Viðhorf manna til eggjunar er æði misjafnt. Víða er litið á hana sem jafn sjálfsagðan hlut og frammíköll eða fokkmerki. Aðrir líta hana hornauga enda geta egg, sem kastað er af góðum verpli hnitmiðað í átt að einverjum sem freistast til að kíkja á eggverpilinn, lent í augum manna og skaðað þau. Það er líka vont að fá egg í gagnaugað – sérstaklega beint fyrir ofan eyrun.
Viðhorf Íslendinga til eggjunar fer alveg og algjörlega eftir því hver fyrir egginu verður. Það þótti bráðskemmtilegt þegar óvinsæll og sjarmalaus menntamálaráðherra fékk guluna þar sem hann mætti til að taka við mótmælum úr hendi grunnskólanemenda.
Þeir nemendur sem boðuðu hann á fundinn sáu ástæðu til að biðjast afsökunar en fullorðið fólk skrifaði fjálglega í blöð og a.m.k. tveir fjölmiðlar fundu sig tilneydda til að taka upp hanskann fyrir eggið fljúgandi. Einn fjölmiðill með þeim rökum að ráðherrann væri skítkastari og að þeir sem kasti skít megi þakka fyrir að fá egg til baka. DV tók heimspekilegan pól í hæðina.
Hvað á heil þjóð að gera þegar hún er reið út í stjórnendur sína og hefur þó aldrei tækifæri til að láta þessa reiði sína í ljós, nema í kosningum löngu seinna, þegar reiðin er runnin af henni? Jú, hún getur haldið útifundi og tælt ráðherrana til að mæta og taka við mótmælaskjölum og haft svo eggin tilbúin í kassa og látið síðan eggin drífa yfir ráðherrana, þegar þeir eiga sér einskis ills von.
Svo mörg voru þau orð. Og svo fylgdi skemmtileg klausa um að eggjaslettur á ráðherrajakkafötum og andlitum væru eina marktæka skoðanakönnunin á óvinsældum ráðherra.
Það er snöggtum vinsælla þegar eggjum er kastað í sjálfstæðismenn en aðra menn. Raunar ganga sumir jafnvel svo langt, eins og Hallgrímur Helgason rithöfundur, að þakka eggjunum þann góða árangur sem varð af búsáhaldabyltingunni. Því þótt pottar og pönnur hafi náð hlustum ráðamanna, þá voru það eggin sem komust alla leið – þótt fæst hafi raunar lent í gagnaugunum, rétt ofan við téðar hlustir. Hræ ríkisstjórnar Geirs Haarde var ekki byrjað að kólna á skarnhaug íslenskra stjórnmála þegar Hallgrímur sagði glaðhlakkalegur:
Stjórnin féll fyrir reiðiöldu samfélags á heljarþröm. Staða hennar var orðin slík að húnJá, takk fyrir. Stjórnin var eggjuð frá völdum. Og gunnfáni byltingarinnar varð til. Hallgrímur stakk upp á rauðum búsáhaldafána.
lyppaðist niður fyrir eggjakasti og pottaglamri.
Sjálfum hefði mér þótt viðeigandi að hafa, þótt ekki væri nema eitt egg með í fánanum.
Næsta egg sem sletti sér á spjöld Íslandssögunnar tók þátt í listsýningu, ásamt malakoffi, smjöri og öðru áleggi. Enda eru egg ekki aðeins hárbeitt pólitísk vopna sem notuð hafa verið síðan hænurnar á Dýrabæ trekktu rectus abdominis og sendu straumlínulöguð flugskeytin í mannfólkið á bænum. Egg eru þjóðarsálin sjálf. Hörð að utan, gumskennd að innan.
