12. október 2011

Mér mótmælt

Ég hef fengið fínar athugasemdir varðandi pistil minn um Gídeon. Mig langar að rekja helstu mótrök – og svör ef einhver eru.

Pistillinn minn fjallaði um það að Reykjavíkurborg og sumir trúleysingjar gengju fram á ofstopakenndan hátt gagnvart trúfélögum (sem aðallega beindist gegn kristni) og að krafa um „hlutleysi“ skóla í trúmálum, sem gengi svo langt að Gídeon fengi ekki lengur að gefa testamenti, væri gölluð á tvennan hátt: í fyrsta lagi væri hlutleysiskrafan óskynsamleg og í öðru lagi óframkvæmanleg – því skólar hlytu og ættu að „umbera“ ýmsa stefnur og strauma í samfélagsgerðinni hvort sem einstakir foreldrar eða nemendur aðhyllast þá strauma eða ekki. Þá bætti ég því við að það sem réttmætt væri að túlka sem andúð og ofsóknir væri líklegra til að efla trúboð en dempa það – og því ekki góð „taktík“ þeirra sem gangast við því að vilja trúna feiga.

Þar sem þessi komment birtust öll á einkavettvangi ætla ég ekki að nafngreina þá sem standa að baki þeim og þeir gangast þá við þeim sjálfir hafi þeir áhuga á því.

Mótrök:

1. Það er ekki verið að úthýsa einum eða neinum. Það er verið að hindra menn í að „valsa um“ skólana sem hafa fengið séraðgang að börnum. Aðeins vegna hefðarinnar, sem er engin ástæða til þess að það haldi áfram.

2. Jafnvel þótt allt sem dregið er fram um mögulegan klofning í samfélaginu og eflingu trúboðs í pistlinum þá er ekki rökrétt að „trúboð“ í skólum séu eðlileg viðbrögð við slíkri hættu. Börn eiga að búa við það öryggi að það sem þar er kennt sé skásta þekking sem við eigum en ekki visvítandi brenglun, bjögun eða fúsk.

3. Er þá ekki rökrétt framhald að pólitískir hagsmunaðilar fái aðgang að börnum og fái að afhenda þeim áróðursrit?

Ég vona að ég nái sæmilega kjarnanum í gagnrýninni. Ég er sannarlega að reyna að tína til sterkustu mótrökin.


Það gefur auga leið að hér að ofan er kjarnaröksemdin sú sem felst í öðrum lið um hlutverk skólans eða skyldu hans til að bjóða aðeins upp á það sem er „skásta þekking“ hvers tíma. Raunar bætti sú sem kom með þessi rök því við í framhaldinu að hugsanlega væri sniðugt að leyfa nemendum að komast í snertingu við ýmsa ágenga hópa en þá undir vernd kennara og aðeins að því uppfylltu að nemendur væru jafnframt undirbúnir í að taka gagnrýna afstöðu og spyrja erfiðra spurninga.

Og þar hittir hún alveg rækilega á minn púls í þessari deilu. Ég er einmitt nákvæmlega á þessari línu. Það er að í stað þess að skólinn sé dauðhreinsað, hlutlaust og öruggt umhverfi þá sé skólinn eftirmynd af samfélaginu. Þar sem nemendur af allskyns bakgrunni kynnist og fræðist um mismunandi manngerðir og afstöður og læri jafnvel (þegar þeir eru komnir með þroska til) að takast á við þá sem vilja innræta þeim eitt og annað.

Það má líkja þessu við skólann sem afeitrun eða skólann sem bólusetningu. Fyrir þessu eru ýmis rök. En flest miða að því sama: ég skil þá frumskyldu skólans að undirbúa nemendur undir nám og störf í lýðræðisríki sem kröfu á að nemendur læri að þekkja samfélag sitt í þaula (ekki aðeins það sem talið er skást á einn eða annan hátt), þjálfist í að taka afstöðu og séu efldir til þess að ráða eigin málum eftir megni. Og ef þetta er vel gert og ekki í einhverju óðagoti þá er fullkomlega óhætt að nemendur fái að kynnast fjölbreyttri flóru mannlífsins. Og að þeir hitti búddista, kristna, evrópusinna eða ásatrúarmenn.

Sextán ára unglingur er þegar búinn að vera í nokkur misseri að endurskilgreina sjálfan sig og er byrjaður á vegferð sinni. Ef skólinn, sem er oft hans eini alminlegi félagslegi vettvangur, hlífir honum við öllu umdeildu og lætur nægja að afhenda honum dauðhreinsaða faglega þekkingu þá fer þessi einstaklingur veiklaður út í lífið.

Þess utan þá ofmeta menn stórkostlega áhrifamátt þess að einhverjir kurteisir karlar komi í heimsókn í korter og gefi börnunum bók. Og það er róttækur hugtakaruglingur að með því sé verið að leyfa einhverjum að vaða uppi eða að skólinn sé farinn að kenna lygasögur.

Skólinn er ósköp einfaldlega að „opna glugga“ út í samfélagið sem bíður utan kennslustofunnar. Alveg eins og hann gerir í ótal tilfellum öðrum.

Ég nefndi í gær að Landsbankinn er frá því löngu fyrir hrun búinn að kenna fjöldanum öllum af unglingum álveðin atriði lífsleikni og fjármálalæsis. Það er ekki amast við því. ÍTR sem er samstofna fyrirbæri notar vinsæla tónlistarmenn grimmt til að hafa ofan af fyrir börnunum – og borgar jafnvel mönnum fyrir að baula yfir hausum ungmenna texta sem eru stútfullir af karlrembu og andfemínískum viðhorfum. Á vegum Samfés eru haldin böll sem á stundum hafa orðið uppeldisstöðvar fyrir lauslæti og óábyrga hegðun. Allt er þetta gert af opinberum aðilum, með opinberu fé.

Ég þykist vita að mörgum trúuðum foreldrum þyki skólinn og hið opinbera félagslíf mjög fjarri því að vera hlutlaust eða einu sinni ásættanlegt. Nú er hópur femínista til dæmis draugfúll yfir því að kennslubók um miðaldasögu Íslands skuli ekki innihalda nógu margar konur.


Það eru ansi margir sem myndu vilja fá að móta skólann og annað umhverfi barnanna eftir sínu höfði, með innrætingarsniði. Þarf ekki að horfa lengra en til femínista með það.

Hvað ef einhverjar karlpungrottur myndi ákveða að femínismi væri, þrátt fyrir allt, ekki skásta „þekking“ sem í boði væri og að banna ætti heimsóknir með unglinga til femínista, eða banna femínistum að koma í skólana. Hvað þá ef tilgangurinn væri að gefa börnunum bæklinga, barmmerki eða annað sem myndi vekja þau til umhugsunar?

Ég sé bara nákvæmlega ekkert athugavert við slíkar heimsóknir og hef raunar planað slíka heimsókn í skólann okkar. Mér er nákvæmlega sama þótt ég sé ekki sammála femínistum um allt (og raunar mjög ósammála þeim um sumt). Mér er líka sama þótt það kunni að vera svo að í námshópnum séu uppeldiskarlrembur sem eiga foreldra sem telja það sitt einkamál að ala börnin upp með megna andúð á femínistum.

Femínistar eru einfaldlega einn af mörgum samfélagshópum sem skipta máli. Femínismi er einn af þeim búningum sem nemendur mínir kunna að klæðast í framtíðinni.

Ég myndi líka gjarnan að Siðmennt kæmi skipulega í skóla í 7. eða 8. bekk og kynnti borgaralegar fermingar. Ég læt 8. bekkinn minn lesa ræður í íslensku sem fluttar voru yfir fermingarbörnum Siðmenntar. Ég læt þau líka lesa femínisk textabrot. Sem og fleiri en einn homma. Ég ætla líka að láta þau lesa sum af fegurstu brotum Biblíunnar.

Og það er nákvæmlega ekkert að því.

Skólar eru fullir af áróðri. Ef einhver tæki sig til og rannsakaði allt það sem fyrir börnunum er haft þá kæmi í ljós að sá reynsluheimur sem hið opinbera hefur hannað utan um börn og unglinga er órafjarri því að vera hlutlaus eða einskorðast við „skástu tiltæku þekkingu.“

Skólar eru innrætingarstofnanir. Í fyrramálið hefur til dæmis boðað komu sína í skólann minn einhver undarleg samsuða sem Mannréttindaráð Reykjavíkur ætlar að láta koma í stað Gídeonmanna. Það er hópur fólks sem eftir því sem ég kemst næst er valið til að vera alveg átakanlega og stereótípískt minnihlutafóll. Þau skilaboð fylgdu að við værum beðin um að „undirbúa“ nemendur undir heimsóknina, sem felur auðvitað í sér að við eigum að gera krakkana mótttækilega fyrir því að upplifa heimsóknina „rétt“.

En vitið þið hvað krakkarnir í unglingadeildinni okkar þrá mest?

Jú, þau langar til að fá Skúla rasista í heimsókn. Því Björn samkennari minn sem kennir samfélagsfræði og er einmitt að fjalla um nasisma og skyldar óværur bauð Skúla í heimsókn einhverntíma þegar ég var að þrasa við Skúla. Og síðan þá hafa nemendur suðað um að fá Skúla í heimsókn. Í hvert skipti sem við segjum að það séu að koma gestir lifnar yfir þeim og þau verða alltaf jafn vonsvikin þegar þau frétta að það sé ekki Skúli.


