22. september 2011

Vill einhver femínisti segja mér...

Það hefur stundum hvarflað að mér að fara í kynjafræði. En þó hefur áhugi minn á því jafnharðan minnkað. Mér hefur nefnilega sýnst vera svipuð stemmning þar og í guðfræðinni. Það er eitthvað grugg í „fræðunum.“ Eitthvað grugg sem menn eru sammála um að vera ekkert að þyrla upp.

Menn eru ekkert voða mikið í því, held ég, í guðfræðinni að velta því fyrir sér hvort guð sé til – eða hvaða áhrif það hefði ef hann væri ekki til. Þótt menn snerti örugglega á spurningunni. En ég held menn höndli þessar pælingar alltaf með hvíta hanska.

Eins er það með kynjafræðina að mér hefur fundist eins og hún sé eflingarstöð fyrir jafnaðarfemínista. Að þar séu hanskarnir líka hafðir á höndunum þegar kemur að vissum spurningum.


Ég veit svosem ekkert um þetta. Og hef í raun ekkert til marks um þetta annað en að lygilega hátt hlutfall guðfræðinga trúir á guð (sem bendir til þess að þeir hafi ekki tekið málið til gagngerrar skoðunar) og að álíka lygilegt hlutfall kynjafræðinga eru jafnaðarfemínistar.

Það er eitt atriði sem hefur alltaf pirrað mig við femínisma. Og þetta er atriði sem er ekkert bara bundið við hann. Nákvæmlega sami hlutur angraði mig þegar ég lærði um fjölgreindarkenningu Gardners. Þar sem ég sat og hlustaði á kennarann þylja upp einkenni hinna og þessa greinda þá kviknaði hjá mér þessi pæling: „Hægan nú. Þessi maður virðist hreinlega geta valið hvaða eiginleika sem hann kýs og kallað hann greind. Andstæðir eiginleikar verða þá samkvæmt skilgreiningu greindarskortur. Samt virðist ekkert því til fyrirstöðu að kalla þá greind og andstöðuna skort á greind.“

Og ég dembdi þessari spurningu á kennarann og fékk til baka augnaráð sem einna helst mætti lýsa þannig að það er augnaráðið sem maður gæti búist við ef maður spyrði belju hvað klukkan er.

Nú eru greindirnar hans Gardners sjö eða átta. Og fleiri eru til. En hvers vegna skyldi t.d. hæfileikinn til að geta „sett sig í spor annarra“ og „upplifað tilfinningar þeirra“ gegnum svipbrigði og aðrar vísbendingar kallast greind? Andstæða þessa hæfileika gæti t.d. verið að geta tekið rökréttar og lífsnauðsynlegar ákvarðanir við mjög krefjandi aðstæður. Með því að vera tilfinningalega „brynjaður“ gæti maður gert mikið gagn. Það er nefnilega ekki það sama að vera illgjarn og ómeðvirkur þegar kemur að tilfinningum. Maður þarf ekki að finna sársauka einhvers annars til að hafa áhuga eða hvöt til að hjálpa. Og hvað með hæfileikann til að kæra sig kollóttan um vilja annarra og ná þeim á vald sitt. Fá fólk til að verða viljalaust verkfæri í höndum manns. Er það greind? Allavega, punkturinn er sá að þótt tilfinningagreind eða hvaða greind sem er sé vissulega hæfileiki, þá er alls ekkert sjálfgefið hvaða hæfileikar eiga að teljast til marks um greind og hverjir ekki.

Og hið sama á við um baráttu femínista eins og hún blasir við mér. Meginstef í baráttu femínista er að berjast gegn kerfisbundnum ójöfnuði. Það er gott og blessað. En mér finnst enganveginn blasa við (ef maður veður bara í málið í stað þess að kroppa í það) hvað það er sem maður vill jafna. Af hverju eru laun t.a.m. svona mikilvæg? Og af hverju viljum við fá kvendoktora, kvenráðherra, kvenforstjóra? Af hverju hömumst við svona við að reyna að jafna innan einhvers kerfis, sem í raun hefur enga réttlætingu aðra en þá að það var til staðar þegar við byrjuðum.

Af hverju snérist baráttan um streymi kvenna út á vinnumarkaðinn – en ekki um streymi karla inn á heimilin? Ef við erum spurð er fjölskyldan og heimilið alltaf í fyrsta sæti, hjá báðum kynjum. Og það má m.a.s. vel færa rök fyrir því að það hafi alls ekki hallað á konur í því batteríi þegar þær gátu verið heima með börnin en karlinn þurfti að púla í einhverju andlausu, hægdrepandi djobbi. Hvað ætli karlmenn fyrri ára hafi eytt miklum hluta æfinnar í tilgangslaust og innihaldslítið brauðstrit?


Konur fóru að vinna. Síðustu áratugi hefur staðan breyst þannig að laun hafa lækkað sem hlutfall af virði framleiðslunnar. Starfsfólkinu hefur fjölgað og allir bera minna úr býtum. Og nú er svo komið að það er eiginlega ekki hægt að lifa af á einum launum. Það, að konur urðu fjárhagslega sjálfstæðar, og gátu þar með losað sig undan peningavaldi eiginmanna sinna hneppti þær jafnharðan í annað fangelsi, vegna þess að verðlag fór að miðast við laun tveggja. Nú er staðan sú að menn hafa það ekkert mikið betra – og heimilin eru vanrækt. Þeir einu sem græða eru fjármagnseigendur sem fá skyndilega tvöfalt meira vinnuafl. Börnin hanga á stofnunum. Foreldrar koma heim um svipað leyti og þau fara á íþróttaæfingar. Það er helst að menn spjalli saman á Feisbúkk.

Það hefði nefnilega alveg mátt snúa þessu á haus og berjast fyrir jafnri þátttöku kynjanna í heimilisstörfum eða barnauppeldi. En af því karlarnir höfðu engan sérstakan áhuga á því, kunnu það illa og töldu kannski ekki sæmandi, þá snérist baráttan öll um að konur reyndu að gera það sem karlarnir þó vildu gera.

En ef maður jafnar heiminn þannig að konur reyni að vilja það sem karlar vilja – þá er ekkert endilega verið að bæta heiminn. Því karlar eru allsekki góður mælikvarði á það sem skiptir mestu máli í lífinu. Og þá vanrækir heimurinn það sem karlar vilja ekki. Því konur geta ekki gert allt. Það er ekki tilviljun að póstergörl fyrir kvenfrelsi er stráksleg kona að hnykla vöðva.
Karlar hafa t.d. alltaf verið voða hrifnir af því að vera framkvæmdastjórar eða yfirmenn. Að ráða yfir einhverjum hefur alltaf verið pínu kikk. En svo þegar málið er skoðað þá kemur í ljós að það er í sjálfu sér ekkert voða merkilegt að vera yfirmaður. Yfirmenn í mörgum fyrirtækjum og stofnunum eru oflaunaðir þjónar. Þeir sjá um að þeir sem vinna raunverulegu vinnuna hafi það sem þeir þurfa. Fólk getur auðveldlega unnið saman án þess að hafa eitthvert valdakerfi. Valdakerfi er eiginlega bara nauðsynlegt þegar verið er að reyna að fá einhvern til að gera eitthvað sem hann vill ekki – eins og að skjóta annað fólk eða láta skjóta sig. Þá þarf yfirmenn, forningja, liðþjálfa og þvíumlíkt.  Valdakerfi vinnustaðanna er fyrst og síðast stríðsleikur á friðartímum.

