1. október 2011

Heimar sem þurfa að kynnast

Það er undarlegt að vera kennari í Reykjavík í dag.

Það eru mörg ár síðan ég fór að nota tölvur til að miðla námsefni og hætti að nota venjulegar kennslubækur. Síðustu ár hef ég starfað í teymi í Norðlingaskóla sem er að reyna að flytja sem mest af námsefni á rafrænt form.



Einn af kostum þess að hafa „lesefni“ rafrænt er að þá er hægt að hafa það dínamískt. Öllu lesefni í náttúrufræði fylgir t.d. upplestur (vegna þess að við erum löngu búin að sjá að lesskilningi er áfátt).


Ég hef líka haldið utan um náttúrufræðina á Feisbúkk. Þar er grúppa og ég get miðlað efni í gegnum hana, nemendur geta spurt mig spurninga og við getum notað Feisbúkk-forrit til að gera krossapróf og upprifjanir o.s.frv.


Og í vetur erum við að þróa okkur áfram með nýja nálgun á íslenskukennslu þar sem við notum Google+, Blogger, Gmail og GoogleDocs og stígum fyrstu skref að útrýmingu pappírs í náminu.


Síðasta vor þegar teymið settist niður til að ræða málin um hvað virkaði og hvað ekki ákváðum við í sameiningu að næsta skref á dagskrá væru spjaldtölvur. í Itunes-store er mikið magn af öppum sem hönnuð eru til tungumála- og raungreinakennslu. Öppin koma í stað hefðbundinna kennslubóka.

Við lögðum því inn pöntun fyrir nokkrum æpöddum, því við vorum beðin um að gera búnaðarskrá. Við vorum að hefja kennslu í nýju húsnæði og það þurfti að kaupa nú tól og tæki.


Þegar við mættum til starfa var okkur sagt að beiðni um æpadda hefði verið synjað. Litið hefði verið svo á að þeir væru óþarfi. Í staðinn fengum við slatta af rándýrum Smart-töflum (sem eru mjög ofmetnar) og keyptur var haugur af nýjum fartölvum. Það var því ljóst að synjunin snérist ekki um krónur og aura eða kreppu – það var einhver önnur fyrirstaða.

Þegar við hófum svo kennslu kom í ljós að það er hægt að vera með 1/4 af fartölvunum í gangi í einu, því aðrir ná ekki að logga sig inn – of mikið álag á kerfið.

Það var haldinn fundur með tæknideildinni.

Þangað mætti maður sem sagði mér að ég væri Apple-elskandi vitleysingur sem hefði ekkert vit á tölvum og tækni. Næsta áratug eða svo myndu tæki sem nota þráðlaust net aldrei verða ráðandi. Snúrur væru málið. Og að tölvukennsla ætti að snúast um að kenna krökkunum að logga sig inn í kerfi og þvíumlíkt.
Við hnakkrifumst. Ég benti honum á að það væri hlutverk tölvudeildarinnar að styðja við frumkvæði okkar, ekki að stýra okkur. Við vissum nákvæmlega hvað við værum að gera. Þetta væri þróun í öllum löndum í kringum okkur og ekki af tilviljun. Með því að flytja sig yfir í spjaldtölvur væri hægt að sneiða hjá ýmsum vandamálum. Auk þess sem þær gætu leyst kennslubækur af hólmi.

Hann fullyrti að þetta væri bóla. Og þetta var maðurinn sem hafði strækað á að við fengjum svona tölvur í vor – en sá til þess að við fengjum nóg af öðru drasli sem við báðum hvorki um né fengum kennslu á.


Ég var enn fokreiður þegar ég fór á fund ásamt öðrum úr teyminu á Kjarvalsstöðum. Þar var Björk Guðmunds að skipuleggja samstarfsverkefni með skólanum okkar og öðrum skólum. Þar var líka yfirmaður menntamála í borginni.

Ég fór næstum að hlæja þegar í ljós kom að verkefnið, sem öllum leist vel á og allir ætla að gera að miklu stærra og langvinnara verkefni, snýst um einn tiltekið æpadd-app. Rosalega flott vísinda/tónfræði-app sem Björk lét gera. Og hún er sjálf farin að semja tónlist á smátölvur.

En það var bara eitt lítið vandamál. Enginn skóli sem tekur þátt í verkefninu á æpadd. Svo það verður einhvernveginn að redda því. 

Og í Mogganum í morgun hefur starfshópur komist að því að skólar þurfi að kynna sér þá margmiðlunartækni sem er möguleg í dag  – ef þeir ætla að eiga séns í að vekja áhuga drengja.

Sem sagt: á sama tíma og kennarar í Reykjavík þurfa að vaða eld og brennistein til að fá að þróa starfið inn í nýja tækniöld hugleiða yfirmenn borgarinnar hvernig í ósköpunum megi fá kennara til að taka tæknina upp. Hvorugum verður ágengt. Vegna þess að í miðjunni lúrir miðlægt stofnanaskrímsli sem ekki styður við sjálfstæði og frumkvæði heldur hamast við að steypa alla í sama mót.

6 ummæli:

krilli sagði...

Samgremst og hryggist.

Kennsluaðferðirnar gleðja þó! Nasasjónin inn í techno-skólastofuna lofar góðu. Takk takk.

Varðandi búnaðarkaupin -
Má ég spyrja nánar út í tæknina sem var keypt? Þ.e. frá hvaða framleiðanda er þetta? Það er líka mjög forvitnilegt frá hvaða íslenska fyrirtæki þetta er komið.

Takk.

Unknown sagði...

Tölvurekstur Reykjavíkurborgar er frægur fyrir lélegheit og afturhaldsrembu.

Hvað eru Smarttöflur?

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Ég veit ekki hvaða fyrirtæki selur borginni. En dótið er frá IBM.

http://fpstech.wikispaces.com/file/view/smartboard2.jpg/91115023/smartboard2.jpg

Tryggvi sagði...

Ég skrifaði bloggfærslu fyrir tæpu ári um hvernig kraftur kerfisstjóra heftir framfarir. Hún er reyndar á ensku og kannski fulltæknileg á köflum en kemur inn á sama mál. Útgangspunkturinn minn var reyndar sá við ráðum inn sérfræðinga sem vita hvernig er best að vinna (t.d. kennara) og svo ráðum við kerfisstjóra sem hafa nægilega mikið vald til að ákveða hvernig sérfræðingar eiga að vinna.

XKCD lýsti þessu mjög vel í skemmtilegri myndasögu.

Nafnlaus sagði...

Smá innlegg frá mér um þetta
http://www.sfjalar.net/2011/10/02/um-heima-sem-thurfa-ad-kynnast/

Björgvin Ívar sagði...

Ég var að sjá þennan pistil frá þér fyrst núna en það er svo margt í honum sem ég þekki af eigin reynslu.

Það er morgunljóst og gríðarlega mikilvægt að við förum að velja búnað inn í skólana okkar út frá þeirri vinnu sem við vinnum í skólanum, ekki út frá forsendum kerfistjórnenda eins og greinilega er gert í dag í Reykjavík.

Mér finnst það lykilatriði þegar búnaður er valinn að hann sé til þess fallinn að við sem erum að vinna í skólanum getum notað hann til að uppfylla það sem okkur ber að uppfylla samkvæmt námskrám. Í námskrám er fókusinn á færni nemenda og að þeir séu virkir gerendur í námi sínu en ekki bara viðtakendur.

Mín tilfinning er sú að tæki eins og Smart töflur hafi ekki almennilega náð í gegn sem tæki sem nemendur eru að nota í sinni vinnu. Frekar eru þær tæki fyrir kennarann sem vill halda flotta fyrirlestra (sem er ekki kennsluaðferð sem mér hugnast í grunnskóla frekar en á öðrum skólastigum ef út í það er farið) Í mínum huga er skjávarpi meira enn nóg á langflestum stöðum þar sem nú er Smart tafla.

Mér finnst mjög leitt að ykkur var hafnað með beiðnina um að kaupa iPad því þar erum við með tæki sem hægt er að nýta á mjög fjölbreyttan hátt. Kostirnir við iPad til að taka við efni á margvíslegu formi eru augljósir en það sem mér finnst merkilegast er hversu öflugt tæki þetta er til sköpunar. Ég hef tekið upp, búið til og klippt myndbönd,teiknimyndir og tónlist og tækið er að ráða við þessa vinnu og er í augnablikinu að prófa með nemendum til að sjá hvernig tækin ráða við það.

Gott í bili