Í dag sátu nokkrir krakkar áfram í skólanum eftir að kennslu lauk. Þau voru að æfa sig fyrir rökræðuna við Skúla. Þau voru búin að átta sig á því að það þýddi ekkert að verða reiður eða úthrópa hann. Hann myndi túlka það sem rökþrot. Þau voru búin að kafa heillangt niður í rök og mótrök og gera sér grein fyrir að þetta yrði erfitt þegar við þurftum að reka þau heim.

Í síðustu viku héldum við málþing þar sem ég rökræddi við tvo kennara um kommúnisma. Nemendur áttu að kjósa í lokin hvaða afstaða væri mest sannfærandi. Ég gersigraði rökræðurnar. Þeir einu sem kusu með hinum gerðu það að aumingjagæsku. En eftir sátu nokkrir krakkar sem neituðu að kjósa. Þegar ég ræddi við þá sagði einn að hann hefði neitað að kjósa vegna þess að umræðan hefði orðið ómálefnaleg, við hefðum skotið hverjir á aðra og það verðskuldaði ekki atkvæði hans. Annar kom til mín og sagði að ég hefði verið eins og Berlusconi. Fengið krakkana til að hlæja í stað þess að hugsa. Einn nemandi bætti við í dag að ég hefði „sigrað“ rökræðurnar því ég væri einfaldlega hæfari í að rökræða en hinir tveir. Það að mér tókst að hljóma sannfærandi snúist ekki um að ég hafi haft rétt fyrir mér – aðeins rökræðuhæfni.


Ég hef sjaldan verið stoltari af nokkrum nemendum. Þessi rök þeirra verða síðan rædd með öllum hópnum og ég afhjúpaður. Eftir nokkrar vikur munu næstu rökræður eiga sér stað. Þá munu nemendur rökræða og vonandi fá gesti utan úr bæ.

Skólinn á nefnilega ekki að vera dauðhreinsað fræðslusetur. Hann á að gera okkur meðvituð um hvert annað og fær um að velja okkar eigin leið gegnum lífið. Leið sem ekki er bara stikuð af skástu þekkingu – heldur skástu dygðum. Að við séum víðsýn, hugrökk og hæf. Að við séum vör um okkur og ekki ginnkeypt fyrir rugli – og að við séum búin að læra (fyrir 16 ára aldur) að það stendur upp á okkur að taka afstöðu enda séum við hætt að meðtaka einhliða  það sem aðrir vilja að við meðtökum og byrjuð að nema sjálf.

3 ummæli:

Eva sagði...

Það væri virkilega gott ef grunnskólinn funkeraði svona. En meðan nokkuð hátt hlutfall kennara skortir hæfni til gagnrýninnar hugsunar, hvað þá að kenna hana, vil ég frekar að foreldar fái að sjá um uppeldið sjálfir.

Ég skrifaði annars pistil um trúboð í skólum (einn af mörgum) sem kemur aðeins inn á hættuna á því að börn verði fyrir áhrifum af Gídeonmönnum. http://www.norn.is/sapuopera/2010/11/trubo_i_skolum_er_ekkert_skale.html

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Ég held það skorti líka tölvuvert upp á að kennarar kenni lestur, stærðfræði og fleira. Það er ekki ásættanlegt ástand. Og ekki óbreytanlegt heldur.

Gagnrýnin hugsun og þekking á samfélaginu er miklum mun mikilvægari en flest sem kennt er í skóla. Og á ekki að vera eftirlátin foreldrum einum.

Tinna G. Gígja sagði...

Þú nefnir að þér þætti í lagi að Siðmennt færi í skóla í 7. eða 8. bekk. Hvers vegna ekki í fimmta bekk eins og Gídeonsmenn?

Þetta væri kannske í lagi ef allir skólar störfuðu með það í huga að kynna nemendur fyrir sem flestum lífsskoðunum, en á meðan það eru *bara* Gídeonsmenn sem fá að heimsækja nemendur flestra skóla, og á meðan heimsóknum þeirra er ekki stillt upp sem einum margra möguleika, heldur víða sem sjálfsögðum sannleika, finnst mér sjálfsagt að takmarka aðgang þeirra að skólunum.

Eins finnst mér óásættanlegt að prestar (eða aðrir) vaði án athugasemda inn í skóla til að smala börnum til ferminga. Þegar ég sagði séranum - í miðjum saumatíma - að ég ætlaði ekki að fermast og rétti skráningarblöðin til baka, ýtti hann á mig og spurði hvort foreldrar mínir vildu ekki að ég fermdist. Hann var sýnilega vonsvikinn þegar ég stóð fast á mínu.