Ef menn nú aðeins þyrðu að stíga burt frá samfélaginu og spá í það frumlega þá kæmi í ljós að flestir yfirmenn eru hreint ekkert yfir neinu. Þeir eru bara samstarfsmenn með örlítið annað starfshlutverk. Og oftast ekki einu sinni ástæða til að borga þeim neitt meira. Það reynir voða lítið á yfirmenn umfram aðra starfsmenn nema í tilfellum þar sem starfið sjálft er svo leiðinlegt eða starfsmennirnir svo vansælir og illa launaðir – að yfirmenn verða mikilvægir eins og liðþjálfar í her.


Hvers vegna skyldu menn ekki mölva burt þennan yfirmannastrúktúr og búa til alvöru net skapandi jafningja sem hver um sig tekur hluta af ábyrgðinni og menn deila á sig launum ónauðsynlega yfirmannsins? Það gæti verið samfélagsbætandi.

En nei, við höfum þess í stað hamast við að reyna að fjölga kvenkyns yfirmönnum. Við snertum ekki við kerfinu sem slíku, heldur reynum að jafna kynjahlutföllin innan þess. Það ekki aðeins styrkir kerfið í sessi heldur veldur mikilli sóun. Bæði karla og konur fara þá að keppast um sama fánýta markmiðið.

Jöfnuður er á endanum ekkert sérstaklega gáfulegt markmið. Algjör jöfnuður er algjör einsleitni. Einsleitni er ekki aðeins vont markmið, hún er eitthvað sem borgar sig að forðast.

Hvað er þá gáfulegt markmið?

Ef maður spyr femínista hvers vegna mikilvægt sé að jafna hitt og þetta þá er svarið það að með þessari jöfnun togar maður og teygir kerfi sem þrengir að konum. Við það kemur slaki á allt kerfið – og konur geta hreyft sig betur – þótt karlar hafi nú kannski minna rými vegna þess að spottarnir sem hertu að konum eru nú nær þeim en þeir voru.


Og þess vegan verður kynjafræði spennandi. Því það er væntanlega vísindaleg rannsókn á þessu fyrirbæri. Og þá myndi ég spyrja hvort menn væru ekki oft hreinlega að toga í vitlausa spotta. Að menn væru einfaldlega að fjölga konum í karllægu kerfi sem væri eins og að fjölga konum undir árum á skipi þar sem karl heldur um stýrið.

Og hvort ekki væri nær að reyna að breyta kerfinu á markvissan hátt heldur en að jafna kynjahlutföll innan þess. Ráðast jafnvel í víðtæka jafnréttisbaráttu. Hætta til dæmis að halda úti samfélagi sem hefur voða lítið við þig að gera ef þú ert aldraður, eða fatlaður, eða öðruvísi.


Reyna frekar að skapa samfélag sem horfir á einstaklinginn. Og kemur sér saman um æskileg gildi. Eins og það að hver einstaklingur eigi að njóta sín og verða skapandi eining í samfélagsvefnum. Og að samfélagið eigi að laga sig að fólki og hætta að vera hindrun.

Og þá er manni sagt (og mér hefur verið sagt) að maður sé að drepa málinu á dreif. Taka athygli af réttindabaráttu kynjanna. Það eigi allir að vera að moka kolum í þann ofn núna.

Þetta má skilja þannig að það komi seinna að öldruðum og fötluðum og öðrum. Fyrst sé að jafna stöðu kynjanna.

Og þá spyr ég á móti: Ef við tökum aðeins þessi kynjagleraugu niður og einbeitum okkur að persónulegu frelsi og því að hámarka möguleika hvers og eins til að verða herra (eða frú) eigin lífs, kemur þá ekki jafnrétti kynjanna af sjálfu sér? Þótt tölfræðilegur jöfnuður verði ekki endilega niðurstaðan?

Og þá er sagt: Nei, því um leið og við gerum það sofnum við á verðinum og festumst í því neti hefða og siða sem haldið hefur aftur af konum hingað til. Sem og öllum öðrum en körlum.

Og þá spyr ég: Er virkilega hægt að kalla það að losna úr neti „feðraveldisins“ að færa sig bara til í því? Því meðan maður leggur svona mikla áherslu á mælanlega þætti innan kerfisins þá hljóta menn að viðhalda kerfinu. Eru þeir hlutir sem menn hamast við að mæla og jafna endilega svo eftirsóknarverðir? Og eru þær fórnir sem menn færa til að ná þessum jöfnuði endilega samfélagsbætandi?

Og það er þetta sem ég myndi gjarnan heyra einhvern djúphugulan femínista segja mér.


32 ummæli:

Helga Þórey Jónsdóttir sagði...

Ég skal segja þér hvað mér finnst.

Það sem þú óskar eftir að femínismi gangi út á (mv. þennan pistil), er nokkurnveginn það sem hann gengur út á.

Það sem þú heldur að femínismi gangi út á (skv. þessum pistli) er það sem misvitrir segja um femínisma til að sverta hann.

Femínistar vilja einmitt jöfnuð fyrir ALLA þótt konur hafi vitaskuld beitt sér meira fyrir sínum réttindum (t.d. fara út á vinnumarkaðinn). Við gerum okkur grein fyrir að misréttið vinnur ekki bara gegn konum, heldur líka körlum og þ.a.l. öllu samfélaginu. Kynjakerfið heldur einstaklingnum niðri og leyfir honum ekki að njóta sín til fulls. Alveg eins og ég vil fá sömu laun fyrir sömu vinnu og þú þá vil ég líka að sonur minn geti verið með bleikuna í friði, grátið án þess að vera kallaður aumingi, orðið hjúkrunarfræðingur án þess að vera talinn metnaðarlaus og þar fram eftir götunum... Þú skilur hvað ég á við.

Færslan innan feðraveldisins sem þú talar um er, að mínum dómi, lítil vegna þess að kvenréttindum eru ennþá veitt alveg hrikalega mikið viðnám. Og ég veit ekki um neinn femínista sem vill vera eins og karl eða ganga inn í þann strúktúr, þvert á móti. Ég held að fólk geri sér almennt grein fyrir því að það þarf að umbylta kerfinu eigi raunverulegt jafnrétti að ná fram.

Þorsteinn sagði...

