða.

Samfylkingin myndi aldrei koma vel út úr kosningum núna...

...nema henni takist að láta svo líta út sem VG sé á móti réttlátum aðgerðum í kvótamálum. Þá geta þeir notað þann gambít til að sprengja stjórnina og láta sem kosningar snúist um kvótaréttlæti.

En það er vafasöm taktík – því það er enginn flokkur á þingi sem er tilkippilegri til að gera róttækar beytingar á kvótamálum en VG.

Samfylkingin er ekki í neinni aðstöðu til að vera með læti. Það er ekki flóknara en það.

En þetta er samt spurning um tímasetningu. VG mun stórtapa á því að leiða þjóðina alla leið upp að hinu Gullna hliði ESB og byrja þá að tala gegn aðild. Það er eins og að kaupa brennivín í barnið sitt og hefja upp raust í forvarnarskyni þegar varirnar eru komnar á stútinn. VG mun ekki hafa neitt að selja þegar þar er komið og sitja uppi með verulega laskaðan flokk eftir síharðnandi innbyrðis átök.

Það borgar sig því fyrir VG að sprengja samstarfið áður en Samfylkingin gerir það.

Og þá er eðlilegt að Samfylkinginguna langi til að vera fyrri til og sprengja strax.

En þar græða menn ekkert á því.

Engin ummæli: