1. október 2011

Hinn óði skríll og vonbrigðin

Janúar 2009 var dálítið sérstakur mánuður í íslenskum stjórnmálum. Þá var íslenska þjóðin orðin svo reið að hún var tilbúin að beita örvæntingarfullum aðferðum við að frelsa sig frá illu. Sumir voru aukinheldur orðnir svo reiðir að þeir vildu helst lumbra á ákveðnum ráðamönnum.

Næstsíðustu viku janúarmánaðar urðu meiri breytingar á stjórnmálunum en langa hríð þar á undan. Á sunnudegi var Höskuldur Þórhallsson kynntur sem nýr og bættur formaður Framsóknarflokksins – í svona korter – eða allt þar til Sigmundur Davíð sveif fram á sjónarsviðið sem hinn mikli samfélagsbætir. Nánast um leið bað Framsókn um aðildarviðræður að ESB.

Guðni Ágústsson sem hafði mátt sjá flokkinn sinn þola hnignun sagði að í sólskininu sem umlyki flokkinn færu jafnvel gamlir símastaurar að syngja og yrðu grænir aftur.


Og Framsóknarflokkurinn horfði stoltur framan í heiminn og sagðist hafa gert sitt og spurði hvað aðrir ætluðu að gera til að endurreisa Ísland.

Í því kom Alþingi saman á ný. Og þá nótt kveiktu mótmælendur bálköst framan við Alþingishúsið. Og fólk barði bumbur og kastaði mat í Alþingishúsið. Meirihluti þjóðarinnar studdi mótmælin. Samfylkingin sagði engu þjóna að rugga bátnum. Samstarfinu yrði haldið áfram við Sjálfstæðisflokkinn, sem hafði boðið kosningar í maí. Steingrímur J. Sigfússon sagði mótmælendur í rétti og hófsama í aðgerðum og kröfum og flokkssystkin hans kröfðust þess að Sturla sliti þingfundi vegna mótmæla. En þingið kaus að grafa hausinn í sandinn og láta eins og ekkert væri.

Kvöldið eftir dó ríkisstjórnin.


Fyrr um daginn hafði múgur reynt að krækja í forsætisráðherrann þar sem hann keyrði heim úr vinnunni. Hallgrímur Helgason, sem alltaf hafði dansað dyggilega með Samfylkingarlínunni, reyndi að berja manninn sem Ingibjörg Sólrún harðneitaði að slíta sambandi við. Um kvöldið funduðu reykvískir Samfylkingarmenn í Þjóðleikhúskjallaranum og voru fljótt umkringdir af sama múg. Það stóðust litlu hjörtu Lúðvíks, Ágústs Ólafs og fleiri ekki. Og á sama tíma og Imba sannfærði Geir um að ekkert væri að óttast þrýsti múgurinn flokknum út úr ríkisstjórn – og Imbu frá völdum.

Á fimmtudegi og föstudegi reyndi Imba að bjarga því sem bjargað varð.  Vinstri grænir, sem voru eini flokkurinn sem stutt hafði mótmælendur, mældist með fjórðungs fylgi í skoðanakönnunum. Helgin var notuð til að geta kennt Sjálfstæðisflokknum um stjórnarslit. Sífellt harkalegri og stærri kröfur voru settar upp á borð uns Geir sagði: „Fokk it! Sleppum þessu bara.“ Um leið, til að halda andlitinu, var Björgvin G. látinn segja af sér.

Viku eftir að Sigmundur Davíð steig fram sem frelsari Framsóknar gerði hann díl við Samfylkingu og Vg um að verja ríkisstjórn Jóhönnu vantrausti.

Ríkisstjórn sem m.a. féll vegna þess að Geir Haarde neitaði að hafa alþingiskosningar fyrr en í maí dó í lok janúar og Steingrímur og Jóhanna sýndu Geir hvernig hann hefði átt að gera þetta með því að halda kosningar, þar sem Vg vann stórsigur, þann 25. apríl.

Það sem almenningur græddi á því að bylta ríkisstjórn sinni voru kosningar hálfum mánuði fyrr en annars.

Og það er dálítið saga endurreisnar Íslands.

Ríkisstjórnin sem síðan hefur setið hefur fyrst og fremst verið ríkisstjórn hinna praktísku lausna. Hugsjónaeldur eða alvöru lýðræðisumbætur eru ekki hátt skrifaðar. Skömm formanna stjórnarflokkanna á stjórnarfarinu á landinu síðustu ár hefur því miður ekki skilað sér í úrbótum heldur enn meiri vanvirðingu. Og athöfnum sem bera þess merki.

Í raun má segja að það eina sem þjóðin „græddi“ á byltingunni hafi verið þessar tvær vikur. Og eftir því sem tímanum fleygir fram virðast þær sífellt minna virði.

Varla eitt einasta orð af því sem sigurvegari kosninganna, Steingrímur J., sagði fyrir kosningar tók hann með sér í stjórnarsamstarfið. Hann tók við Icesave-málinu og ákvað upp á sitt einsdæmi að það kæmi lýðræðinu ekki við. Hann sagði að ríkisstjórnin myndi leggja fyrir þingið umsókn að ESB en að um meira yrði ekki samið. Í þinginu fengi hver einasti þingmaður Vg að taka persónulega afstöðu til málsins. Þegar hann sá að kosningin myndi ekki hafast (enda hafði megnið af Framsókn nú gleymt því hvað flokkurinn vildi) kaus hann með þrátt fyrir að vera á móti.

Hann var ekki með aðild að ESB – hann var með aðild að ríkisstjórninni.




Á meðan beið fólkið sem hafði fellt fyrri ríkisstjórnina eftir umbótunum. Á sama hátt og Framsókn beið eftir frelsandi fjallræðum hins unga formanns. Hvorttveggja lét á sér standa.

Og menn fóru aftur að kvarta. Aftur að kasta mat í þinghúsið.

Þingmaður fékk egg í höfuðið.


Og skyndilega fór fullt af fólki að tala eins og nú hefði málið fyrst orðið alvöru. Fólk sem gat setið það af sér að gerður væri aðsúgur að Geir Haarde svo hjörð lögreglumanna þurfti að forða honum burt – varð skyndilega alvöruþrungið í fasi þegar egg sem kastað var af meira kappi en forsjá slapp framhjá regnhlífum vöðvatröllanna og lenti í hausnum á þingmanni í staðinn fyrir að lenda þar sem það átti að lenda – í hausnum á lögreglumanninum sem tók að sér að láta grýta sig í stað þingmannanna. 

Á sama tíma var Jóhanna Sigurðardóttir leidd eins og hrædd lítil hæna á milli kirkju og þings. Dorrit sem reif sig lausa frá lífverðinum sem ætlaði að banna henni að fara til þessa óða múgs fékk að vera óáreitt. Múgurinn reif hana ekki í sig. Hengdi hana ekki í draktinni utan á Hótel Borg. Enda gerði hún mótmælendur að mönnum með því að ganga til þeirra, tala við þá, gráta með þeim og kyssa þá. Hún brúaði bil mennskunnar á milli sín og reiða fólksins. Á meðan alþingismennirnir beittu fyrir sig ómennskum búningum. Ómennskum segi ég, því manneskjurnar sem í búningunum voru voru ekki á bandi þingmannanna.


Ástæða þess að enn er mótmælt er sú að þessi ríkisstjórn hefur ekki getað boðið neitt sem hin gat ekki boðið. Málin standa svo að jafnvel þótt menn fegnir vildu og væru fullir af hugsjónaeldi og óttalausir (sem menn eru svo sannarlega ekki) þá væri ekki hægt að gera allt fólkið aftur glatt. Það eina sem ríkisstjórnin getur boðið er naglasúpa, eða naglasúpa með salti; kosningar í maí eða lok apríl. Ef ríkisstjórnin ætlar að láta dæma sig af verkum sínum er ég hræddur um að það yrði freistandi að taka upp limlestingar á sýslumörkum og gapastokka.

Það sem hefði mátt gera í þessa þrjátíu og eitthvað mánuði sem ríkisstjórnin hefur nú fengið í verðlaun fyrir að flýta kosningum um tvær vikur – er að telja fólkinu í landinu trú um það að á þingi sitji fólk sem virkilega tekur hlutverk sitt alvarlega og trúir á lýðræðið. Fólk sem er tilbúið að tala við reiða fólkið – í stað þess að láta grýta svekktar löggur. Fólk sem er ekki svona helvíti miklir stjórnmálamenn, falskir, lygnir og snöggir að skipta litum. Það vantar öll grunngildi í íslenska stjórnmálamenn. Þeir eru ekki heiðarlegir, hvorki í orðum né gjörðum. Þeir eru enn í þessum leik sem Imba lék með Geir og Dabbi með Dóra. 

Það var engin ástæða til að leiða Jóhönnu í hvarfi milli tveggja risa og undir regnhlíf á milli húsa. Það var enginn óður skríll á Austurvelli í dag. Það var fólk sem finnst ekki hlustað á sig. Og svo nokkrir ólátabelgir. Sem halda sig aftarlega en haupa fram til að kasta einu og einu eggi. Hörfa svo jafnharðan aftur.

Enginn þingmaður hefði lenti í hættu við að fara til fólksins. Engum hefði verið unnið mein. Eggjakastararnir eru ekki sérlega hugrakkir eða harðir í andófi sínu. 

Fólkið hefði kannski skammast eitthvað og talað yfir hausamótunum á þingmönnum – en þetta er ekkert vont fólk. Þetta er ekki illt fólk. Þetta er aðallega eldra fólk sem hefur ekki tækifæri til að veðja á það að því dugi restin af ævinni til að bæta fyrir þann skaða sem gráðugir og óheiðarlegir menn hafa valdið þeim. Og þetta fólk skilur ekki af hverju þingmenn gera ekki neitt.

Sem er eðlileg spurning.

Því engin umsókn að ESB, engin grilla um vinstri velferð, ekkert af verkum ríkisstjórnarinnar réttlætir þau stórkostlegu glöp og gagnsleysi sem fylgt hafa stjórnuninni síðustu ár. Það er ekki hægt að verja andlýðræðislega stjórnarhætti og vanvirðu fyrir lýðræðinu. Það hefur ekkert breyst. Allt er keyrt áfram á loforðum um eitthvað sem gæti orðið, bara ef þjóðin lætur sér nægja að trufla ekki skipstjórann á meðan hann keyrir í hvern brimskaflinn á fætur öðrum. 

Og það eina sem kemur í veg fyrir að mótmælin nái tilgangi sínum er að enn sem komið er enginn sannfærandi kominn fram sem getur boðið fólkinu að uppskera tveim vikum fyrr. Og enginn nýr Sigmundur Davíð.

Það eru ekki löggur sem vernda Alþingi fyrir reiði múgsins. Það er vonleysið – sem hlaut að fylgja þessum barnalegu lausnum sem boðið var upp á í janúar 2009.

1 ummæli:

Eva sagði...

Það sýndi sig allavega að óði skríllinn hjólar ekki í þá sem koma til skrílsins.

Það sem ávannst með búsáhaldabyltingunni var að fólk sá að múgurinn getur haft raunveruleg áhrif og það þarf ekki að kosta blóðsúthellingar. Það sem mistókst var að fáir áttuðu sig á því að vandamálið var ekki fólkið á alþingi heldur stjórn- og efnahagskerfi sem er í eðli sínu andfélagslegt. En það gerist. Smátt og smátt.