Tja, erfitt að svara svona löngum pósti. Ég sé ekki betur en að þú sért að koma með ákveðinn punkt sem er afar vel þekktur innan femínisma og ekki rétt að femínistar forðist hann. Það er sumsé marxíski punkturinn, um einmitt að það sé tilgangslaust að berjast fyrir betra lífi inni í ríkjandi kerfi, heldur þurfi að bylta því og byggja upp nýtt.

En andstæðu rökin við þetta eru líka afar þekkt: gamla andstaðan milli sósíaldemókrata og byltingarmarxista. Að það sé alls óvíst hvort byltingin myndi skila neinu, að hún sé erfið í framkvæmd, og svo hin nýju rök að fólk hafi það raunar mjög gott í okkar nútímasamfélagi og það sé allt í lagi að breyta kerfinu hægt svo það verði manneskjulegra í stað þess að bylta því. Það sé einfaldlega vænlegra. Ég er frekar á þeirri skoðun sjálfur.

Varðandi það að femínistar hugsi ekki nóg um gamalt fólk og fatlaða, þá verð ég að segja kommon. Við missum ekkert álit á Ghandi út af því að hann hafi bara barist fyrir sjálfstæði Indlands frekar en allra annarra nýlenda. eða á Martin Luther King fyrir að láta sér standa á sama um frumbyggja N-Ameríku. Hver hópur á sér sína réttindabaráttu, og barátta kvenna er femínismi.

Hann er svo nátengdur sósíalísku hugmyndinni um jöfnuð fólks þrátt fyrir aldur, kyn, stöðu, kynþátt og stétt og alles. En undir sósíalisma má margt rúmast, og það dregur ekkert úr því, né þá úr sósíalisma.

Þetta er allavega mín tilraun til svars, en kannski er ég algjörlega að misskilja að hér sé einhver sósíalistavínkill.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Takk fyrir þetta.

Ég vil í sjálfu sér ekki að femínsmi gangi út á eitt eða neitt. Femínismi verður alltaf skilgreindur sem kynjað sjónarhorn. Ég vil afneita því sem of þröngu. Þótt margvíslegir hlekkir ófrumleika, vanmáttar og aflleysis birtist vissulega á mismunandi hátt eftir kyni þá er kyn aðeins ein af mörgum breytum. Vandinn er ófrumleikinn, vanmátturinn og aflleysið. Ég held m.a. að „valdastaða“ karla sé stórlega ýkt og misskilin. Því með því að ætla mönnum vald þá er verið að gera það sem aðgreinir þá frá konum að einhverju eftirsóknarverðu, t.d. háum embættum, starfstitlum o.s.frv.

Hvað ég held að femínismi sé miða ég við þann femínisma sem ég verð var við í umræðunni. Sem gengur mikið til út á að jafna hlut karla og kvenna. Eins og jöfnuðurinn sjálfur sé eftirsóknarverður. Áherslan er tekin skipulega og markvisst af einstaklingnum, aðstæðum hans, möguleikum og veruleika – og hið stóra félagslega samhengi og óljós ávinningur notaður sem einhver pragmatískur kvarði. Þannig á einhver kassastrákur í Hagkaup sem fær sömu skítalaunin og stelpan á kassanum við hliðina að sýna sóma sinn í að þegja þegar stelpunni er hyglað, því hann hafi (næstum með erfðasyndugum hætti) erft svo mikið forskot á stelpuna.

færsla innan „feðraveldisins“ er alls ekki lítil. Ef þú horfir á menntakerfið. Það hvernig konur hafa smám saman tekið yfir „vegtyllur“ og embætti innan þess. Hvernig þeim fjölgar í hópi skólastjóra og langskólagenginna. Menntakerfið (fyrir utan að veita menntun) er einmitt óttalegt karlakerfi. Sem byggði á æviráðningum misvitra karla sem stunduðu formlega (og alls ekki alltaf innihaldsríka) kennslu þar sem hver kom á fætur öðrum í von um að menntunin veitti ákveðna félagslega stöðu. Fæstir hefðu tekið próf ef þeir hefðu ekki mátt láta vita af því. Með þessum fjöðrum skreyta konur sig í vaxandi mæli og svo mjög að það getur litið út sem verið sé að snúa við spilinu.

En menntakerfið hefur ekki að sama skapi batnað eða breytt um eðli sitt við þetta nema að takmörkuðu leyti. Gráður gengisfalla, eins og starfskraftar gerðu áður. „Völdin“ færast frá menntafólki til viðskiptalífs (sem er smekkfullt af körlum) eða iðnaðarins (dittó).

Það er ekki hægt að sigra sjúkdóm með því að ráðast á einkennin. Neikvæður kynjamunur er einkenni á sammannlegri heimsku sem hefur ekkert með kynferði að gera. Þessi heimska verður aðeins upprætt ef forheimskandi bönd eru tekin af hverjum einstaklingi óháð kynferði, fötlun eða aldri.

Það má vel vera að þessi sýn sé hin sama og femínistans. Enda hef ég alltaf haft vissa samúð og skilning með grundvallarstefnunni. En því fer fjarri að ég geti samþykkt nema brot af því sem er gert og sagt í nafni femínisma. Og ég hef ítrekað fengið að heyra að allt tal um jafnrétti fatlaðra (sem er mér mjög hugleikið) og aldraðra sé til trafala, flækist fyrir, flæki myndina.

Þannig að ef einhverjar illgjarnar eða heimskar sálir eru að koma óorði á femínisma, þá get ég lofað þér að hvað mig varðar eru það ekki óvinir hans sem hafa prentað þessa mynd af honum.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Þorsteinn, ég er ekki að biðja um byltingu. Einhverja óraunhæfa hugmynd um nýtt og breytt samfélag í einu vetfangi.

Ég er raunar að andæfa marxísku og sósíalísku straumunum í femínisma. Sem eru svo samofnir (að mér virðist) að menn greina ekki á milli femínismans og þeirra.

Það sem ég er að segja er einmitt þetta að þegar þú segir að maður áfellist ekki Ghandi fyrir að berjast ekki af sama krafti gegn rasisma Breta í S-Afríku – þá er maður kominn á hála braut.

Konur eru ekki einn samfelldur hagsmunahópur. Það er ekkert sem kemur konum vel sem um leið myndi ekki koma fötluðum, öldruðum eða hverjum sem er vel um leið. Konur eru enda u.þ.b. helmingur þessara hópa líka.

Það sem siðað samfélag ætti að geta orðið sammála um er að fólk eigi að vera frjálst til að lifa sínu lífi (öðrum að skaðlausu) með þeim hætti sem það kýs – og það sé skynsamlegt að samfélagið skapi aðstæður þar sem fólk getur verið frjálst og frumlegt í lífsvali. Fólk sé með öðrum augum hvatt til að hugsa líf sitt í stærra samhengi en við erum vön. Að það arki ekki allir sömu ófrumlegu leiðina frá vöggu til grafar.

