Greinin er ansi heimspekileg en rökstuðningurinn er á þá leið að kynhvötin sé blind á mjög margt og verði ekki aðskilin frá því félagslega samhengi sem hún er þáttur af. En vændi sé slæmt vegna þess að það sé „ónáttúruleg“ beiting kynfæranna – sem sannist á því að líkamlegri nánd fylgi andleg fjarlægð. Þegar „eðlilegt“ kynlíf sé þannig að nánd kynfæranna sé afleiðing af nánd hugarfarsins.
Að vísu tekur G.Andri fram að menn skyldu fara varlega í að skipta sér af kynhegðun annarra – enda hefur hann örugglega fundið hjá sjálfum sér að hann væri kominn út á hálan ís. Það er nefnilega svo að þegar menn veita sér val til að skilgreina félagsfræðilega ásættanlegt samhengi kynlífs þá er stutt í allskyns óhæfu. Og fyrirfram held ég að hvork G. Andri né það ágæta og greinda fólk sem ég hef séð deila grein hans með mikilli ánægju gæti samþykkt rökstuðning sem meðal annars inniheldur þessi þungaviktarrök:
Hinum líkamlega unaði er kippt úr sínu náttúrulega samhengi.
Svona röksemdir gæti maður nefnilega einmitt búist við að sjá hjá einhverjum sem amast við hommum eða getnaðarvörnum – eða einhverjum öðrum postula sem telur sig geta skilgreint, einn og sjálfur, hvað öðru fólki ætti að finnast um hegðun sína og framkomu, náttúrulegar hvatir og -skyldur.
Og því miður er greinin ekki lýsing á mörkum ásættanlegrar kynhegðunar og óásættanlegrar. Hún er lýsing á ídeali. Ídeali sem lítill forði raunþekkingar stendur á bak við.
Það má nefnilega skrifa nákvæmlega eins grein, nánast alveg upp á staf, gegn almennri kynhegðun ungra Íslendinga. Það má færa hjartnæm og nákvæm rök fyrir því að það sé „ónáttúra“ og félagslega ótæk nálgun í kynferðismálum að marínera dómgreind sína í áfengi til þess að maður geti krækt í djammfélaga, dregið hann með sér heim og riðlast á honum eins og getan býður upp á. Sem í flestum tilfellum leiðir til þess að báðir „halda sína leið“ daginn eftir – eins og í tilfelli vændiskarlsins og seljunnar. Djamm- , útihátíðarkynlíf og almennt lauslæti á engrar undankomu auðið undan brennipunkti þess stækkunarglers sem skilgreinir eðlilegt eða náttúrulegt kynlíf svo að það byggi á andlegri og félagslegri nánd og upplýstu samþykki.
Það er að vísu ekki augljóslega ólöglegt.
En aðgerðir Stóru systranna snérust ekki fyrst og fremst um virðingu fyrir lögum. Enda brutu þær sjálfar lög. Aðgerðir þeirra snérust fyrst og fremst um siðferðilega og félagslega fordæmingu á fyrirbæri sem svo vill til að löggjafinn hefur látið þeim og skoðanasystrum þeirra eftir að skilgreina lagalega.
Og það skiptir eiginlega engu þótt maður sé í grundvallaratriðum sammála viðhorfum þeirra til kynferðismála (sem ég er) – það er þessi lokapunktur sem maður strandar á. Að sameiginleg vandlæting okkar á körlum sem kaupa stelpur réttlæti að þeim sé skotinn skelkur í bringu.
Vafalaust er réttlæti slíks hafið yfir vafa í hugum þeirra sem líta á valdabaráttu sem tilgang lífsins. Og að allt megi réttlæta sem flytur völd (táknræn eða raunveruleg) af körlum til kvenna. Það veitir vafalaust ekki litla fróun að vita til þess að maður getur blakkmeilað einhverja valda-karla.
Það má svosem skilja það – þótt mér finnist það viðhorf í senn smásálarlegt og yfirborðskennt. Vald er svo miklu víðtækara og fíngerðara hugtak en að það sé fullskýrt af grófu, félagslegu samhengi. Það sem þorri fólks sækist eftir er tóm heimska og hjóm. Allar aðferðir þess við að beita valdi til að halda því útaffyrir sig snerta mig ekki neitt. Ég finn enga þörf hjá mér fyrir að mölva niður þá veggi til að komast að kötlum sem innihalda hvorteðer ekkert sem glæðir mitt líf tilgangi. Til hvers að slátra orminum og taka yfir sig eiturgusurnar ef maður er ekkert ginnkeyptur fyrir gulli.
Þannig er það vald sem fæst með blakkmeili og felst í að fá að stýra kynhegðun fólks – vald sem ég hef enga þörf fyrir eða áhuga á að beita.
