17. október 2011

Trúboð eða -fræðsla í grunnskólum


Ég tók mig til og las námskrána í kristnum fræðum áðan. Ég get ekki sagt annað en að mér hafi brugðið nokkuð rækilega. Ég er hræddur um að þar sé ekki hjálpað við að gera skýran greinarmun á trúboði og trúfræðslu. Þvert á móti virðist vera stundað reglulegt og markvisst trúboð í yngri bekkjum grunnskólans.

Það er, ef menn færu eftir námskránni. Sem fáir gera. Þrátt fyrir að námskrár hafi reglugerðargildi.

En skoðum dæmi.

Sex ára börn eiga að:


„...kynnast kristinni sköpunartrú og skoða sjálf sig, umhverfi sitt og samskipti við aðra í ljósi hennar“
„...kynnast frásögunum af fæðingu Jesú, læra einfalda jólasálma og kynnast íslenskum jólasiðum“
„...kynnast afstöðu Jesú til barna, m.a. með frásögunni Jesús blessar börnin“
„....fái tækifæri til leikrænnar tjáningar á atburðum úr biblíusögunum“
„...heimsæki kirkju og skoði helstu kirkjumuni“
„...geri sér ljóst hvað bæn er og læri að þekkja Faðir vor og aðrar valdar bænir“

Ári seinna eru þau orðin nógu þroskuð til að:

„...skoða og ræða listaverk sem túlka efni Biblíunnar og fá tækifæri til eigin listsköpunar“

Ári eftir það er tímabært að þau:

„...viti hvað kristniboð er og kynnist starfi íslenskra kristniboða erlendis“

Níu ára börn skulu:

„...auka þekkingu sína á dauða og upprisu Jesú, t.d. með kynnum af frásögum af yfirheyrslunum yfir Jesú og dauðadómnum, sögunni af ferð kvennanna að gröfinni á páskadagsmorgni og þekki frásöguna af því þegar Jesús birtist lærisveinum sínum við Tíberíasvatnið eftir upprisuna“

Auka „þekkingu“ sína á upprisu Jesú!?

Þau skulu líka:

„...heimsækja kirkju og þekkja nokkur trúarleg tákn og merkingu þeirra, kunna skil á guðsþjónustunni og helstu kirkjulegum athöfnum, svo sem skírn, fermingu, hjónavígslu og útför“

Og tíu ára börnin eiga að:

„...öðlast skilning á ástæðunum fyrir kristniboðs- og hjálparstarfi kristinnar kirkju og þekkja til einstaklinga sem unnið hafa að þvi“
„...fá vitneskju um hugtakið heilagur og mismunandi merkingar þess og temji sér virðingu fyrir því sem öðrum er heilagt“

Ég get ekki með nokkru móti séð að heimsókn Gídeón-manna stangist á við reglur aðalnámskrár. Þvert á móti eru þær í fullu samræmi við þær.

Og ganga raunar stutt.

Ég er ekki viss um að allir myndu hrópa húrra ef kristnir söfnuðir færu nú að krefjast þess að kristin fræði séu kennd nákvæmlega eins og reglur kveða á um.
1 ummæli:

Stefán Pálsson sagði...

Áhugaverð færsla. En mér er bent á að þetta séu tilvitnanir í gömlu námsskrána, en ekki þá sem tók gildi í vor. Ástandið hefur því víst skánað.