Fólk hefur hlekkjað sig í hugarfar frá örófi alda. Birtingarmyndir þessara hlekkja eru síbreytilegar. Þær birtast líka á mismunandi hátt eftir því hvort um er að ræða róna eða broddborgara, fríðan eða ljótan, hávaxinn og lágvaxinn, svartan eða hvítan.

Það sem öllum þessum hlekkjum er sameiginlegt er að sammannleg, almenn skynsemi heggur í þá skörð, ef henni er beitt. Það stenst enga skoðun að hlekkja heilt kyn í fordómahlekki. Á sama hátt og allir hljóta að sjá að það er ósvinna og fullkomin sóun að við skulum sturta gamla fólkinu okkar á ömurlegar stofnanir þar sem það veslast upp illa hirt og afskipt af því við erum of upptekin í einhverjum peningalegum stólaleik, sem þau eru of gigtsjúk og hrun til að taka þátt í.

Auðvitað eigum við að leyfa gömlu fólki að þrífast og dafna í samfélaginu okkar, því samfélagið hagnast allt á því þegar einstaklingar innan þess fá frelsi og vald yfir eigin lífi.

Sama gildir um fatlaða. Og við segjum ekki, nema við séum óforskammaðir dónar, að það sé aldraðra og fatlaðra að berjast fyrir sig.

Við eigum, öll sem getum og erum sammála því, að berjast fyrir hvern einasta einstakling – óháð kynferði, óháð aldri, óháð öllu. Það á hver einasta manneskja að fá eins mikið og fjölbreytt vald yfir eigin lífi og mögulegt er. Við eigum ekki að horfa á kynferði fólks. Við eigum ekki að einblína á samfélagið út frá æxlunarfærum.

Sú ákvörðun að rannsaka og reyna að skilja samfélagið út frá sjónarhól kvenna er of þröng.

Þorsteinn sagði...

Tja, sú ákvörðun að rannsaka og reyna að skilja samfélagið út frá sjónarhóli allra er of víð. Þetta hefur verið reynt og hefur misheppnast. Hvernig nákvæmlega berst þú fyrir réttindum allra? Hvar byrjarðu?

Hvergi. Hvar sem þú byrjar ert þú að mismuna þeim sem þú byrjar ekki á, og hreyfingin (samkvæmt þeim reglum sem þú hefur sett henni) má ekki mismuna. Félagslegar breytingar gerast ekki svona yfir línuna - það þarf að mynda hóp sem berst fyrir sínu. Og vona að margir hópar myndist sem allir berjast fyrir sínu. Þá breytist eitthvað. Þetta er auðvitað sósíalismi.

Þín hugmyndafræðilega afstaða er annarsvegar frjálshyggjuafstaðan (allir eiga að vera frjálsir út af fyrir sig í sínu horni og það er ekkert samfélag til) með aðdáunarverðri umhyggju fyrir fötluðum og öldruðum bætt inn í. Og eins og flestar deilur eru þetta deilur um hugmyndafræði í rótina - ég er ósammála frjálshyggjuafstöðunni, sammála afstöðunni til aldra og fatlaðra, en ekki sammála því að maður sé að bregðast þeim með því að berjast fyrir réttindum kvenna. Fatlaðir berjast fyrir sínu, kröftuglega, en aldraðir minna, og alveg satt að það er skammarlega hugsað um þá - ég er fyrrverandi starfsmaður á afar slæmu elliheimili og veit fullvel af því.

Ég held hinsvegar að maður bregðist þeim fyrst þegar maður einmitt tekur upp frjálshyggjuna, að þau verði bara að sjá um sig sjálf, enda sé hver sinnar gæfu smiður. Og ég held að það sama gildi um konur.

Nafnlaus sagði...

„Við eigum, öll sem getum og erum sammála því, að berjast fyrir hvern einasta einstakling – óháð kynferði, óháð aldri, óháð öllu. Það á hver einasta manneskja að fá eins mikið og fjölbreytt vald yfir eigin lífi og mögulegt er. Við eigum ekki að horfa á kynferði fólks. Við eigum ekki að einblína á samfélagið út frá æxlunarfærum.

Sú ákvörðun að rannsaka og reyna að skilja samfélagið út frá sjónarhól kvenna er of þröng.“

Elsku kallinn, farðu þá bara í þá baráttu, eru femínistar að hamla þig í því? Af hverju lætur þú þá ekki bara í friði og berst fyrir nýjum og bættum heimi á þinn hátt? Af hverju finnst þér þú fyrst þurfa að elímínera femínismann? Eða ertu bara í einhverjum morfísleik hérna? Verði þér þá að góðu!
Kveðja, Kristín.

Helga Þórey Jónsdóttir sagði...

Ég reyndi að útskýra þetta fyrir þér og ég skal segja þér þetta aftur: Þín túlkun á femínisma er byggð á misskilningi.

Þú virðist ekki hafa neinn raunverulegan áhuga á að kynna þér og taka þátt í jafnréttisbaráttu. Þú virðist hafa meiri áhuga á því að gagnrýna hana og mynda þér skoðun á því hvað er þér þóknanlegt og hvað ekki.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Þorsteinn, það að hugsa út frá sjónarhóli allra er alls ekki of vítt. Ef svo væri, þá væri tilgangslaust að berjast fyrir mannréttindum. Þau hefðurðu (eða átt að hafa) óháð öllu.

Mannréttindi eins minnka ekki rétt annars til neins, nema þess sem hann á enga heimtingu á.

Ég lít ekki svo á að ég sé neinn sérstakur frjálshyggjumaður. Síður en svo eiginlega. Mín afstaða er samt sú að hver maður eigi að hafa eins mikið vald yfir lífi sínu og mögulegt er en jafnframt að það sé samfélagsins að tryggja að möguleikar séu til staðar.

Þú þekkir elliheimilin. Þú veist að við umberum það í okkar samfélagi að fólk veslist upp á illa mönnuðum stofnunum án þess að njóta þar neinnar reisnar.

Ég er ekki frjálshyggjumaður sem geri undantekningu fyrir aldraða og fatlaða. Ég styð mannlega reisn hvar sem hún birtist. Og ég held allir geri það í raun. Og þess vegna held ég að mannleg reisn sé eitthvað sem allir ættu að geta komið sér saman um að reyna að tryggja.

Að fólk fái að lifa með sæmd.

Þeir sem halda því fram að eina leiðin til að tryggja fólki mannsæmandi líf sé að byrja á því að jafna stöðu tveggja tiltekinna hópa, og svo komi hinir á eftir, eru að mínu mati að missa sjónar á aðalatriðinu.

Það var aldrei þess tiltekna staða sem málið snérist um. Hún var aðeins til marks um einhverja gliðnun eða galla í samfélaginu. Og þótt þú togir saman barmana á gryfju og bindir saman þá er áfram holt undir.

