Líklega er fátt heimskulegra en stór lokapróf. Það, að þau hafa verið næstum einráð í menntakerfinu, hefur spillt mörgum af þeim sem hefðu getað orðið bestu námsmennirnir. Innbyggt er í þau að vel gefnir einstaklingar geta með nokkuð auðveldum hætti náð hlutfallslega góðum árangri með herfilegri tímanýtingu. Þau ýta ennfremur undir skorpuhugsun.
Á móti þessu er stefnt símati. Þá er frammistaðan metin jafnt og þétt, oftast þannig að efnið er bitað niður í sneiðar sem nemandinn gerir skil hverri á eftir annarri. Símat er enn nokkuð gildishlaðið hugtak – á jákvæðan hátt. Svona eins og „eineltisáætlun“ eða „sjálfsmat“.
En símat býr yfir innbyggðum göllum líka.
Ef við hugsum um það hvernig þeir vinna sem ná raunverulegum og skapandi árangri – þá er það með því að temja sér ákveðin vinnubrögð. Því fer fjarri að fólki fari vel að vinna jafnt og þétt eða gefa sífelld stöðurapport. Stundum þarf einfaldlega að hægja ferðina, hugsa, jafnvel byrja upp á nýtt frá öðru horni. Mistök eru gríðarlega mikilvæg öllu námi. Mistök eru einmitt ekki eitthvað slæmt – heldur óumflýjanlegur veruleiki þess sem reynir eitthvað á sjálfan sig og skapar. Fer út fyrir mengi þess sem liggur fyrir.
Símat vinnur gegn sköpunargáfu því til þess að geta í sífellu skilað hámarksárangri í hverju skrefi verður göngulagið stíft og stirt. Menn reika ekki frá gefnum vegi og taka sér þann tíma sem þarf til að gera eitthvað verulega gott. Menn taka ekki sénsa. Hvíla sig ekki.
Miklu betra er að hafa tvöfalt matskerfi. Annarsvegar mat sem er fyrir nemandann sjálfan. Einhverskonar aflraunasteina sem nemandinn getur reynt sig við – án ábyrgðar og að eigin frumkvæði. Og hinsvegar „verkefnamiðað“ mat sem er sveigjanlegt. Kennarinn getur þá tekið að sér hlutverk þess sem uppörvar og hjálpar til ef menn villast of mikið af leið – í stað þess að vera sá sem skráir allar miðsfellur eða einhverskonar mennsk stimpilklukka.
Shunzei (1114-1204) ferðaðist um og dæmdi ljóðagerð ungra manna. Hann gerbreytti hlutverki dómarans. Honum kom ekki annað til hugar en að láta nægja að benda á það sem vel væri gert – í stað þess að leita snöggra bletta. Vitandi sem er að önnur leiðin er margfalt líklegri til að skila betri ljóðum í framtíðinni.
Námsmat mætti taka meira mið af því.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli