22. október 2011

Á upplýsingin sér viðreisnar von?


Ein hliðarverkun vísinda (og annarrar mannlegrar iðju) eru áhrif sem kalla má Sísífosar-áhrif. Þau felast í þeirri sálrænu tilhneigingu manna að steypa því af stóli sem búið er að festa tímabundið í sessi. Í þessari tilhneigingu felst ekki lítið hreyfiafl til breytinga og framfara – og því miður hefur samfélagið oftar en ekki dílað við þessa hvöt með því að smíða rammar megingjarðir utan um hitt og þetta sem þeir vilja láta óhreyft. Slíkt veldur hita og ólgu. Það er ekki hægt að festa hreyfiorku samfélags í of litlum umbúðum. Eina sæmilega varanlega lausnin felst ekki aðeins í að hafa mótin rammgerð – heldur að vinna skipulega að því að kæfa dampinn í venjulegu fólki og letja það til hugsunar og andófs. Þeir sem virkilega eru makkíavellískir í hugsun geta náð miklum árangri í lýðstjórnun með því að bæla einmitt ekki þessa, og álíka hvatir fólks, heldur nýta sér þá staðreynd að hvatir manna eru ekki vandar að virðingu sinni. Kynhvötin gerir ekki mikinn greinarmun á olíubornum lófa og konu. Þar koma aðrir þættir til. Að sama skapi má fróa nýjundagirni, réttlætiskennd og niðurrifsanda fólks með ýmsum lágkúrulegum aðferðum; allt frá hjómi til haturs. Brauð og leikar geta haldið fólki í skefjum. Sérstaklega ef hatri og hræðslu er hrært út í blönduna.

Markmið upplýsingar er að samfélög og einstakar manneskjur fái bæði frið og hvatningu til að fletta ofan af umhverfi sínu og byggja það aftur upp eftir betri vitund. Upplýsingin er uppbyggilegt afl, þótt hún geti virst eyðandi frá sjónarhorni skugganna.




Ferill upplýsingarinnar hefur verið dálítið eins og ferill sólargangsins. Hún byrjaði sem skíma, náði skærum loga um hádegið – og nú er að mörgu leyti byrjað að húma aftur. Meðal annars vegna hugsanavillu sem greip nægilega stóran hluta hugsandi manna um það bil sem birtan var skærust. Hugsanavillan er þannig að þegar búið var að koma auga á stærstu skuggana og leiða fólk úr þeim inn í sólskinið – þá voru menn farnir að taka birtunni sem gefnum hlut og byrjaðir að leita á henni höggstað. Og auðvitað fundu menn snögga bletti á upplýsingunni. Hin skæra birta getur aldrei annað en framleitt skugga þegar hún skellur á ójöfnu og margsamsettu yfirborði. Hver einasta steinvala, hvert einasta sandkorn, hver einasta manneskja sem gengur um og reynir að rannsaka umhverfi sitt í hinni nýfengnu birtu – varpar af sér skugga.

Sísifosarkenndin varð til þess að efasemdir komu fram um aðferðir upplýsingarinnar. Hvernig væri hægt að treysta því til að afhjúpa skugga sem í eðli sínu felur skuggana í sér? Hvers vegna að hamast á móti skuggum yfirleitt? Þú getur varið æfinni í að leita þá uppi en átt jafnmarga eftir þegar þú byrjar. Fjöldi skugga er enda óræð stærð.

Upplýsingin varð gamaldags og úrelt. Það var ekki lengur móðins að efla hana og aðferðir hennar. Háskólar tóku upp fræðasvið henni til höfuðs. Gert var gys að málsvörum hennar og þeir sakaðir um að vera einfeldningar í heimsmynd sinni. Pósitívistar. Að þeir ríghéldu í hugmyndir og aðferðir sem öllum væri augljóst að, ef grannt væri skoðað, innihéldu eigið fall. Og hafandi komist að því að jafnvel hin skærasta birta gæti ekki útrýmt skuggum – lögðust menn til hvílu á skjól- og skuggsælum stað. Og hófu aftur að reisa skjól- og skuggaveggi.

Tískan er stundum grimmur húsbóndi

Einhverntíma heyrði ég þá flökkusögu að síðustu heimspekilegu  skilaboð Þorsteins Gylfa fyrir andlátið hafi verið að menn skyldu ekki vanmeta raunvísindin. Það er nefnilega ekki svo að raunvísindin séu eins klippt og skorin og margir halda. Aðferðir þeirra eru hvorki einfeldningslegar né byggðar á tómri óskhyggju.

Aðall raunvísinda er að allt sem maður telur sig hafa uppgötvað verður maður að „þýða“ yfir á málfar almennrar dómgreindar. Það þýðir ekki að vísa til innblásturs eða innsæis sem raka – þótt hvorttveggja gegni oft stóru hlutverki í starfi raunvísindamanna. Þeir geta sótt áhrif í góða máltíð, drauma, listaverk og hvaðeina annað – alveg eins og allt annað fólk. En það dugar ekki að láta þar við sitja. Þeir halda áfram að rýna í það sem þeir telja sig hafa fundið þar til þeir hafa fundið nógu upplýsta leið að niðurstöðunni til að aðrir geti tekið afstöðu.