Kristín. Ég tek þessa baráttu á hverjum degi. Í starfi þar sem ég hef í höndunum börn sem eru á jaðri samfélagsins og berst fyrir því ásamt öðru eins þenkjandi fólki að koma taumum í hendur þessara barna áður en þau útskrifast. Ég tek þátt í að rjúfa múra utan um fatlaða. Síðast í dag bar ég lamað barn á bakinu upp stiga til að það færi ekki á mis við það sem önnur börn voru að gera.

Þetta er ekki Morfís. Ég hef horft á dreng eftir dreng, stúlku eftir stúlku, hverfa ofan í hyl ráðaleysis og valdleysis fyrir eigin lífi. Ég hef horft upp á heilbrigðisstarfsmenn og starfsfólk á elliheimilum sem ætti frekar að vinna á sláturhúsum, gera líf fólks sem getur ekki varið sig ömurlegt, innihaldslaust og tilgangslaust.

Það að þú skoppir hér fram og segir, vertu þá bara í því. Erum við að stoppa þig? Virkar pínu eins og maður sé búinn að benda á að það sé verið að keyra á börn í tiltekinni götu og það vanti hraðahindrun og þá komi fram manneskja sem segir: þú skalt bara berjast fyrir þinni hraðahindrun. Láttu okkur ekki trufla þig. En við ætlum að berjast áfram fyrir niðrufellingu skatta á tvinnbílum. Hvaða þörf hefur þú fyrir að eilíeneita vetnisbíla?

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Helga, hvernig væri að benda á dæmi um misskilning í stað þess að fullyrða bara að hann sé til staðar?

Hvað er það sem ég skil ekki?

Er það rangt að femínismi snúist um að velja sjónarhorn kvenna á samfélagið?

Er það rangt að femínistar hafi sagt að þeir sem vilja víkka út jafnréttisbaráttuna séu að drepa málinu á dreif? (Viltu nöfn)

Er það rangt að með því að einblína á það sem karlar hafa haft til marks um vegtyllur (launakrónur, embættistitlar, starfsheiti) og jafna hlut kynja – þá eru konur að festa í sessi karlakerfi í stað þess að taka þátt í að búa til ný kerfi?

Hvar liggur stóri misskilningurinn?

Nafnlaus sagði...

Ragnar, ég á ekki til eitt aukatekið orð. Þú ert dásamlegur. Ég er farin út að byggja hraðahindrun og svo ætla ég að bera fatlaða drenginn yfir hana. Æh, í alvöru, hverju á ég að svara? Hvað ertu að fara? Hvað viltu? Ég bara ... í alvöru talað, ég bara næ þér ekki. Hvaða barn ók ég á?
Ég hef líka unnið í heilbrigðisgeiranum, með mjög fatlað fólk og séð hvernig sumt starfsfólkið hefði betur átt heima sem vistmenn, erum við að tala um það? Ha? Í alvöru?
Kveðja, Kristín.

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir þessi skrif, ég er alveg sammála.

Til hvers eru fatlaðir að berjast fyrir sínum réttindum? Hvað er bætt með því?

Allir að skreyta sig með fjöðrum.

Þeir eiga að breyta öllum strúktúrnum - hver segir að það sé betra t.d. að ganga en að láta bera sig?

Kreddur. Fjaðrir.

Af hverju tala aldraðir aldrei um umskurð kvenna? Hræsni.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Segið svo að femínistar séu bara stelpur með meira hár á löppunum en húmor í hausnum.

Helga Þórey Jónsdóttir sagði...

Dæmi um misskilning:

1. Konur eru ekki einn samfelldur hagsmunahópur.
- Þetta heldur enginn. Það er meira að segja mjög virk umræða um þetta innan femínismans.

2. Það hefði nefnilega alveg mátt snúa þessu á haus og berjast fyrir jafnri þátttöku kynjanna í heimilisstörfum eða barnauppeldi.
- Þetta er það sem femínismi hefur alltaf gengið út á.

3. Af hverju snérist baráttan um streymi kvenna út á vinnumarkaðinn – en ekki um streymi karla inn á heimilin?
- Hún hefur alltaf gert það en því miður þykir mörgum körlum ennþá niðurlægjandi að sinna heimilinu. Ótrúlegt nokk.

4. Ef við erum spurð er fjölskyldan og heimilið alltaf í fyrsta sæti, hjá báðum kynjum. Og það má m.a.s. vel færa rök fyrir því að það hafi alls ekki hallað á konur í því batteríi þegar þær gátu verið heima með börnin en karlinn þurfti að púla í einhverju andlausu, hægdrepandi djobbi.
- Heimilisstörf eru líka hægdrepandi og andlaus hafir þú ekki áhuga. Karlar höfðu margir hverjir val um t.d. sem konur höfðu ekki. Konur voru bundnar fyrirvinnunni og gátu ekki farið frá þeim ef þær vildu/þurfu.

5. Hvað ætli karlmenn fyrri ára hafi eytt miklum hluta æfinnar í tilgangslaust og innihaldslítið brauðstrit?
- Að minnsta kosti jafn löngum hluta ævinnar og konur.

6. Nú er staðan sú að menn hafa það ekkert mikið betra – og heimilin eru vanrækt.
- Vanrækt af hverjum? Og víst hafa konur það miklu, miklu betra.

7. En ef maður jafnar heiminn þannig að konur reyni að vilja það sem karlar vilja – þá er ekkert endilega verið að bæta heiminn.
- Konur vilja ekki það sem karlar vilja, konur vilja það sem konur vilja.

8. Hvers vegna skyldu menn ekki mölva burt þennan yfirmannastrúktúr og búa til alvöru net skapandi jafningja sem hver um sig tekur hluta af ábyrgðinni og menn deila á sig launum ónauðsynlega yfirmannsins? Það gæti verið samfélagsbætandi.
- Þetta er það sem femínismi gengur út á og hefur alltaf gengið út á.

Varðandi karlakerfi sem konur festa í sessi. Þessi kerfi voru pikkföst í sínum sessi áður en konur komust að.

Og já, ég vil nöfn. Ég vil nöfn, rökstuðning og linka á færslur þeirra femínista sem eru svo hræðilegir að það má stöðva jafnréttisbaráttuna á meðan þeim er refsað fyrir ómennskuna.

Nafnlaus sagði...

Mér sýnist Helga Þórey bara hreinlega hafa keyrt yfir alla lömuðu drengina og rústað hraðahindrununum um leið. En Morfísdrengurinn Ragnar verður nú ekki lengi að koma með spennandi andsvör, svei mér ef mig kitlar ekki í bindishnútinn. Kveðja, Kristín.

Gústi Bergmann sagði...

Umræðurnar orðnar heldur heitar hérna!