Snúum þessu augnablik á haus. Segjum að mér blöskraði nú loksins skemmtanamenning Íslendinga og sú lágkúrulega og ónáttúrulega, vímudrifna, kynhegðun sem það á sér stað. Ég fullyrti beinlínis að kynhegðun sem felst í vímu og nálægðarlausum samskiptum – drifinni áfram af moldvörpublindri kynhneigð – væri skaðleg fyrir heilbrigði samfélagsins. Ekki aðeins á einhvern móralskan hátt (þótt hann vissulega líka) heldur líka á ýmsan annan hátt, t.d. með dreifingu kynsjúkdóma, gróðrarstíum fyrir nauðganir og annað ofbeldi auk almennt skorts á ábyrgð og réttlætingu.
Ég fullyrti að réttara væri að sveigja þjóðina (jafnvel með valdi) inn á heilbrigt, gott og æskilegt skemmtanalíf. Vímulaust. Þar sem fólk gæti nálgast gegnum sameiginleg áhugamál (jafnvel hjólbarðaviðgerðir), farið saman út að dansa, t.d. tangó. Þar sem hin líkamlega og andlega spenna myndi smám saman leiða til heilbrigðs kynlífs.
Og ég fengi lögreglunni sönnunargögnin og krefðist aðgerða. Lagalega á grundvelli þess að sú hegðun sem þarna kemur fram og það ástand sem fólkið er í er bannað samkvæmt landslögum. En fyrst og fremst vegna þess að ég teldi að samfélaginu stafaði dýpri, mórölsk ógn af því að umbera og jafnvel hvetja til svona lífernis.
Síðan myndi ég hóta því að birta myndböndin ef löggan gerði ekkert. Og loks gera þetta allt undir nafnleynd – og krefjast meðvirki með þeirri nafnleynd. Enda gæti ég mjög réttilega bent á að sumt af því fólki sem ég myndi „hrella“ með því að senda þeim „sönnunargögnin“ og hóta með löggum og afhjúpun gæti áreiðanlega varla stillt sig um að berja mig.
Skyldi ég með þessu móti jafnvel krækja í einhverjar Stórar systur– sem reynast ekki fullkomnari en svo að krafa þeirra um tilfinningahlaðið, fallegt kynlíf nær ekki alltaf til þeirra sjálfra. Og þær nýta sér stundum það frístundakort sem samfélagið hefur útdeilt til þeirra sem vilja geta gripið til ábyrgðarlauss og klínísks kynlífs. Myndi það skipta einhverju máli? Væru þær eitthvað verri fyrir það?
Mér er nær að halda að í kynferðismálum þurfi maður að umbera töluvert meira en ídealið segir til um. Og að öll hvatning til „betra“ kynlífs eigi að vera jákvæð og uppbyggileg (sá sem virkilega trúir á ídealið um jákvætt, uppbyggilegt og nauðungarlaust kynlíf ætti að mínu viti að sýna fordæmi og láta nálgun sína gagnvart þeim sem hann vill breyta ráðast af sömu samskiptanormum og hann er að reyna að innprenta. Það skýtur skökku við að berjast gegn virðingarleysi og nauðung með virðingarleysi og nauðung). Að auki tel ég að maður skyldi aldrei, þótt það væri ekki nema forsögunnar vegna, nota náttúrulegt samhengi sem rök í kynferðismálum.
Vissulega á að taka hart á misbeitingu, nauðgunum og ásælni í börn. En á sama hátt og nauðgun verður ekki afsökuð af klæðnaði, daðri eða nokkru öðru – þá verður vændi ekki sjálfkrafa notað sem sönnun þess að þar fari fram ónáttúrulegt, óeðlilegt og mannskemmandi kynlíf. Og jafnvel þótt maður kæmist persónulega að þeirri niðurstöðu að svo væri – þá þarf maður að gera sér grein fyrir því að við sem samfélag höfum kosið að veita hverju öðru það svigrúm að jafnvel heimskulegt, mannskemmandi og óheilbrigt kynlíf er réttur manns. Meira að segja réttur sem á stundum er ofar tilfallandi landslögum.
Þá myndi ég forðast það að dæma víðtækt fyrirbæri út frá jaðardæmum. Mér dytti t.d. aldrei í hug að það væri sanngjarnt að krefjast þess að skemmtistöðum bæjarins yrði lokað vegna þess að ég gæti fundið handfylli af óheilbrigðum og jafnvel ólöglegum kynferðissamskiptum hverja nótt. Þar sem eldri menn væru jafnvel að sofa hjá 15 ára stelpum. Það vita allir að það tíðkast.
En lausnin á þeim vanda er varla að banna öllum að fara á djammið. Er það?
1 ummæli:
Kettirnir mínir stunda "náttúrulegt kynlíf". Eftir lóðarí koma þær heim, bitnar og blóðugar eftir 3-4 fress, nánast örmagna af hungri og þreytu eftir að hafa andskotast ýmist á almannafæri eða bak við ruslatunnur linnulítið í 2 sólarhringa. Það hentar þeim sjálfsagt prýðilega en sjálf kýs ég ónáttúrulegt kynlíf eins og flest annað fólk.
Skrifa ummæli