18. október 2011

Talíbaninn er með þig í sigtinu!

Búrkuklæddar konur klæmdust við perra á netinu í því skyni að fá þá setta í steininn. Þetta er svosem ekki í fyrsta skipti sem þessi leikur fer fram. Það hefur alltaf verið svolítið blæti hjá þjóðinni að fá að fletta frakkanum frá flössurum og öðrum perrum. Þegar við bætist heilög vandlæting á athæfi mannanna í viðbót við umhyggju fyrir lögunum – þá er kannski ekki skrítið að dramatíkin taki völdin. Það þarf enda óvenju þroskað listrænt innsæi til að berjast fyrir málstað með því að gera sjálfan sig að holdtekju alls þess versta sem maður getur orðið.

Það að klæða sig í búrku er sosum sniðugt trikk, þótt það sé ekki mjög valdeflandi. Og í nokkru ósamræmi við að kalla sig „Stóru systur“ og standa saman í hnapp eins og samhentur hópur Klúxara undir logandi krossi við lóðamörk einhvers óstýriláts negra.

Ég ætla svosem ekkert að draga úr andstyggð minni á svona vændiskörlum. En mér þykir pínulítið vænt um samfélag þar sem maður reynir að sýna jafnvel andstæðingum sínum og svörnustu óvinum lágmarks virðingu. Mér þætti t.d. verulega ógeðfellt ef einhver siðhreinsunarhópur pantaði Hótel Borg og stefndi þangað eskort-stúlkum. Stæði síðan þar í munkakuflum eða öðrum kynferðislegum kúgunarklæðnaði og sendi út fréttarilkynningu um að Talíbanarnir væru með druslurnar í sigtinu. Og hótuðu því að afhjúpa hórurnar. T.d. á vefsíðu með mynd og stórum hórustimpli.


1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þetta er eins og Benetton auglýsing í Afghanistan...