Ég þurfti eiginlega bara að skrifa smá færslu um þetta. Hana er að finna hér:

http://gustiab.tumblr.com/post/10532495278/um-feminisma

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Ég held hreinlega að þú hafir ekki lesið í samhengið í því sem ég sagði. Þú sakar mig um að misskilja baráttu femínista og tekur dæmi sem eiga að sýna fram á neinn slíkan misskilning.

1. Þarna er ég að svara Þorsteini sem líkti konum við Ghandi og öðrum hópum við önnur lönd. Enginn misskilningur þar.

„2. og 3. Í seinna dæminu heldur þú því sama fram og ég held fram í því fyrra. Get ekki betur séð en við séum sammála um þetta.


4. Hér segir þú a) karlar gátu verið heimavinnandi og b) konur voru bundnar körlunum. Ég held fram að pressan á konur um að vera heimavinnandi var örugglega ekki meiri en á karla að vera útivinnandi. Og ég held því fram að í dag sé því miður vegna efnahags gríðarlega erfitt fyrir konur að vera einstæðar. Hagkerfið er hannað utan um pör. Erfiðleikar kvenna í þessu sambandi hafa færst til.


5. Hér endurómar þú mína skoðun.


6. Þú segir að konur hafi það miklu betra. Væntanlega almennt. Hér er ég að tala um það samhengi sem kom fram ofar að það sem við setjum öll í efsta sæti (samvera með fjölskyldu) sé ekki meiri nú en áður. Þvert á móti er samfélagið þannig að áherslan er á vinnumarkað en ekki heimili.


7. Þetta skilur þú ekki. Mótrökin eru út í loftið.

8. Hér segir þú að femínismi snúist um þetta, ég bendi á að þetta verði maður hvorki mjög var við né að mikill árangur hafi náðst. Konur streyma í gömlu, góðu karlastöðurnar. Karlar fara ekki í kvennastöður að sama skapi.


„Og já, ég vil nöfn“

T.d. fyrsta framkvæmdastýra Jafnréttisstofu. Hún sagði nákvæmlega þetta við mig sem ég vitna í.

„...rökstuðning og linka á færslur þeirra femínista sem eru svo hræðilegir að það má stöðva jafnréttisbaráttuna á meðan þeim er refsað fyrir ómennskuna.“

Restin af þessu er bull.

Nafnlaus sagði...

Takk, Gústi Bergmann. Kveðja, Kristín.

Helga Þórey Jónsdóttir sagði...

Það er tilgangslaust að ræða þetta við þig. Ég sé að ég hef sóað tíma mínum.

Nafnlaus sagði...

Frá HÞ (þínar staðhæfingar teknar út fyrst, svo hennar svör merkt með bandstriki):
„2. Það hefði nefnilega alveg mátt snúa þessu á haus og berjast fyrir jafnri þátttöku kynjanna í heimilisstörfum eða barnauppeldi.
- Þetta er það sem femínismi hefur alltaf gengið út á.

3. Af hverju snérist baráttan um streymi kvenna út á vinnumarkaðinn – en ekki um streymi karla inn á heimilin?
- Hún hefur alltaf gert það en því miður þykir mörgum körlum ennþá niðurlægjandi að sinna heimilinu. Ótrúlegt nokk.“

Þitt svar:
„2. og 3. Í seinna dæminu heldur þú því sama fram og ég held fram í því fyrra. Get ekki betur séð en við séum sammála um þetta.

Plís, geturðu lagt fatlaða barnið aðeins frá þér og verið skýr? Hvernig heldur Helga því sama fram og þú í hinu fyrra? Ég bara næ því engan vegin. Það á reyndar við öll svörin, ég næ þér ekki, en ég tók dæmið sem mér finnst dálítið fjalla um grundvallarmál femínismans.“

kveðja, Kristín

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Takk fyrir þetta, Gústi. Miðjan í þessu hjá þér er alveg sérstaklega góð. Endirinn fínn, en byrjunin ekki eins góð.

Ég er ekki að „skammast í femínistum“ fyrir að hafa komið konum út að vinna. Ég er að benda á að með því að berjast fyrir jöfnuði og velja tiltekin mælanleg einkenni eins og vinnuþátttöku eða laun – þá hafi konur gengið inn í kerfi og með þáttöku sinni og kerfishugsun fest í sessi kerfi sem halda áfram að hamla fólki og beina því ófrumlega og andlausa leið um lífið. Konur keppist nú um það sama og karlar gerðu áður. Karlar jafnvel færi sig bara til innan kerfis (og taki laun og völd með sér). En samfélagið batni ekki eins mikið og æskilegt er. Mikil áhersla femínista og annarra á mælanlega kerfisbundna hluti (eins og hlutfall doktora, forstjóra, launamun etc) stuðli beinlínis að því að ýkja eða viðhalda mikilvægi kerfisins.

Tökum dæmi. Ef við gæfum okkur t.d. að styttri vinnuvika væri mikilvægari en hærri laun, að því gefnu að hægt væri að lifa af laununum, og berðumst fyrir því að stytta hana. Greindum lengd hennar og reyndum að jafna milli þeirra sem vinna of lengi og hinna sem njóta þess að hafa hana styttri – þá værum við í raun að fást við alveg jafn gagnlega hluti og launamun en frá allt öðru sjónarhorni. Maður velur sér sjónarhorn.

Dæmið um lúna manninn og þreyttu konuna er aðeins til að sýna að kynin voru almennt ekki í neinni sérstakri aðstöðu til að öfunda hvort annað eða taka hitt til eftirbreytni. Lykill að betra lífi fólst ekki í því að annað gerði eins og hitt, heldur að bæði væru frelsuð frá ákveðnum fjötrum.

Ég veit vel að ákveðnir femínistar hafa tekið aðra minnihlutahópa með í reikninginn. En getur þú nefnt mér einhverja sem taka karla með í reikninginn. Og nálgast umræðuna ekki frá því að annað kynið hafi eitthvað sem hitt skorti – heldur að bæði kynin vanti eitthvað sem á er bætandi?

Vinnustaðavaldakerfi eru bara dæmi. Það eru miklu fleiri dæmi. En dæmið sýnir að valdapíramídar (hvort sem þú þekkir stelpur sem vilja völd eða ekki) eru ekki endilega eitthvað sem eftirsóknarvert er að klifra í. Það séu lausnir þarna úti sem við horfum ekki á meðan við erum upptekin af því að mæla hlutföll og prósentur á mismunandi hæðum í valdapíramídanum.

Og ég er einmitt ekki með einhverja eðlishyggju um mun kynjanna. Ég held að fjölbreytileiki mannsins liggi ekki eftir kynjalínum.

Meginrök þín eru þau að mín aðferð (sem er hálf femínísk í aðra röndina) sé of seinvirk eða óraunhæf. Réttindabætur í samfélaginu virki ekki nema á hópgrundvelli. Virki ekki nema sem barátta afmarkaðra hópa fyrir réttindum sem þeir vilja fá eða stöðu sem er sambærileg við aðra hópa. Upplýsingin hafi verið lengi til staðar án árangurs.

Það má vera. En sérhyglni held ég nú samt að sé ekki eina leiðin til þess að bæta samfélagið. Ég held að þessi hagsmunabarátta og flokkadrættir séu ósiðir sem standi raunverulegu lýðræði fyrir þrifum.

Einhver sagði að mannréttindabarátta gengi út á að hugtakið „maður“ fengi alltaf víðari merkingu eftir því sem tíminn liði. Ég held það sé kominn tími til að menn fari að berjast fyrir almennum réttindum allra til reisnar, ekki þannig að aldraðir (sem btw hafa það mun verr en konur í okkar samfélagi) séu fótnótur í réttindabaráttu kvenna.

Því ég verð að segja að ef árangur á að verða einhver hemill á hugmyndafræðilegu hugrekki og menn ætla að verða pragmatískir þá eru nú femínistar á kolrangri leið. Það er rétt svo að nýnasistar hafi meira óhræsisorð á sér. Femínistar eru tortryggðir og jafnvel hataðir. Álitnir karlhatandi öfgamenn og stelpulegir strákar. Fólk fær ógeð á að heyra nafnið. Og vill standa gegn öllu sem femínistar gera, þótt það sé eitthvað sem ætti að vera óumdeilt eins og að berjast gegn ofbeldi.

Þannig að ég kaupi það ekki að femínistar séu að einskorða sig við konur til að vera PC. Því ef svo er þá eru þeir alveg einstaklega lélegir í því.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Kristín. Ég sagði sjálfur í pistlinum að það hefðu verið karlar sem hefðu ekki tekið við hlutverkum á heimilum þegar konur fóru að vinna. M.a. vegna þess að þeim þætti það niðurlægjandi.

Það var samhengið við punkt 2.

Það er það sama og hún segir í punkti 3.

Og, veistu, ef þú hefðir einhverja sómakennd og einhvern grun um hvað þetta fatlaða barn sem þú ert að djóka með hefur þurft að þola, þá dytti þér ekki í hug að vera að reyna að slá einhverjar keilur með því að djóka með það.

Ég veit ekki hvað þú ert að reyna að sýna framá með þessari fyndni. Að ég sé heimskur? Geti ekki hugsað rökrétt fyrir tilfinningasemi?

Hvað sem það er, þá veit ég að lesendur þessarar síðu (svona almennt og yfirleitt) gera bæði þær kröfur til greindar sinnar og minnar að þú ert algjörlega að slá rangar nótur.

Og femínsiti að beita hótfyndni og hæðni í baráttu sinni er kannski besta ábendingarskilgreiningin sem hægt er að fá um það þegar konur hoppa inn í ósiði andstæðinga sinna í stað þess að reyna að fá þá til að taka upp betri siði.

Nafnlaus sagði...

Ég var ekki að gera grín að fötluðu barni, en ég hef enn ekki skilið, eftir sjö tíma svefn, hvers vegna þú dróst það inn í þessa umræðu. Né skil ég upp eða niður í því hvað þú ert að fara. Þú segir eitt en þegar því er mótmælt og komið með mótrök segistu segja það, og það í svo hryllilegum langlokum að mann langar meira að saga af sér fót en að analýsera það sem þú ert að reyna að segja. Ég gefst upp. Lifðu heill. Kristín.

Nafnlaus sagði...

Þú þarft að stilla þetta betur svo kona haldi ekki að hér séu engin komment.

Eva sagði...

Takk fyrir ágæta grein. Flestar þeirra athugasemda sem ég hef við hana eru þegar komnar fram. Einu langar mig að bæta við, þótt það tengist efni greinarinnar aðeins lauslega; þegar talað er um streymi kvenna út á vinnumarkaðinn, gleymist það stundum að alla tíð hafa komið tímabil þar sem konum var húrrað út á vinnumarkaðinn tímabundið. Á stríðstímum, á síldarárunum o.s.frv. Alltaf mátti notast við konur þegar þurfti að bjarga verðmætum eða auka framleiðslu og þjónustu á ákveðnum sviðum á stuttum tíma. Svo þegar ballið var búið, þá var skyndilega nauðsynlegt að einhver væri heima að sjá um börn og bú. Þetta er svolítið eins og með útlendingana. Allt í lagi að flytja þá inn í stórum stíl á uppgangstímum en láta þá svo róa þegar þrengir að.

Mér finnst frekar ömurlegt að um leið og konur öðluðust frelsi til að velja sér menntun og starf og þar með fjárhagslegt sjálfstæði, misstu þær möguleikann á því að sinna börnum og heimili. Þó hygg ég að flestum þyki það ásættanlegur fórnarkostnaður að missa einn kost en fá 10.000 aðra í staðinn.

Ég efast um að það sé rétt að kaupmáttur launa sé minni fyrir vikið. Ástæðan fyrir því að ein laun dugðu til framfærslu áður fyrr var sú að neyslan var minni. Fólk át ýsu þrisvar í viku af því að það hafði ekki efni á öðru. Sumarfríið var helgarútilega, bílum ekið þar til botninn ryðgaði úr þeim, eina dýra gjöfin sem börn fengu var reiðhjól, sælgæti munaðarvara sem var ekkert í boði daglega og námskeið og tómstundastarf hvort heldur fyrir börn eða fullorðna var munaður hinna vel stæðu. Það þótti síður en svo sjálfsagt að börn hefðu sérherbergi, konur fengu eldhússáhöld í jólagjöf frá maka sínum og karlar verkfæri. Auk þess unnu margir heimilisfeður myrkranna á milli bara til þess að ná endum saman.

Eva sagði...

Heyrðu já, og Gardner, ef greind er skilgreind sem hæfni til að leysa verkefni þá er nú varla hægt að tala um andstæða eiginleika t.d. stærðfræðigreindar eða íþróttagreindar sem greind eða hvað?

Dæmið sem þú nefnir um andstæðu samskiptagreindar er ekkert sérstaklega gott. Að geta brynjað sig tilfinningalega er engin andstæða þess að geta sett sig í spor annarra heldur ertu hér að lýsa því hvernig annað greindarsvið er sett í forgang og ákvörðun tekin út frá rökhyggju fremur en tilfinningum. Rökhyggja og tilfinningalegt innsæi eru ekki andstæður, ekki frekar en sköpunargáfa og nákvæmni.

Gústi Bergmann sagði...

Ég hef svarað þér aftur á: http://gustiab.tumblr.com/post/10552687198/um-feminisma-annar-hluti

kveðja,
Gústi

Eva sagði...

Pínu lélegt hjá Gústa að bjóða ekki upp á tjásur við pistlana sína. Gústi, þú virðist misskilja pointið algerlega. Rangar Þór er ekki að skamma feminista fyrir að hafa komið konum út á vinnumarkaðinn, heldur að velta upp þeirri kenningu að vandamálið sé kerfið sjálft, feðraveldið, kapítalisminn, sú hugmynd að sumir eigi að vera yfirmenn og aðrir undirmenn og manngildi þeirra metið út frá því. Kjarninn er þessi: "Er virkilega hægt að kalla það að losna úr neti „feðraveldisins“ að færa sig bara til í því? Því meðan maður leggur svona mikla áherslu á mælanlega þætti innan kerfisins þá hljóta menn að viðhalda kerfinu."

Ég sé heldur ekki þessa mynd sem þú talar um af hamingjusömu húsmóðurinni og vinnulúna eiginmanninum, hún hlýtur að vera í einhverri annarri grein.

Af hverju í ósköpunum er það svona viðkvæmt mál ef einhver hreyfir þeirri spurningu hvort jafnréttisbaráttan hafi og sé enn að styðja og styrkja samfélagsstrúktúr sem viðheldur misrétti? Er svona ægilega hættulegt að staldra við og hugsa málin upp á nýtt eða snýst þessi barátta kannski ekkert um jafnrétti, heldur um það að metnaðargjarnar og valdafíknar konur fái sinn skerf af kapítalinu á kostnað vesalinga af báðum kynjnum?

Eva sagði...

Og annað Gústi. Ég bendi líka á að meðal þeirra raka sem nefndir eru fyrir ágæti kynjakvóta eru þau að "karllæg" viðhorf séu of ríkjandi í stjórnkerfinu. Í kynjagreiningarskýrslunni sem gerð var eftir að rannsóknarskýrslan um hrunið kom út, er einmitt talað um metnað og áhættusækni sem karllæg gildi og þær konur sem hafa þessa þætti í áberandi mæli eru sagðar í "karlgervi" þannig að sú hugmynd að metnaður og valdagræðgi sé tengdari karlinum er hreint ekki óþekkt innan feministahreyfingarinnar. Það er því engin heimasmíðuð kenning hjá Ragnari að það sé eitthvað karlmannlegt við að vilja ráða yfir öðrum.

Sigurður Jónsson sagði...

Ja hérna. Þú virðist hafa hitt á viðkæma taug miðað við skætinginn sem þér er sýndur.

Ég er ekki sammála öllu sem þú skrifar hér en útgangspunturinn sem ég tek út úr þessu er ágætur. Mér finnst t.d. heilbrigt að spyrja sig að því hversu eftirsóknarverði þessi markmið eru og hvort þau leiði til ábata fyrir konur eða ekki.

Öll kerfi geta af sér jaðarhópa, femínismi er engin undantekning og í dag finnst mér bera mikið á fyrirlitingu í garð ákveðinna "gerða" af konum og sú fyrirlitning kemur mest öll frá femínistum.

Étur byltingin ekki alltaf börnin sín?

Kolbeinn Óttarsson Proppé sagði...

Hér er ýmislegt spaklega mælt, þó mér þyki stundum skorta á virðingu fyrir skoðunum annarra í þessari umræðu.

Ég verð þó að játa að ég klóra mér í hausnum yfir þessu kommenti þínu Ragnar:

"Og femínsiti að beita hótfyndni og hæðni í baráttu sinni er kannski besta ábendingarskilgreiningin sem hægt er að fá um það þegar konur hoppa inn í ósiði andstæðinga sinna í stað þess að reyna að fá þá til að taka upp betri siði."

Nú skilgreini ég mig sem feminista, en er þó uppfullur af hótfyndni og hæðni. Er ég þá að hoppa inn í ósiði andstæðinga minna? Hvaða andstæðingar eru það?

Mér finnst þetta minna óþægilega mikið á mýtuna um húmörslausa feministann, en vona að það sé misskilningur í mér.

Ég sé í það minnsta enga þversögn í því að feministi sýni hæðni og hótfyndni, alveg eins og annað fólk. Eða eru einhver eðliseinkenni feminista sem koma í veg fyrir það? Ég sem hélt að feministar væru jafn misjafnir og þeir eru margir.

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Eva, takk fyrir kommentin. Þau eru góð að venju.

Fyrst varðandi kaupmátt. Þá er auðvitað allt rétt sem þú segir. Samtsemáður er ég að miða við hlutfall launa af framleiðsluvirði vinnunnar. Ég sá fyrir fáum dögum línurit sem sýndi að (a.m.k. í BNA) eru laun, sem hlutfall af verðmætasköpun búin að snarlækka síðustu áratugi eftir nokkuð langt stöðugt tímabil. Fólk getur vissulega leyft sér ýmislegt sem það gat ekki áður en hlutfall hvers einstaklings af „góssinu“ hefur snarlega minnkað. Ef það hefði staðið í stað myndu ein laun gera miklu meira en að tryggja sómasamlegt líf.

En þetta má auðvitað ræða.

Og um Gardner. Greind er auðvitað flókin og margþætt. Langtímarannsóknir á greindarvísitölum hafa t.d. leitt í ljós að menn sem byrja með sömu GV skiptast um ævina í þrjá mjög misfarsæla flokka. En hæfni til að lifa farsælu lífi er líklega besta skilgreiningin á greind. Hæfnin til að leysa það verkefni sómasamlega.

Það sem ég á við er að menn geta valið næstum hvað sem er og kallað það greind. Tökum siðblinda einstaklinga. Hlutfall þeirra í fjármálaheiminum og hinum harða heimi samkeppnisviðskipta er t.d. tölfræðilega langt yfir meðaltali. Þeir hafa enda hæfileika til að koma sér þar fyrir með yfirborðskenndum sjarma. Þegar árangur þeirra í starfi er skoðaður kemur í ljós að þeir eru slakir í starfi en samstarfsmenn þeirra upplifa þá sem sökksess. Þetta er hæfileiki til lausnar ákveðnum verkefnum. En viljum við kalla siðblindu greind?

Ragnar Þór Pétursson sagði...

Kolbeinn, vissulega eru femínistar mislit hjörð. Hér er ég einungis að vísa til þess að umræðan um femínisma hefur yfirleitt og ítrekað rekist á þann vegg and-femínista að persónulegu níði, hótfyndni og ómálefnalegu dissi er beitt – og femínistar útmálaðir sem eitthvað kjánalegt og ófullnægt. Og ef reynt er að lemja burt þessa ómálenfalegu vitleysu eru menn sakaðir um húmorsleysi. Þetta er rauður þráður í allri umræðu um femínisma og herbragð sem femínistar verða oft fyrir.

Þess vegna þykir mér sérstaklega leiðinlegt að sjá svipuðum aðferðum beitt þegar reynt er að taka umræðuna málefnalega og opinskátt.

Það er nefnilega ekki það sama að vera með groddahúmor og að beita honum til að gera lítið úr viðmælanda sem maður er ósammála af því maður er ósammála.

En jú, asnar eru í öllum hópum.