Maður skyldi halda að eftir þetta færi fljúgandi eggjum fækkandi á Íslandi. Það er þrátt fyrir allt alvarleg ógn við matvælaöryggi þjóðarinnar að grýta eggjum að óþörfu. En öðru nær. Næsta egg tók stefnuna á fyrrum eggjarauðulitaða lokka forseta Íslands sem þá hafði ekki lært að hanga í flasinu á verplunum til að fokka upp flugtaki eggjanna. Forsetanum til happs vildi til að hann var þétt uppvið biskupinn yfir Íslandi – og guð lætur ekki eggja biskupinn. Eggið sveif því af leið og lenti í gagnauga óbreytts prests sem sigldi í kjölfar höfðingjanna. Rétt ofan við eyrað.
Næsta egg varð alræmt. Og sannaði það að oft getur lítil dúfa velt þungu hlassi – svo fremi henni takist að verpa á flugi og hitta á réttan stað.
Þá hafði þingmaðurinn Árni Þór, ljúflingur og öðlingur sem sjálfur skrimtir á heildarlaunum meðal lögreglumanns, ætlað að skottast fyrir hornið á þinghúsinu en orðið eggi að bráð. Hann fékk eggið hjartamegin í hausinn – sem ástæða er til að ætla að sé snöggtum verra en að fá eggið sjálfstæðismegin. Eggið sprakk og Árni datt og lái honum hver sem vill.
Það er örugglega ekki svo ólíkt að fá egg og byssukúlu í hausinn af þessu færi. Nema að maður finnur meira fyrir egginu. Eftir að Árni fullvissaði sig um að þetta væri ekki heilinn á honum sem lak niður á hellurnar hrærði hann þetta af sér – og fór til kirkju.
Þeim, sem hlegið höfðu þegar eggið fór í Óla G, var ekki skemmt. Þarna hafði verið gerð fólskuleg árás á manneskju af holdi og blóði (en ekki bara prest eða sjálfstæðismann) – og það með meira en ráðlögðum dagsskammti af kólesteróli. Var þjóðin orðin óð? Óðþjóð? Óþjóð. Hvers áttu menn að gjalda sem mættu til vinnu og gátu átt von á því að fá skurn í skelina?
Hvað var orðið að þeim góða sið að tæla ráðamenn í Apavatnsför? Láta silkitungur bjóða þeim til fundar og afhenda þeim mótmælaskjöl – og grýta þá síðan. Það var allavega fyndið. Og hvernig dirfðist múgurinn að kasta eggjum á röð allra þingmanna – þar sem alltaf var sú hætta að maður hitti vinstrimann óvart. Menn eiga að vera miklu selektívari við eggjakastið.
Og með alvöruþunga krabbameinsmeðferðar blogguðu menn og skrifuðu greinar í blöð. Nú þyrfti þjóðin að hugsa sig um. Og lítil gullegg spruttu fram eins og gorkúlur:
„Þar sem Árni lá eins og fallinn Golíat bar hann samt höfuð og herðar yfir eggverpilinn.“
„Þegar eggið lenti í Árna hætti það að vera árás óánægðs múgs með valdið og varð persónuleg árás á öðling.“
„Sá sem kastar hlutum í eyrað á öðrum getur ekki búist við að hlustað sé á hann í framhaldinu“
Stuttu en mögnuðu eggjaævintýri íslensku þjóðarinnar var lokið. Gamanið var stropað.
Eggverplar voru ekki lengur pólitískir hugsjónamenn og óvinsældir var ekki lengur hægt að mæla á eggjaslettum. Eggverplar voru vondir menn og hættulegir.
Guðmundur Andri kom fram sem rödd skynseminar þar sem hann hóf á loft hálfegglaga bolla á litinn eins og fúlegg að utan en gullegg að innan – og talaði vitið í þjóðina. Ólíkt Hallgrími sem lofsöng hlutverk eggsins í byltingunni – var eggið orðið óvættur.
Byltingin var búin að éta eggin sín.
1 ummæli:
Skemmtileg lesning.
Grimmt og hárrétt.
Skrifa ummæli