Auvitað skjátlast mönnum. Og auðvitað taka menn stökk og skilja eftir eyður. En menn reyna að vera meðvitaðir um eyðurnar og hafa þær ekki of margar eða breiðar.

Annað sem öllum væri gott að íhuga út frá sjónarhóli raunvísindanna er að óvissa eykst gjarnan þegar sjónarhornið er þrengt.

Þannig hafa lögmál vísindanna bæði skýringar- og spásagnargildi ef viðfangsefnið er nógu stórt og nálægt í tíma og rúmi. En ef maður fylgir ferli orsaka aftur í tímann (svo langt sem hann nær) eða niður á kvarða þess örsmæsta þá blossar upp óvissan og efinn. Alveg eins og hægt er að lýsa upp landslag en ef jörðin er gaumgæfð kemur í ljós að enn er skuggi undir hverju sandkorni. Þessi efi sem byggður er inn í aðferðir upplýsingarinnar er hvetjandi. Hann heldur opnum þeim möguleika að hægt sé að finna rannsóknaraðferð sem ekki varpar skuggum. Að hægt sé að finna nýjar kenningar sem sameina eldri kenningar og skýra þær í þessu nýja, fjarlæga eða örsmáa samhengi. En þeim fylgir ekki sjálfkrafa sá „rökrétti“ kostur að fyrst skuggi verði alltaf til staðar – þá sé alveg eins gott að hafa þá stóra eins og litla.


Ég gæti trúað að Þorsteinn hafi hugsað á svipuðum nótum. Þótt ég hafi ekki hugmynd um það. Ég ræddi þetta aldrei við hann.

Ég hef nokkrar áhyggjur af upplýsingunni. Mér finnst stundum eins og fólk hafi tekið henni sem gefnum hlut og falið sérfróðum að fara með hana og smátt og smátt hafi menn fallið í sama farið. Og sótt í hægindi heimskunnar, myrkrið.

En að vísu meira og minna uppljómað af áhrifum upplýsingarinnar.

Að fólk hafi orðið leitt á að hanga á fjallstoppnum og styðja við grjótið og því leyft því að rúlla niður brekkuna og hlaupið á eftir.

Self-illumination R1, Surreal Art, 3D Digital Art, Surreal neo-surrealism Bulb butterfly electric light screws, visionary modern surrealism object, bulb, socket, glow, background, electronic, wire, electric, device decorative light, lamp metal, support wiring, decoration neo surrealist artist.
„Best að kippa þessu úr sambandi, þessi snúra heldur aftur af mér.“

Og ég hef áhyggjur af því hvað öfgar eiga greiða leið að hjörtum manna. Hversu viljug við erum til að mála heiminn með þeim áróðurslitum sem áður voru notaðir til að fá okkur til að hugsa um aukaatriðin. Við skiptum fólki í flokka. Eflum vænissjúk viðhorf. Drögum úr sjálfsbjargarmætti og tilfinningu fyrir eigin afrekagetu. Og dembum ábyrgð á allri mögulegri og ómögulegri ógæfu yfir á misraunverulega óvini. Útrásarvíkinga, eitt-prósentið, feðraveldið.

Og þegar reynt er að rökræða skipulega og yfirvegað þá er látið sem rökræðan sjálf, sú krafa að menn komi sér saman um að búa hugmyndum sínum þann búning að þær rati að dómgreind viðmælandans, sé eitthvað sem megi hafna. Sé karllæg, kapítalísk, kúgandi.

Sem er álíka fráleitt og að segja að ekki skuli leitað að týndu barni í myrkri með leitarljósi, því ljós kasti óhjákvæmilega af sér skugga. Og því sé órökrétt að beita ljósi gegn myrkri. Betra sér að þreifa fyrir sér.

Það var upplýsingin sem að endingu kálaði kóngaveldinu. Það var upplýsingin sem kom upp um kúgun kvenna. Það var upplýsing sem benti á að vanmáttur fólks til sjálfbærs, ábyrgs vitsmunalífs væri stórlega ofmetinn. Vissulega rífur upplýsing múlinn af munnum sem fara með bull. En fyrirfram er ekki hægt að vita hvað leynist bakvið keflaðan munn. Og það eru frekar rök fyrir að fjarlægja múla en binda þá fastar.

Þegar fólk skríður inn í skuggana eða stekkur um borð í öfgarnar á tímum sem þessum, tímum óviðjafnanlegrar velsældar og friðar, í kyrrlátasta horni heimsins, þá er augljóst að við erum útsett fyrir óværum. Að við erum sjálfviljug búin að koma okkur í þá stöðu að verða hrifsuð af greipum illgjarnra og heimskra. Sá sem gælir við öfgar og heimsku í friði mun verða heltekinn af þeim í stríði.

Upplýsingin er varanlegt verkefni.

Og það má ekki lenda í tísku að hafna henni.

Sagan geymir of mörg ömurleg dæmi um það hverju það getur skilað.

Engin ummæli: