2. október 2011

marinesniper hjarta talhotblond = sönn ást


Talhotblond er ansi hreint mögnuð heimildarmynd sem allir sem áhuga hafa á dimmum hliðum mannlífsins ættu að sjá áður en þeir lesa lengra í þessum pistli.

Ég varaði þig við. Þú færð ekki nema eitt tækifæri til að upplifa það sem á eftir fer.

Jæja,

Myndin fjallar um Tom, tæplega fimmtugan fjölskylduföður og verkamann með hernaðarblæti, sem kynnist stúlkunni Jessie (aka talhotblond)á netinu. Þau kynnast á barnaleikjasíðu og því lýgur Tom að Jessie að hann sé 18 ára strákur á leið í herinn.

Smátt og smátt verða þau ástfangin hvort að öðru. Hið átján ára alteregó, Tommy eða marinesniper, fer til Íraks og þykist þar sitja í hömmernum að spjalla við hana gegnum netið. Þau ákveða að giftast þegar hann kemur heim. Og, eins og ungdómnum í dag sæmir, stunda þau nær gegndarlaust sæbersex utan hjónabands. Hún sendir honum gjafir, þar á meðal notaðar nærbuxur, og lýsir því í grafískum smáatriðum hvernig hún ætli að hringa sig um hann þegar þau loks hittast.

Síðan fær Jessie bréf.

Bréfið var frá eiginkonu Toms sem hafði nappað hann og fundið gjafir frá Jessie. Hún sagði Jessie alltaflétta og sagði henni að hún mætti ekki vera svona trúgjörn – það væri hættulegt.

Jessie tryllist. Og í reiði sinni fer hún að inna sameiginlega netkunningja hennar og marinesniper eftir upplýsingum um manninn á bak við dulnefnið. Einn þeirra var ungmennið Brian, sem var samstarfsmaður Toms. Í sameiningu gera þau líf „gamla mannsins“ að helvíti. Slúðra um hann á netinu, útmála sem pervert, láta setja hann í bann – og að áeggjan Jessie gerir Brian Tom lífið leitt í vinnunni.

Tom og Brian

En svo byrjar Jessie að tala aftur við Tom. Hún sagðist varla geta án hans verið. En svo svíkur hún hann aftur. Og vingast við hann á ný. Og svíkur enn.


Í hvert sinn sem hún sveik hann varð Tom ofstopafyllri og reiðari og að lokum sagði hann henni að hann myndi drepa hana eða einhvern sem henni þætti vænt um ef hún léti hann ekki vera.

Á meðan á þessu stóð byrjuðu Jessie og Brian að leggja á ráðin um stystu leið sína í heilaga hnappheldu. En í einhverju spjallinu við marinesniper viðurkenndi talhotblond samt að hún væri bara með Brian til að hefna sín. Og hún hætti með Brian og fór að daðra við hina og þessa uns hún og Tom höfðu loks samið frið – að hún fer aftur að daðra við Brian.

Tom verður þess áskynja að þau eru að tala saman og tryllist. Segir henni að passa sig – og að nú skuli hún vera hrædd.

Tilraunir hans til að tala við hana eftir það báru ekki árangur. Hún skellti á hann í hvert sinn sem hann loggaði sig inn.

Og Tom fór og skaut Brian.

Brian var 22 ára þegar hann dó.

Lögreglan var ekki lengi að átta sig á því að Jessie væri í lífshættu og sendu mann heim til hennar. Þar kom til dyranna mamma hennar, miðaldra, lítil og feit kerlingarhlussa, sem vildi ekki segja löggunni hvar dóttir hennar væri. Þegar löggan sótti það hart að fá að tala við stelpuna sagði sú gamla snöktandi að stelpan kæmi málinu ekki við. Hún hefði sjálf þóst vera hún á netinu – og sent nærbuxurnar hennar til Toms.

Í ljós kom að kvenálftin hafði daðrað við fjölmarga menn og notað til þess persónu dóttur sinnar. Hún hafði sent fjöldann allan af myndum sem hún hafði sjálf tekið af Jessie. Og sumar voru meira að segja vafasamar og erótískar – og jafnvel teknar án þess að stelpan vissi af.

Í dag situr Tom í fangelsi, Brian rotnar í kistu, Jessie talar ekki við mömmu sína og mamma hennar, Mary, hangir á netinu heima hjá foreldrum sínum – og þykist ætla að semja bók um hættur internetsins.

Hún braut víst engin lög.

Engin ummæli: