11. október 2011

Hin óumflýjanlega gagnsókn trúaðra

 Það er erfitt að vera trúaðir í Reykjavík í dag. Þótt það eigi að heita svo að það ríki trúfrelsi þá eru skoðanir trúmanna leynt og ljóst fordæmdar. Opinberu fé og skólum er beitt gegn trúfélögum – ekki sem lið í almennri friðhelgi skóla – heldur sem þætti í pólitískri baráttu gegn trúfélögum.

Nú er ég harður fylgismaður þess að börn njóti ákveðinnar friðhelgi innan skylduskólans. En ég er enn harðari fylgismaður þess að almenn skynsemi og umburðarlyndi sé haft að leiðarljósi.

Í dag startaði til dæmis í fjölmörgum skólum í Reykjavík Raunveruleikurinn svokallaði. Sem er frábært kennslutæki sem mætti brýnni þörf. Enginn amast við því. Samtsemáður er Raunveruleikurinn mjög beinskeitt markaðstól fyrir Landsbankann. Það er verið að ala upp framtíðar viðskiptavini eins tiltekins banka. Heimasíða leiksins er í sjónhendingu ógreinanleg frá vefsetri bankans sjálfs. Og leikurinn er sjálfur dýrkun smáborgaralegs og kapítalísks lífernis.Inn í skólana koma allskyns gestir. Fólk og félagasamtök sem vilja koma boðskap sínum á framfæri. Oft í innrætingarskyni. Sumir af þessum gestum eru fullkomlega óhæfir til slíkra heimsókna. Þannig man ég í svipinn eftir a.m.k. þremur dæmum þess að mér sem kennara hefur blöskrað algjörlega það sem fram hefur farið í skólanum undir slíku yfirvarpi. Engin þeirra heimsókna snérist um trú.

Trú er vissulega viðkvæmt mál og það má vel vera að það sé ekki við hæfi að börn séu leidd í messur eða fái trúarrit á skólatíma – þótt ég telji að það sé reyndar að mestu leyti skaðlaust, og geti jafnvel verið gagnlegt (trúlausum sem trúuðum). En sá hroki og sú óvild sem margir af mínum trúlausu skoðanabræðrum beita í garð trúaðra er ofstopakenndur. Trúað fólk er á vissan og mjög áþreifanlegan hátt lagt í einelti. Vegna trúar sinnar. Og sú upplifun er ekki úr lausu lofti gripin að verið sé að „banna“ tilteknar skoðanir og tilteknar bækur á opinberum vettvangi.

Bann hefur aldrei þjónað hagsmunum sannleikans. Bann hefur aldrei aukið veg gagnrýnnar hugsunar. Bann er örþrifaráð sem beita á til að verja fólk gegn raunverulegum og aðsteðjandi skaða. Ekki til að girða þá úti sem maður er ósammála.

Ýmis samtök munu eftir sem áður hafa aðgang að grunnskólabörnum. Því verður hamrað inn í hausinn á unglingum að kynlíf fyrir hjónaband, sjálfsfróun og jafnvel kynlíf með einstakling af sama kyni séu ekki aðeins eðlileg, heldur jafnvel æskileg breytni. Hvað sem líður skoðunum einstakra foreldra á þeim málum.

Börnum verður áfram boðið upp á að fela Landsbankanum að höndla með launin og fjárfesta í Raunveruleiknum – hvað sem einstakir foreldrar segja við því.
Börn verða áfram maríneruð í samfélagslegum normum sem við samþykkjum samt öll að leyfilegt sé að draga í efa eða andæfa. Foreldri má ala barnið sitt upp sem anarkista eða kommúnista og kenna því að ógæfa landsins sé kapítalinu að kenna. Foreldrar mega kenna börnum sínum að þótt tiltekin kynhegðun sé viðtekin í landinu þá sé hún langt frá því að vera æskileg eða heilbrigð.
Það sem fólk hinsvegar fær ekki – er friðhelgi í skólakerfinu. Í hinum almenna skóla er nefnilega grundvallaratriði að börnin finni margvíslega strauma samfélagsins leika um sig. Sjái að það eru til fleiri manngerðir og fjölskyldugerðir en þeirra eigin. Átti sig á fjölbreytileikanum og stígi fyrstu skrefin til að taka sér sjálfstæða stöðu í samfélaginu.
Hvort skyldi í raun vera „skaðlegra“: Að barn trúleysingja fái afhenta bók sem foreldrið vill ekki að það fái afhenta? Eða að barn trúaðs sitji undir innrætingu á kynhegðun sem stangast á við grundvallargildi foreldra þess? Svona í alvöru? hvort ætli sé meira áhrifaafl: gídeon eða kynhvötin? Hvort ætli hafi verið meira lesið eða riðið á subbulegum hótelherbergjum í gegnum tíðina?
Ef foreldrar ætlast til að skólinn sé hlutlaus um allt sem fellur undir innrætingarrétt foreldra – þá er ansi fátt orðið eftir. Og ef skólinn verður þessi hlutlausa stofnun þá er æði mikið tapað.
Það sem hlýtur að gerast nú er að trúaðir, ef þeir eru ekki þeim mun meiri vinglar, gera gagnsókn. Fara fram á að skólinn hætti að stuðla að innrætingu sem þeir eru ósammála.

Gagnvart trúlausum sem hlökkuðu yfir því að nú væri síðasti naglinn rekinn í ristar krists – þá er viðbúið að áhrifin verði þveröfug. Kristni þrífst aldrei betur en þegar kristnir menn eru ofsóttir. Um leið og ofsóknirnar hætta sekkur hún í hægindið og lognast útaf.
Það sem kristnir geta gert er að opna sitt eigið frístundastarf, leikskóla, grunnskóla – þar sem þeir geta í friði innrætt börnum sínum það sem þeir vilja. Þau börn fara „ómenguð“ af flekkjum okkar hinna inn í lífið. Mótast aðeins af einni hönd. Alveg eins og við þykjumst nú vilja viðhalda flekkleysi okkar barna gagnvart þeim kristnu.
Og trúboð, drottinn minn dýri, hvað það er mikill markaður fyrir það. Sjálfboðaliðar sem starfa við dagvistun geta nýtt sér getuleysi og áhugaleysi yfirvalda í Reykjavík á frístunda- og leikskólamálum til að opna faðm sinn fyrir börnum sem þurfa samastað. Fátækir foreldrar geta fengið inni á trúarlegum stofnunum. Það væri hægt að stofna eftirsótta einkaskóla, sem myndu skjóta almennum skólum ref fyrir rass.
Með öðrum orðum: þegar við afneitum tilvist og tilverurétti þjóðfélagshópa þá skulum við ekki verða hissa þótt við kljúfum samfélagið við það. Og klofið samfélag er allsekki það sem við þurfum.
Við þurfum að læra að lifa saman. Þótt við séum ósammála.
Við þurfum að læra að beita ekki valdi gegn þeim sem við teljum hafa á röngu að standa og dáleiða sjálf okkur með hentirökum.
Við þurfum að umbera annað fólk – líka sérviskur þess og vitleysur.
Og við þurfum að átta okkur á því að hlutleysi er ekki valkostur. Allt opinbert felur í sér afstöðu. 

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þetta er mergjað Ragnar og hafði þakkir fyrir. kveðja

Eva Hauksdóttir sagði...

Hver segir að enginn amist við áróðri Landsbankans í skólum? Ég vissi ekki af þessu fyrr en í dag en ég er brjáluð og rúmlega það.

Það eru ekki ofsóknir gagnvart trúuðum að hindra trúboð í skólum. Ekki fremur en það væru ofsóknir gagnvart lauslátum að biðja þá að halda skoðunum sínum á frjálsum ástum utan grunnskólans.

Ég er alveg til í að leyfa Gídeonmönnum að koma í skólana og boða kristna trú, þegar ég fæ að koma þangað og boða satanisma, anarkisma og megna andúð mína á Landsbankanum.

Nafnlaus sagði...

kristnir ofsóttir!?

ertu að grínast ?