21. október 2011

Badabing-búmm!

Þórarinn Þórarinsson, Hr. Badabing, tók sig til á feisbúkk og sagði konu að kála sér með allnokkrum ofstopa og ákefð. Í dag hristist og skelfur samviska þjóðarinnar. Óupplýsti hlutinn tautar eitthvað um skítlegt eðli mannsins en sá upplýsti talar í hálfum hljóðum um að þarna hafi Þórarinn misst það. Og fésbókar-vinir og kunningjar draga hverja aðra inn á lokaðar spjallrásir eins og yfirlæknirinn á Kleppi dró ektakvinnu Hriflu-Jónasar inn í myrkrað herbergi til að ræða sálarástand manns hennar sem lá í bælinu að hrista af sér flensuskít.

Það sem hafið er yfir vafa við frumhlaup Þórarins er að það kom við kauninn á konunni sem hann sá ástæðu til að hamast á. Það var heldur ekki sérlega fyndið eða vel heppnað.

En það var svosem ekkert rosalega hræðilegt heldur.

Ég held að svona tilvik sýni hversu ofsalega við erum orðin háð þessum sýndarveruleika sem við höfum hannað utanum okkur. Við erum eins og ívonlæn-nördarnir sem eru svo hugfangnir í leiknum að eina leiðin til að vekja þá af drómanum er að sparka fótunum undan því sem þeim er heilagt – því sýndar-réttlæti sem þeir hafa komið sér upp.

Þórarinn var orðljótur og kjaftfor – og fólk ésúsar sig og tautar. Jafnvel sama fólk og gat auðveldlega hrist af sér viðbjóðinn þegar fyrrum leiðtogi Líbíu var dregin út úr ræsi og myrtur. Það snerti sumt fólk einhvernveginn minna. En kjafturinn á Þórarni hreyfði nóg við sumum til að kúpla tilfinningunum og velsæminu í gang.

Við erum dálítið eins og drengurinn í plastkúlunni. Við förum á taugum þegar við hnerrum – en getum horft upp á ebólufaraldur gegnum plastið án þess að kippa okkur upp við það.

Málið er bara að Ísland er ekki plastkúla.

Auðvitað á maður ekkert að vera að óska öðrum dauða eða ausa eigin neikvæðni yfir aðra eins og Þórarinn gerði þarna. En maður á heldur ekki að láta eins og slíkt sé eitthvað stórkostlegt sístem-error og að nú þurfi að gera hlé á leiknum meðan viðkomandi sé tekinn ú rumferð fyrir að hafa hlaupið niður mikilvægar grunnstoðir. Velsæmið á aldrei að fá eitt að stýra því hvað telst gilt og gott.

Velsæmið hefur alla tíð verið nær algjörlega blint á hið fagra og hið sanna. Og velsæmið hefur mun oftar virkað sem höft en sem stoðir.

Vissulega er kurteisi viðkunnanlegur eiginleiki. En kurteisi þeirra sem mæla fagurt en hyggja flátt – er ekki ýkja merkileg.

Málið er að velsæmið hefur gott af barsmíðum. Bæði vegna þess að þegar barið er á því þá tileinka menn sér „dyggðugt“ líf frekar vegna þess að þeir kjósa það í stað þess að kasta því yfir sig yfirborðskennt eins og erfðaherðaslá. En líka vegna þess að með því að umbera óvinsælar skoðanir skapar maður vettvang fyrir að hlustað sé á þá sem hafa eitthvað nýtt að segja.

Það þarf ekki alltaf að kúga þá sem kjósa að vera öðruvísi en maður sjálfur.

Jafnvel þótt þeir kjósi að vera öðruvísi á dáltið kúgandi hátt.

 

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Andskotinn vakir sennilega yfir síðunni þinni. Ég skrifaði langt komment (svona ala Nornin og þú og Kristinn Theódórsson) en það datt út. Því segi ég bara; Gvuð blessi þig og Ísland.
Þórunn Hrefna.

Nafnlaus sagði...

Er ekki allt í lagi að fólk bregðist við? Þetta er ekki sýndarveruleiki heldur enn eitt tólið til samskipta. Skiptir máli hvort það er trantur óstuddur tækni eða gjallarhorn, sími, facebook? Er ekki alltaf sama sem skín í gegn? Karakterinn eða skorturinn á honum? Hvernig er þessi maður í sambúð? Er hann í lagi í svokölluðum raunheimum? Ég efast um það.